25.02.1959
Sameinað þing: 29. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (1969)

96. mál, birting skýrslna um fjárfestingu

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir, er um birtingu skýrslna um fjárfestingu. Það lítur út fyrir, að flm. till., hv. 9. landsk. þm., líti svo á, að við búum enn við tilfinnanlegan skort á skýrslum. Og hann vill gera sitt til þess, að úr þessu verði bætt. Og nú eru það skýrslur um fjárfestingu, sem okkur vantar.

Það er ekki langt síðan þetta orð, fjárfesting, heyrðist fyrst í okkar máli. Ég held, að það séu ekki nema fá ár síðan. Mér er nú ekki fullkomlega ljós merking þess, ég verð að játa það, en helzt hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að þarna sé átt við fjármagn, sem varið er til verklegra framkvæmda og ég held líka öflunar atvinnutækja. Í þessari till. og grg., sem henni fylgir, er talað um, að það þurfi að fá upplýsingar, sem greinilegastar, um það, hvernig þjóðarframleiðslan skiptist milli fjárfestingar og neyzlu. En ýmislegt er nú óljóst, finnst mér, í þessum efnum, og vafasamt sýnist mér, hvernig muni takast sundurgreiningin í þessa tvo flokka. Það er líka mikið vafamál, hversu vel þetta nýja orð — fjárfesting túlkar þær hugmyndir og þá hluti, sem því er ætlað að lýsa. Um þetta er auðveit að nefna dæmi. Við getum hugsað okkur tvo menn. Annar þeirra notar tekjur sínar eitthvert árið, að svo miklu leyti sem hann hefur tekjur afgangs daglegum þörfum, til þess að byggja hús. Þetta er vist kölluð fjárfesting. Hinn maðurinn notar tekjur sínar, þær sem hann hefur afgangs brýnum þörfum, að mestu fyrir tóbak og brennivín. Þetta er víst ekki fjárfesting. Mér skildist á hv. 9. landsk. áðan, að þetta væri neyzluvarningur og mundi vega mjög þungt í hinum nýju vísitölugrundvelli, sem nú á að taka upp, svo að þetta á víst að færast í neyzludálkinn. En hvað er þá að segja um festinguna? Við skulum athuga það. Maðurinn, sem lagði fé sitt í að byggja hús, getur undir venjulegum kringumstæðum haft af því arð, og hann getur líka undir venjulegum kringumstæðum selt þetta hús og losað peningana aftur, ef honum kemur í hug að nota þá til annarra hluta. En hvernig er það hjá hinum? Þar koma peningarnir ekki aftur. Vínið er runnið, tóbakið er brunnið, peningarnir fastir. Sá, sem greiddi þá af höndum, getur ekki náð þeim aftur, þó að hann gjarnan vildi, og notað þá til annars. Hann getur ekki náð þeim aftur í sinn vasa. Þeir eru fastir. Og þó heitir þetta ekki fjárfesting á nútímamáli.

Það er nú að vísu svo um það fé, sem menn verja til að kaupa fyrir það tóbak og brennivín, að það má segja, að það sé nú aðallega skattgreiðsla til ríkisins. Og þessir skattar hafa þá sérstöku náttúru, að menn greiða þá fríviljuglega af höndum. Það er alveg óþarfi að birta í útvarpi og blöðum áskoranir til manna um að greiða þessa skatta og láta þar með fylgja lögtakstilkynningar, eins og venja er til um ýmis önnur gjöld; það er alveg óþarfi að hóta lögtökum þar. Menn sækjast eftir að borga þessa skatta.

Það má að vísu segja, að greiðandinn geti notið að sínum hluta eins og aðrir landsmenn þeirrar þjónustu af hendi þess opinbera, sem það lætur í té, m.a. fyrir þessar tekjur. En við getum líka nefnt annað dæmi um ráðstöfun tekna. Við skulum hugsa okkur bónda, sem notar tekjur sínar, að svo miklu leyti sem hann getur, til að rækta sína jörð, byggja peningshús og í ýmsar aðrar slíkar framkvæmdir. Þetta er fjárfesting, og þetta er fjárfesting, sem gefur arð. En annar maður fer á því sama ári út um lönd og álfur í loftköstum og notar tekjur sínar til að greiða með ferðakostnað. Mér skilst, að þetta sé ekki fjárfesting, sú eyðsla. Eða hvað segir hv. 9. landsk. um það? Menn geta haft af slíkum ferðalögum fróðleik og ánægju og átt um það góðar minningar, en féð kemur ekki aftur, og ekkert af því kemur í ríkiskassann, eins og verulegur hluti þess, sem eytt er fyrir tóbak og vín. Ríkissjóður hefur engar tekjur af þessu. (Gripið fram í: Jú, jú.) Nei, hann hefur það ekki, þó að menn séu látnir greiða fyrir þann erlenda gjaldeyri, sem þeir fá til ferðalaga, svona um það bil, sem kostar að afla þess gjaldeyris, þá eru það ekki tekjur fyrir ríkið eða ríkissjóð.

