09.05.1959
Sameinað þing: 46. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (1982)

141. mál, milliþinganefnd um öryrkjamál

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur fjallað um till., sem til hennar var vísað um kosningu mþn., sem fjalla ætti um öryrkjamál.

Þau eru tildrög málsins, að þegar fjhn. hv. Ed. hafði með höndum frv. til l. um framlengingu á réttindum Sambands ísl. berklasjúklinga til happdrættisrekstrar, þá höfðu n. borizt erindi frá ýmsum öðrum félögum öryrkja í landinu, þar sem þeir tjáðu, sem vitað er raunar, að fjárhagsgrundvöllur væri veikur undir þeirri starfsemi, sem rekin er á vegum ýmist félaga, sem öryrkjarnir sjálfir standa að, eða félaga, sem borin eru uppi af áhugamönnum um endurþjálfun eða um sæmilega lífsafkomu og lífsmöguleika öryrkja fjalla. N. samdi í sambandi við þessa umfjöllun sína á málefnum öryrkjanna sérstaka till. til þál. um, að kosin yrði mþn. í málið, n., sem ætti að rannsaka, hvernig málum öryrkja væri yfirleitt komið í landinu og á hverja þætti í málefnum þeirra bæri að leggja mesta áherzlu til lausnar, t.d. hvort byggja ætti sérstakar vinnustofur eða verksmiðjur, þar sem öryrkjum gæfist kostur á að leggja fram sinn vinnukraft, eða hvort búa ætti að þeim með þeim hætti, að þeim yrðu færð verkefni, þar sem þeir gætu á heimilum sínum eða með öðrum hætti unnið og látið nýtast sína starfskrafta eins vel og föng væru á, bæði til þess að skapa þjóðfélaginu verðmæti og til þess að gera líf þess fólks, sem hér um ræðir, bærilegra, bæði andlega, þannig að þeir hefðu verkefni við sitt hæfi, og einnig fjárhagslega, gætu haft nokkurn fjárhagsstuðning af þeirri starfsgetu, sem margir slíkir hafa þrátt fyrir örorkuna.

Þegar fjvn. fjallaði um þessa till., litu allir nm. svo á, að hér væri gerð till. um sjálfsagðan hlut og að vert væri, að Alþ. ætti hlut að því, að þessi mál yrðu rannsökuð og áherzla lögð á að bæta svo um fyrir fólki, sem hér um ræðir, sem kostur væri á. Mælir fjvn. því eindregið með því, að till., sem er flutt af hv. fjhn.-mönnum Ed. og liggur hér fyrir á þskj. 357, verði samþ. óbreytt.