10.12.1958
Sameinað þing: 15. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (2007)

63. mál, handritamálið

Flm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Við hv. 2. þm. Rang. höfum leyft okkur að flytja þessa till. um skipun nefndar til þess að vinna með ríkisstjórninni að framgangi handritamálsins.

Við flm. þessarar till. höfðum rætt um það okkar í milli, áður en fyrirspurn okkar um gang handritamálsins kom til umr. hér fyrr á þinginu, hvort það mundi ekki geta orðið nokkuð til stuðnings því að fá framgengt vilja okkar og kröfum um heimflutning handritanna frá Danmörku, að ríkisstj. hefði sér til ráðuneytis slíka n. sem þá, er við gerum hér till. um, að skipuð verði.

Eins og kunnugt er, hefur Íslendingum enn ekki tekizt að fá handritin heim, þau handrit, sem við eigum í dönskum söfnum, og það leiðir því af sjálfu sér, að það tjáir ekki annað, en herða róðurinn, í sókn þessa réttlætismáls, því að þeir merkilegu og dýrmætu bókmenntafjársjóðir, sem vér eigum þar, eiga að sjálfsögðu að flytjast hingað heim aftur til hagnýtingar og varðveizlu í æðstu menntastofnun landsins, háskólanum. Það er mark, sem Íslendingar keppa að og eru svo lánsamir að standa allir óskiptir að sókn þessa réttlætismáls.

Við höfum í þessari till. okkar lagt til, að það yrði, eins og till. ber með sér, skipuð 5 manna nefnd til þess undir forustu ríkisstj. að vinna að endurheimt íslenzkra handrita frá Danmörku og n. verði þannig skipuð, að hver þingflokkanna tilnefni mann frá sér í n., auk þess verði fimmti maðurinn tilnefndur af heimspekideild háskólans og n. kjósi sér svo sjálf formann.

Við töldum mjög eðlilegt, að háskólinn, sem á að varðveita og hagnýta þessa bókmenntafjársjóði vora, þegar vér höfum fengið vilja vorum framgengt um heimflutning þeirra, að það væri eðlilegt og sjálfsagt, að honum væri gefinn kostur á að taka þátt í slíkri nefndarskipun og velja af sinni hálfu einn mann í þessa n., sem mundi þá verða sennilega einhver af þeim norrænufræðingum, sem við háskólann starfa.

Við flm. lítum svo á, að auk þess sem í þessu felst gagnvart Danmörku yfirlýsing um eindregna samstöðu þjóðarinnar í þessu efni, sem raunar var fullkunnugt um áður, þá ætti að verða stuðningur fyrir ríkisstj. að hafa slíka n. með sér í sókn þessa máls og þá yrði sókninni örugglega áfram haldið. En það hefur þótt við bera að undanförnu, þó að Alþ. hafi samþykkt ályktanir til ríkisstj. um aðgerðir í þessu máli, sem þá hafa verið hafnar að vísu, en stundum orðið lítið úthald í sókn málsins, þannig að það hafa fallið eyður í það, að nokkuð hafi verið aðhafzt í þessu máli. Með slíkri nefndarskipun vildum við því að því stefna, að þráðurinn slitnaði ekki, heldur yrði nú eftirleiðis hafin skelegg sókn í þessu máli og allar aðstæður notaðar til þess að vinna að framgangi þess.

Við lítum svo á, að með þessum hætti yrði af vorri hálfu aðstaðan til sóknar í málinu styrkt og ríkisstj. á hverjum tíma hægara um vik í þessu, en ella væri.

Ég tel svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um tilgang þessarar till., en vildi vænta þess, að hæstv. Alþingi vildi sinna þessu máli með þessum hætti. Geri ég það því að minni till., að máli þessu verði vísað að umr. lokinni til fjvn., því að samkvæmt eðli málsins mun það undir hana heyra.