05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (1962)

84. mál, flugsamgöngur

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu á þessu máli. Það er að vísu orðinn allmikill dráttur á nál., en mér er kunnugt um, að það er ekki sök hv. allshn., heldur er ástæðan sú, að flugmálastjórinn beið eftir upplýsingum erlendis frá um reynslu þá, sem nú er fengin á þeirri flugvél, sem ég benti á, í framsöguræðu minni. Ég lagði aðaláherzluna á það, að Íslendingar fylgdust svo vel með, sem kostur væri á um nýjungar og framfarir í flugvélasmíði, svo að þeir gætu skipulagt sínar innanlandsflugsamgöngur í samræmi við það bezta og nýjasta, sem þekkist, þetta gæti orðið til þess að spara þjóðinni mikið fé í byggingu stórra og nýrra flugvalla. Ég nefndi, í því sambandi eina tegund flugvéla, sem þegar er farið að framleiða í Ameríku og nefnist Caribou-flugvél. Hún er byggð í þeim tilgangi að leysa þetta vandasama hlutverk, að geta hafið sig til flugs og lent á stuttum flugbrautum, þrátt fyrir það að vélin er stór og flytur marga farþega.

Við umr. við upphaf þessa máls komu fram þær skoðanir, að slík flugvél sem þessi mundi ekki hafa möguleika til að notfæra sér íslenzku sjúkraflugvellina, eins og ég taldi nokkrar vonir standa til að væri, þessi flugvél mundi þurfa 800–900 m langar flugbrautir eða nálægt því, sem Douglas-Dakotavélarnar nota, sem hér eru í innanlandsflugi nú. Mér fannst mikils virði að leita sem beztra upplýsinga um þetta atriði, af því að það hefur mikla þýðingu í þessu máli, hvort takast muni að framleiða flugvélar, sem gætu hentað okkur Íslendingum í innanlandsflugi og gætu hagnýtt sér íslenzku sjúkraflugvellina, sem þegar eru komnir í landinu, þótt auðvitað þyrftu þeir einhverra endurbóta við. Ég skrifaði því flugmálastjóra bréf um þetta og óskaði sérstaklega eftir þessum upplýsingum, en svar er ég nýlega búinn að fá, og segir hann, að ástæðan sé sú, að hann hafi beðið eftir nýjustu upplýsingunum um þetta frá Kanada. Ég vil leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa þetta bréf, sem er mjög stutt:

„Sem svar við heiðruðu bréfi yðar, hr. alþm., dags. 10. marz s.l., vil ég leyfa mér að láta yður í té eftirfarandi upplýsingar, sem ég hef nýlega fengið frá De Havilland-verksmiðjunni í Kanada. Samkv. hlutlausri athugun sérfræðinga, sem ég hef látið gera á upplýsingum þessum, þarf Caribou-flugvélin 537 m langa flugbraut, til þess að fullt öryggi sé fyrir hendi. Er þá gert ráð fyrir, að flugvélin sé rekin til farþegaflugs, airline technique. En rétt er að geta þess, að verksmiðjan telur, að hægt sé að komast af með mun styttri vegalengd, ef þörf krefur, og er þá notuð önnur aðferð til flugtaks, svokölluð shortfield technique. Þessir 537 m skiptast þannig: Flugtak (airline technique) 302 m, öryggissvæði fyrir framan flugtaksstað 200 m, 7% viðbótarlenging vegna gljúpra malarbrauta 35 m, samanlagt 537 m. Brautarþörf, ef notuð er shortfield technique, er 161 m + 200 m + 35 eða 396 m. Það sýnist því öruggt, að 600 m braut á að reynast fullnægjandi fyrir Caribou-flugvélina, en það er sú stærð, sem flugmálastjórnin hefur reynt að koma sjúkraflugvöllunum upp í, og má því segja, að hún noti með fyllsta öryggi hálfa flugbraut miðað við Douglas DC-3 flugvélarnar. Þessar upplýsingar eru miðaðar við 26 þús. punda heildarþunga, sem er 2 þús. pundum meira, en áður var gert ráð fyrir, í upplýsingum, sem mér bárust fyrir áramótin. Mér þykir leitt, að þér skulið hafa þurft að bíða svona lengi eftir þessum upplýsingum, en þær bárust mér ekki fyrr en alveg nýlega.

Með kærri kveðju.

Yðar einlægur

Agnar Kofoed-Hansen.“

Samkv. þessu bréfi og þeim upplýsingum, sem í því felast og byggðar eru á þeirri reynslu, sem nú er fengin um þessa flugvélategund, þá sýnist mér enn bjartara fram undan um það, að von geti verið á flugvélum til innanlandsflugs á Íslandi, er geti notfært sér íslenzku sjúkraflugvellina, að vísu með endurbótum, eins og gefur að skilja. Mér sýnist því, að hér hafi komið mikilsverðar upplýsingar í þessu máli, sem styðja það enn meir, en lá fyrir, þegar ég flutti þessa till., að sú athugun og rannsókn, sem till. greinir frá, að fari fram og Íslendingar fylgist sem rækilegast með þessum nýjungum sér til mikilla hagsbóta, ekki aðeins í því að spara fé til stórra flugvalla, heldur einnig til þess að tengja þessar flugsamgöngur við héruð, sem ekki hafa nú möguleika á því að hafa samgöngur með stórum og dýrum flugvöllum.