15.04.1959
Sameinað þing: 39. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (1979)

141. mál, milliþinganefnd um öryrkjamál

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í sambandi við umræður um frv. til laga um framlengingu á vöruhappdrætti Sambands ísl. berklasjúklinga var allmjög rætt um öryrkjamálin í heild. Í fjhn. Ed voru m.a. fengnar umsagnir og upplýsingar frá ýmsum félögum öryrkja. Um leið og ákveðið var af n. að mæla með frv. um vöruhappdrætti eða framlengingu þess til 10 ára óbreytts, urðu nm. allir sammála um að flytja hér í sameinuðu þingi till. til þál. um kosningu milliþingan. um öryrkjamál.

Ég skal ekki fara ýtarlega út í þessi mál að þessu sinni, — stikla á stóru.

Hér eru til nokkur félög, sem vinna að öryrkjamálum: Samband ísl. berklasjúklinga, sem unnið hefur þrekvirki á þessu sviði, m.a. við byggingu og starfsemi Reykjalundar, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Blindrafélagið, Blindravinafélagið, Sjálfsbjargarfélögin, sem eru félög fatlaðra og búið að stofna þau fimm hér á landi, og munu þau hafa í huga að stofna með sér landssamband, enn fremur félagið Heyrnarhjálp, og ætla ég, að ég hafi þá nefnt hin helztu félög öryrkja. Mörg þessara félaga hafa unnið mjög merkilegt starf.

Það hafa verið gerðar tilraunir til þess að stofna samtök öryrkjafélaganna um land allt, en enn þá hefur það ekki tekizt. Hins vegar er mikil nauðsyn á því, að mál þetta sé tekið til heildarathugunar og reynt að samræma þá starfsemi, sem nú er höfð með höndum á ýmsum sviðum í þessum efnum.

Ég skal aðeins nefna hér nokkur hin helztu viðfangsefni og verkefni, sem athuga þarf í sambandi við öryrkjana.

Í fyrsta lagi er brýn nauðsyn að hafa starfandi rannsóknarstöð, sem rannsakar vinnuhæfi öryrkjanna, þ.e.a.s. gerir bæði með aðstoð lækna, sálfræðinga og annarra sérfræðinga rækilega athugun á því, hvers konar starf muni helzt vera við hæfi hvers einstaks öryrkja að fenginni rannsókn.

Í þessu sambandi og í öðru lagi má nefna nauðsyn á leiðbeiningarstarfi, þ.e.a.s. leiðbeiningum til öryrkjanna um val á starfi eða val á námi, sérstaklega ef um ungt fólk er að ræða.

Í þriðja lagi koma hér til athugunar vinnulækningar, sem eru ákaflega þýðingarmiklar einnig í þessu sambandi.

Í fjórða lagi eru vinnustofur og verkstæði, sem hafa það hlutverk fyrst og fremst að endurþjálfa til vinnu þá, sem misst hafa að einhverju leyti orku sína. Slíkar vinnustofur eru nauðsynlegar til slíkrar endurþjálfunar, áður en öryrkjarnir hafa fengið þá getu og þjálfun að nýju, að þeir geti farið út á hinn frjálsa atvinnumarkað, sem æskilegast er auðvitað að sem flestir þeirra geti farið og hafið þar eðlilegt starf í hinu frjálsa athafnalífi. Yfirlæknirinn í Reykjalundi tjáði okkur í n., að yfirleitt mundi það vera 1–2 ár, sem öryrkjar þyrftu að vera á slíkum vinnustofum til þjálfunar og kennslu, áður en þeir gætu farið út í hið eðlilega starf að nýju. Auk þess eru slíkar vinnustofur nauðsynlegar fyrir þá öryrkja, sem heilsu sinnar vegna geta ekki farið út í hið frjálsa athafnallíf, en verða að vera því miður áfram i slíkum stofnunum.

Í fimmta lagi má nefna vinnuheimili, þar sem öryrkjarnir geta einnig búið og dvalizt, og á þetta m.a. við þá öryrkja, sem heilsu sinnar vegna geta ekki sótt langt á vinnustað og þyrftu því að hafa aðstöðu svipaða og er á Reykjalundi, þannig að þeir geti búið á sama stað eða í námunda við vinnustaðinn.

