05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (1972)

96. mál, birting skýrslna um fjárfestingu

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Það er mikið rætt um það, að fjárfestingin eigi mikinn þátt í verðþenslunni. Þess vegna er ekki nema eðlilegt, að almenningur í landinu fái að fylgjast með fjárfestingunni í landinu. Það eru að vísu enn þá nokkuð ófullkomnar upplýsingar um þessi mál eins og mörg önnur, sem nauðsynlegt væri að hafa nákvæmar og ábyggilegar upplýsingar um, eins og t.d. þjóðartekjurnar á hverju ári, sem að vísu eru upp gefnar fyrir ár hvert, en er meira og minna ágizkun. Upplýsingar um fjárfestinguna eru að sjálfsögðu einn liðurinn í áætlun um þjóðartekjurnar.

Framkvæmdabanki Íslands hefur haft það með höndum undanfarin ár, frá því að hann var stofnaður, að gera áætlanir um fjárfestingu og þá liði, sem þar ganga undir. En í þeirri umsögn, sem hann sendi n. út af málinu, viðurkennir hann, að þær upplýsingar, sem til séu, séu að vísu ekki fullkomnar, en það séu þó upplýsingar, sem geti gefið nokkuð greinilega mynd af fjárfestingunni, eins og hún er nú, og það eru þær beztu upplýsingar, sem hægt er að fá, eins og sakir standa.

N. þykir því eðlilegt, að þessar upplýsingar, sem rætt er um í þáltill. á þskj. 223, verði settar fram opinberlega, og þess vegna vill hún mæla með samþykkt till.