Nei, orðið fjárfesting er, finnst mér, ekki vel valið nafn. Það segir ekki rétt til um þær athafnir, sem því er ætlað að lýsa. Og sérstaklega má líka benda á það, að ýmislegt, sem er raunveruleg festing á fjármunum, er ekki nefnt þessu nafni. Höfundar þessa nafns ætla því ekki að ná yfir það.

Það er mjög tíðkað nú að tala um of mikla fjárfestingu í okkar þjóðfélagi, og það er sagt, að það þurfi að draga úr henni. Það er sagt, að of mikill hluti þjóðarteknanna fari til fjárfestingar, svo að of lítið sé afgangs til neyzlu. Og það er sagt, að til þess að bæta lífskjör þjóðarinnar þurfi að auka neyzluna. Ýmsir fræðimenn og ýmsir stjórnmálamenn tala á þessa lund. Menn hlusta á raddir þeirra, og margir verða til þess að taka undir þetta. Því er haldið fram, að ýmiss konar vandi í efnahagslífinu verði bezt leystur með þessu, með því að draga úr fjárfestingunni, en auka neyzluna, og margir vilja eiga hlut að slíkum lagfæringum í okkar efnahagslífi. Þeir menn munu telja það þjóðhollustu að eiga þátt í þeim viðreisnaraðgerðum að minnka fjárfestinguna, en auka neyzluna. Í þeim hópi munu þeir eflaust vera, veitingasali einn hér í borginni og viðskiptavinir hans. Með þorrakomunni í vetur stofnaði veitingamaður þessi til kappáts í greiðasöluhúsi sínu. Þar var að sögn borinn fram þjóðlegur matur í trogum. Ekki hef ég heyrt um það, hvort þar var saltfiskur með, sem hv. flm. till. var að tala um áðan, sem er vissulega þjóðleg og góð fæða. En á þessum stað þreyttu menn kappát allt hvað af tók. Svo virðist sem sú íþróttagrein njóti nokkurrar hylli hér í höfuðstaðnum og jafnvel víðar. Og birtar eru myndir af sigurvegurum í þessari keppni, og þeir fá að sjálfsögðu verðlaun. Þessir menn og fleiri hlýða kalli fræðimannanna og stjórnmálamannanna, sem segja: Fjárfestingin þarf að minnka, þá getur neyzla, þ.e.a.s. eyðsla aukizt, og þá batna lífskjörin. Kenning þeirra er: Reynið ekki of mikið á ykkur við að byggja upp og rækta landið. Leggið ekki of mikið fé í vegi og brýr, flugvelli og hafnir, ekki of mikið í rafstöðvar og raflínur um landið, ekki of mikið fé til þess að koma upp verksmiðjum, kaupa vélar og skip. Blessaðir farið þið dálítið hægar í þessu. Látið þið minna fé í þetta. Þá verður meira eftir til neyzlu eða eyðslu, þá verða lífskjörin betri, þá líður þjóðinni betur andlega og líkamlega. Boðorðið er: „Étið, drekkið og verið glaðir“, — „torgið troginu“, eins og það var orðað á prenti í dagblaði einu á dögunum. (Gripið fram í.) Jú, það stóð í blaðinu: „Torgið troginu.“

Í gr., með till. segir, að upplýsingar um fjárfestingu og fjáröflun til hennar hafi verið af skornum skammti. Þó segir hér, að á síðasta Alþýðusambandsþingi hafi þó verið lagðar fram mjög athyglisverðar upplýsingar um skiptingu þjóðarframleiðslunnar s.l. tíu árin milli fjárfestingar og neyzlu, og í framhaldi af þessu segir hér í grg. í næstsíðustu málsgr., með leyfi hæstv. forseta:

„Það var enn fremur upplýst í umræddri skýrslu, að neyzlan á mann, — en það má telja bezta mælikvarðann á lífskjör almennings og breytingar á þeim, — sé nú svipuð og 1948, en það þýðir, að enginn árangur er enn sýnilegur af þeim geysiþungu byrðum, sem lagðar hafa verið á þjóðina með þessari miklu fjárfestingu, í bættum lífskjörum.”