Í sjötta lagi má nefna það, sem er brýn nauðsyn, sérstaklega vegna þeirra, sem fengið hafa lömunarveiki, en einnig margra annarra öryrkja, og það er að greiða fyrir smíði tækja, gervilima og annars slíks. Þó að hér séu til nokkrir mjög færir menn á því sviði, þá er þörfin og eftirspurnin svo mikil, að þeir geta hvergi nærri annað þeirri eftirspurn, og verða sumir öryrkjanna að bíða jafnvel eitt til tvö missiri eftir að fá hina nauðsynlegustu gervilimi. Hér þarf að bæta úr, bæði með því að fá fleiri sérfræðinga í þessu skyni og með kaupum hinna nauðsynlegustu tækja til slíkrar framleiðslu.

Í sjöunda lagi má nefna vinnumiðlunina. Það hefur verið tekið upp, bæði í reglugerð um ráðningarstofu Reykjavíkurbæjar 1954 og í hina almennu reglugerð ríkisins um vinnumiðlun frá 1956, að vinnumiðlunarstofur eiga m.a. að sinna því hlutverki að reyna að útvega öryrkjum atvinnu. Hér er um þýðingarmikið miðlunarstarf að ræða,

Í áttunda lagi er þýðingarmikið atriði að skipuleggja sem bezt lánastarfsemi fyrir öryrkjana, því að margir þeirra geta stundað vinnu, ef þeir fá fyrirgreiðslu með hagkvæmum lánum til að kaupa sér nauðsynleg tæki og koma þannig sjálfir undir sig fótunum.

Í níunda lagi er svo margvísleg félagsleg fyrirgreiðsla, sem öryrkjunum er nauðsynleg stundum, t.d. þegar þeir koma af sjúkrahúsum og hafa möguleika til að hefja starf að nýju, fyrirgreiðsla um húsnæði og fjöldamargt fleira.

Og loks í tíunda lagi vil ég nefna það, með hverjum hætti æskilegast sé og mögulegt að afla fjármagns til allra þessara margháttuðu verkefna. Nú er það svo, að Samband ísl. berklasjúklinga hefur með vöruhappdrættinu í undanfarinn áratug aflað mikils fjár og byggt fyrir það Reykjalund með sínum miklu og glæsilegu vistarverum og ágætu verkstæðum og verksmiðjum.

Enn fremur hafa sum önnur samtök öryrkja fengið leyfi til vissrar fjáröflunar, eins og t.d. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra með vissu álagi á eldspýtnastokka. Auk þess má geta þess, að 1952 samþykkti Alþingi lög um erfðafjársjóð, en hlutverk hans er að veita lán og styrki til þess að koma upp vinnustofum, vinnuheimilum og vinnutækjum fyrir öryrkja. Þessi sjóður mun nú vera um 5.3 millj. kr., en úr honum hafa ekki verið veittar nema um 800 þús. kr., þannig að handbært fé þessa sjóðs mun um s.l. áramót vera um 41/2 millj. kr. Hér er því töluvert fjármagn um að ræða, sem nota má í þessu skyni, og náttúrlega ekki rétt að láta slíkan sjóð handbæran liggja að verulegu leyti ónotaðan, þegar jafn geysiþýðingarmikil verkefni eru óleyst eins og hér er um að ræða. En auk þess bætast árlega töluverðar fúlgur í þennan sjóð.

Þetta eru nokkur meginatriði, sem ég vildi minna á og verða verkefni i þessum málum á næstunni og verkefni þeirrar mþn., sem ég vænti að hæstv. Alþ. fallist á að kjósa. En um tölu öryrkja vil ég aðelns geta þess, að þótt ekki liggi fyrir nákvæmar tölur eða skráning þeirra, mundi ég telja, að öryrkjar séu a.m.k. 2.000 í þessu landi, og er því vissulega mikilsvert, bæði fyrir þá sjálfa og fyrir þjóðfélagið í heild, að nýta sem bezt þá orku, þá vinnugetu, sem þeir hafa eða geta endurheimt með skynsamlegri þjálfun, kennslu og öðrum aðgerðum hins opinbera.

Að lokum vil ég segja það, að eitt af verkefnum þessarar nefndar yrði að sjálfsögðu að samræma sem mest starfsemi hinna mörgu samtaka, sem vinna hér, nú sitt í hverju lagi, en í þessu máli þarf auðvitað fyrst og fremst sameiginleg átök.

Ég vil svo leggja til, að þessari till. verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.