05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (1954)

120. mál, athugun á nýjum björgunartækjum

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, en er að sjálfsögðu alveg samþykkur því, sem í till. felst, og mun þess vegna greiða henni atkv. En ég tel, að þurft hefði að orða skýrar veigamikil atriði, sem snerta efni hennar.

Sú athugun, sem till. gerir ráð fyrir, snertir öflun nýrra björgunartækja og fullkomnari öryggisútbúnaðar skipa yfirleitt. En auk þess þarf þessi athugun einnig að snúast um það, hvernig bezt verði við komið eftirliti með því, að allur öryggisútbúnaður skipanna sé á hverjum tíma í fullkomnu lagi og virkur, hvenær sem á þarf að halda. Á þetta hefur stundum þótt bresta. Þess vegna hefði mátt leggja áherzlu á þetta atriði í till. og eins það, að áhöfnum skipanna væri tryggð tilsögn og æfing í meðferð allra björgunartækja. Það er einnig mjög nauðsynlegt atriði. Öflun nýrra tækja, eftirlit með ásigkomulagi þeirra og kennsla í notkun, — öll þessi atriði verða að fylgjast að, þegar athugun sú, sem till. fjallar um, fer fram.

Með þessum fyrirvara get ég greitt till. atkv. Það er gert ráð fyrir, að ríkisstj. hafi samráð við Slysavarnafélag Íslands sem sérfróðan aðila. En ég tel, að eigi síður þurfi hún að hafa samráð við annan aðila sérfróðan, nefnilega skipaskoðunarstjóra, sem mun vera manna bezt að sér um þessa hluti, og hefði gjarnan mátt geta þess í till., en væntanlega bætir hæstv. ríkisstj. úr því.