Ég vil nú segja það, að það sé vafasöm kenning og meira en það, að enginn árangur í bættum lífskjörum hafi orðið af þeim miklu framkvæmdum og framförum, sem hér hafa orðið síðasta áratuginn. Er það virkilega skoðun hv. 9. landsk. þm., að lífskjörin geti ekki batnað, jafnvel þó að svonefnd neyzla aukist ekki? Það er vissulega ástæða til þess að íhuga þetta nokkru nánar.

Hvað má segja um það, ef maður byggir nýtt hús yfir sig og fjölskyldu sína og flytur í það, en hefur áður búið í lítt nothæfu húsnæði, — batna hans lífskjör og fjölskyldunnar ekkert við þetta? Hvað má segja um nýju skipin, sem hafa komið nú síðustu áratugina hingað til lands, t.d. fiskiskipin í staðinn fyrir opnu róðrarskipin og skúturnar, sem menn notuðu áður fyrr? Mér hefur skilizt, að það muni rétt vera, að t.d. séu vistarverur háseta eða skipsmanna á þessum nýju skipum góðar, samanborið við það, sem áður var. Hafa lífskjör sjómannanna ekkert batnað við þetta? Hvað má segja um bónda eða iðnaðarmann, sem fær betri tæki til að vinna með, sem gera honum framleiðslustörfin miklu léttari? Batna lífskjör hans ekkert við þetta? Og hvað má segja um bættar samgöngur? Það hefur verið lagt mikið fé á undanförnum árum t.d. í það að byggja flugvelli og kaupa flugvélar. Það hefur verið lagt fé í vegagerðir, brúabyggingar og bifreiðakaup, og nú ferðast menn með miklu auðveldara móti ,en áður var. Áður þurftu vermenn að vaða klofsnjó, eins og segir í frægu kvæði. Það þekkist ekki nú orðið. Ef þeir færa sig á milli landshluta á vertíðum, þá fara þeir í góðri bifreið eða í flugvél eða á góðu skipi. Og hvað eigum við að segja um framkvæmdirnar í raforkumálum? Hv 9. landsk. nefnir hér í þessari mgr. greinargerðarinnar, sem ég las upp, árið 1948 til samanburðar. Á þeim árum, sem síðan eru liðin, hefur verið lagt stórfé í það að byggja nýjar rafstöðvar og leiða rafmagn um landið. Á þessum tíma hefur fólk í mörgum kaupstöðum, kauptúnum og sveitahreppum fengið rafmagn til heimilisnota, en hafði það áður ýmist ekki eða þá mjög ófullnægjandi. Hefur þetta ekkert bætt lífskjör þess fólks, sem hefur notið þessara framkvæmda? Hv. 9. landsk. þm. ætti að spyrja þetta fólk. Hann ætti t.d. að tala við húsmæðurnar á þessum fjölmörgu heimilum og spyrja þær að því, hvort lífskjörin hefðu ekkert batnað við það, að heimilin fengu rafmagnið frá ríkisrafveitunum.

Ég fæ ekki séð, að þessi ályktun hv. þm. í næstsíðustu mgr. greinargerðarinnar geti staðizt. Ég held, að þessi ályktun sé röng.

Það er mikill siður hjá okkur mönnunum, ef okkur finnst eitthvað fara aflaga, að skella skuldinni á einhvern sérstakan eða á eitthvað sérstakt. Og hér er það þess: svokallaða fjárfesting. Mér sýnist, að þeir, sem fundu upp það orð fyrir nokkrum árum, hafi hér fundið haglega geit, sem þeir nefna fjárfestingu, og það sé gott að skella á hana öllu því, sem afleiðis þykir fara í okkar efnahagslífi.

Er það nú svo, að það sé það helzta, sem aðfinnsluvert er í efnahagslífi okkar, að framkvæmdirnar, þ.e.a.s. framfarirnar í landinu, hafi verið og séu of miklar? Er þetta það helzta, sem að er? Ja, ýmsir virðast líta svo á. En hvarflar það ekki að neinum, að eyðslan kunni að vera óþarflega mikil, og er þess nú brýnust þörfin að auka eyðsluna eða neyzluna, eins og það er kallað? Þarf dagleg eyðsla fólks yfirleitt að aukast, til þess að liðan þess batni og það verði hamingjusamara? Er þjóðin vanhaldin í mat og drykk? Úr því þyrfti að bæta, ef svo væri. En ég hygg, að þessu megi yfirleitt svara neitandi. Svo er fyrir að þakka. Vantar fólk klæði og skæði? Ég hygg, að það sé nú ekki hægt að halda því fram. Ef einhverjar undantekningar eru, þá er skylt úr því að bæta og er gert og á að gera samkv. þeim lögum, sem gilda í okkar þjóðfélagi.

En mætti þá eyðslan ekkert minnka, og gæti hún ekkert minnkað? Er ekki kappátið í veitingahúsinu nokkuð góð táknmynd af hegðun okkar á ýmsum sviðum, nokkuð góð mynd af því hófleysi, sem víða ríkir í okkar þjóðfélagi?

Nú er ekki því að neita, að í þeim framkvæmdum ýmsum, sem kallaðar eru fjárfesting, getur verið óhófseyðsla. Þess munu t.d. vera dæmi, að menn, sem hafa komizt yfir fjármagn, annaðhvort til eignar eða þá komizt yfir lánsfé, að þeir hafa lagt miklu meira fé, en þörf er fyrir í það að byggja yfir sig og sína íbúðarhús. Menn hafa byggt íburðarmeiri og dýrari hús, en þeir og þeirra fólk hefur þörf fyrir, og þetta tel ég ámælisvert, a.m.k. ef þeir nota lánsfé, sem þjóðin hefur af skornum skammti, til slíkra hluta.

En ég lít svo á, að það að auka eyðsluna sé ekki öruggasta leiðin til þess að bæta lífskjörin og auka hamingju manna, og ég tel það mjög hæpið, að það sé nauðsynlegt að draga úr framförunum til þess að auka eyðsluna. Eins og ég sagði áður, þá lít ég svo á, að það sé einnig mjög vafasamt, hvernig gangi að sundurgreina fjárfestingu og neyzlu, þó að reynt sé, því að þetta grípur hvað inn í annað. Hitt er svo annað mál, að það eru auðvitað takmörk fyrir því, hvað heildarnotkun fjármuna getur verið mikil í þjóðfélaginu, svo að vel fari. Það fer fyrst og fremst eftir því, hvað aflast á hverjum tíma. Það er ekki hollt að nota meira, en aflað er. Að vísu höfum við fengið lán erlendis, og það getur verið réttmætt að taka lán, ef fáanleg eru, að vissu marki, þegar um er að ræða lán til nýtilegra og góðra framkvæmda. En það eru takmörk fyrir því, hvað hægt er að fá af lánsfé og hvað skynsamlegt er að ganga langt á þeirri braut.

Framkvæmdirnar í landinu hljóta alltaf að takmarkast líka á hverjum tíma af því vinnuafli, sem fæst til þeirra og afgangs er frá öðrum störfum, sem ekki mega niður falla.

Efni till. er það að skora á ríkisstj. að láta semja og birta sundurliðaða skýrslu um fjárfestingu 4 síðustu ára, hve miklum hluta þjóðarteknanna fjárfestingin hafi numið og hvernig fjáröflun til hennar skiptist. Og þá kemur spurningin: Er þörf á þessu? Eru ekki til nú þegar skýrslur um þessi efni? Framkvæmdabankinn gefur út annað slagið rit, sem hann nefnir „Úr þjóðarbúskapnum“, og hv. flm. nefndi þetta rit í framsöguræðu sinni áðan. Í síðasta heftinu, sem út hefur komið, sem kom núna í næstliðnum desembermánuði, eru ýmsar upplýsingar um þessa hluti, eins og hv. flm. einnig nefndi í ræðu sinni. Þar er vakin athygli á því, að samkv. lögum frá 1953 er Framkvæmdabankanum falið að fylgjast með fjárfestingu í landinu. Þetta hefur þessi stofnun gert og birt um þetta ýmsar skýrslur. Hér er t.d. í þessu hefti skýrsla, sem bankinn nefnir „Um fjármunamyndun 1954–58“, einmitt fyrir þetta tímabil, sem tillögumaður er að tala um að þurfi að gera skýrslur yfir. Hér er það sundurliðað í skýrslunni frá Framkvæmdabankanum, hvað mikil fjármunamyndunin, sem hann nefnir svo, hafi verið í landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði, flutningastarfsemi, verzlun og veitingastarfsemi, íbúðarhúsum, raforku, samgöngum og opinberri þjónustu. Þetta er sundurliðað í þessa 9 liði. Og svo er aftur í sömu skýrslu einnig sundurlíðun á hverjum lið fyrir sig, svo að þetta er mjög glögg greinargerð, sem bankinn hefur hér birt. Þar er t.d. 1. liðurinn, sem ég nefndi áðan, um landbúnaðinn. Þar er það sundurliðað, hver fjármunamyndunin sé í bústofni, ræktun og girðingum, vélbúnaði, útihúsum, sláturhúsum, mjólkurbúum og fleiri þess háttar stöðvum og í sandgræðslu og skógrækt. Svona er þetta hjá hinum atvinnugreinunum líka, — hjá sjávarútvegi, hvað hafi farið í togara, bátaflotann og vinnsluver sjávarútvegsins o.s.frv. Og svo er sérstök skýrsla í þessu hefti líka frá Framkvæmdabankanum um byggingarframkvæmdir á Íslandi árin 1956 og 1957, greinagóð skýrsla, sundurliðuð. Og það er kunnugt einnig, að Framkvæmdabankinn hefur gert yfirlit um þjóðarframleiðsluna undanfarin ár. Menn geta fengið upplýsingar hjá honum um þetta, allir, sem þess óska, og mér þætti ekki ótrúlegt, að hann birti einmitt skýrslu í sínu riti um þetta, áður en langt líður.

En það er til fleiri aðila að sækja ýmsar upplýsingar um þessi þýðingarmiklu mál líka. Hagfræðideild Landsbanka Íslands gefur út tímarit um efnahagsmál, sem nefnist Fjármálatíðindi og allir þm. þekkja. Við fáum þetta rit alltaf, þegar það kemur út, og þar eru upplýsingar um þessi efni. Ég hef hér t.d. 4. hefti Fjármálatíðinda fyrir nóvember og desember 1958. Þar eru ýmsar skýrslur um peningamarkaðinn. Þar er yfirlit um seðlaveltuna, um aðstöðu bankanna gagnvart útlöndum, um endurkeypta víxla í seðlabankanum á hverjum tíma. Þar er yfirlit um aðstöðu ríkissjóðs og ríkisstofnana gagnvart seðlabankanum. Kemur þar t.d. fram, að á s.l. ári batnaði hagur þessara stofnana mjög gagnvart seðlabankanum. Og hér er yfirlit um aðstöðu banka og annarra peningastofnana gagnvart seðlabankanum. Og þá er hér einnig yfirlit í þessu riti, mánaðarlegar skýrslur um heildarútlán bankanna, um veltiinnlán í bönkum og spariinnlán í bönkum, og með því að athuga þessar skýrslur, athuga það t.d., hvernig heildarútlánin koma heim við spariinnlán og veltiinnlán í bönkunum, og þær hreyfingar, sem eru á þessu frá mánuði til mánaðar og frá ári til árs, þá geta menn alveg skapað sér hugmynd um það, hvort bankarnir hafa hagað rekstri sínum þannig, að þaðan sé að vænta verðbólgumyndandi áhrifa.

Hv. flm. segir í sinni grg., að nú megi gera ráð fyrir, að fari fram tvennar kosningar til Alþ. á þessu ári, og við báðar þessar kosningar megi gera ráð fyrir, að efnahagsmálin verði meðal þeirra höfuðmálefna, er um verði kosið, einkum þó síðari kosningarnar, og mikilvægt sé, að stjórnmálaflokkarnir og þjóðin, eins og það er orðað, fái sem gleggstar upplýsingar um þessi efni.

En eru ekki skýrslurnar, sem þegar liggja fyrir, nægjanlegar þeim, sem vilja afla sér upplýsinga um efnahagsmálin að þessu leyti, fyrir stjórnmálaflokkana og þjóðina? Ég hygg, að svo sé. Ég skal ekki fullyrða um það, en ég gæti trúað, að það væri hægt fyrir alla, sem þess óska, hvort sem það eru stjórnmálaflokkar eða einhverjir þjóðfélagsborgarar, sem standa utan flokka, að það væri auðvelt fyrir þá að fá viðbótarupplýsingar hjá bönkunum, sem ég nefndi, eða hagstofunni, ef þeim þættu þessar upplýsingar, sem þeir gætu lesið út úr þessum prentuðu heimildum bankanna, ekki fullnægjandi að öllu leyti um þetta efni.

Till. felur í sér áskorun á ríkisstj. að láta semja og birta um þetta skýrslur. Ég tel, að það ætti nú ekki að íþyngja hæstv. stjórn að nauðsynjalausu með verkefnum. Ég hygg, að hún hafi ærið að starfa, muni hafa ærin verkefni, og ekki sízt stuðningsmenn hæstv. stjórnar — eins og hv. 9. landsk. — mættu gjarnan hafa það í huga að íþyngja henni ekki um of.

Ég mun nú ekki greiða atkv. gegn því, að þessi till. fái athugun í n., því að það er venjulegt um þingmál. En mér finnst, að n. ætti vel að íhuga það, hvort till. er ekki óþörf, og ég gæti einmitt vel trúað því, að n. kæmist að þeirri niðurstöðu, ef hún skoðar málið niður í kjölinn.