23.01.1959
Neðri deild: 61. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þó að nokkuð sé orðið áliðið nætur, vildi ég samt verja nokkrum mínútum til að svara tveimur ræðumönnum, sem töluðu hér í dag og í kvöld og véku máli sínu nokkuð að mér. Sá fyrri er hæstv. menntmrh., sem gerði mér þann sóma, eftir að ég hafði talað hér í dag, að lesa upp alveg frá upphafi til enda heila grein eftir mig, sem birtist í tímaritinu Vinnunni í nóvemberlok, rétt um það leyti sem Alþýðusambandsþing var að koma saman. Þar hélt ég því fram sem minni skoðun, að ég teldi, að einasta þjóðfélagsaflið, sem væri fært um að stöðva óheillaþróun verðbólgunnar, væri verkalýðshreyfingin og samtök bændastéttarinnar í nánu samstarfi við velviljað ríkisvald.

Ég sagði síðan, að það væri mín skoðun, að aðaluppistaðan í því, hvernig þetta yrði að gerast, væri á þann hátt, að það yrði nú af sanngirni að deila byrðunum á bök allra Íslendinga. Ég spyr: Er fyrir því séð í frv. hæstv. ríkisstj.? Nei, þar er síður en svo gætt þessa frumskilyrðis. Það er stefnt að stórfelldri kauplækkun hjá verkalýðnum, en það eru réttar 77 millj. kr. að nokkrum tugum útgerðarmanna í landinu. Þetta er ekki að byrja þannig, að byrðunum sé deilt að jöfnu á bök allra Íslendinga, á ekkert skylt við það.

Framleiðslan getur sjálf tekið á sig nokkurn hluta byrðarinnar, hélt ég fram. Það er síður en svo, að þannig sé farið nú að. Það er bætt við aðstoðina til sjávarútvegsins í staðinn.

Ríkissjóður á að sýna nokkra viðleitni til sparnaðar. — Hér hefur verið spurt um, hvort það sé tryggt, að ríkissjóður gangi hér á undan og skeri niður um nokkra tugi milljóna. Það hefur ekkert svar fengizt við því. Þeir átta þingmenn, sem standa að hæstv. ríkisstj., eru ekki þess megnugir að koma því í gegn og Sjálfstfl. hefur ekki viljað lýsa því yfir, að hann væri reiðubúinn til þess að tryggja framgang slíks sparnaðar.

Álagningu í heildsölu og smásölu á að færa niður aftur í sömu prósenttölu og s. l. ár. Það er ekki stafur um þetta í frv. hæstv. ríkisstj. Það er þannig ekki nein vissa fyrir því, að hún ætlist til, að það séu lagðir neinir pinklar á kaupmanna- og heildsalastéttina í landinu, á sama tíma sem það er uppistaðan í þessu frv. að skera niður vinnulaun verkafólks um 10 vísitölustig eða — eins og þeir játa sjálfir — 5.4%.

Með þessu er nægilega sannað, að þetta frv., sem ég hef hér deilt á, fer ekki þær leiðir, sem ég taldi mig geta mælt með við Alþýðusambandsþing og Alþýðusambandsþing viðurkenndi að það vildi fallast á, að svipuð leið yrði farin og samþykkti það, sem ég segi hér í niðurlagi grg., að takmarkið með öllu þessu eigi að vera, að kaupgjald og verðlag nemi staðar, þar sem það nú er. Hvar var það þá? Það var 185 stig. Og Alþýðusambandsþing gerði samþykkt um, að það vildi leggja sitt lið fram, til þess að verðbólgan yrði stöðvuð við 185 stig, ekki við 175 stig með því að fella niður bótalaust 10 stig í viðbót, — það samþykkti Alþýðusambandsþing ekki og Alþýðuflokksþingið ekki heldur.

Ég læt þetta nægja til svars hæstv. menntmrh.

Þá er það hv. 1. þm. Reykv. Hann sté hér í ræðustólinn í kvöld með fullan faðminn af blaðadruslum og bókum og var ferlegur tilsýndar, þegar hann hóf mál sitt og er þó stundum og oftast gustmikill, þegar hann ræðst hér til atlögu í ræðustólinn.

Hann var í sama ham í gærkvöld, þegar hann tók hér til máls og þá var hann í því skapi, að það var ákaflega lítið af því, sem hann sagði, yfirvegað eða satt. Þegar hann t. d. fór út í að lýsa því, hvílíkur geysilega afkastamikill og ákafur kauphækkunarberserkur Eysteinn Jónsson, fyrrv. fjmrh., væri, þá var hann auðvitað að segja ósatt og vissi það ósköp vel, því að Eysteinn Jónsson er einmitt kunnur að því, að hann er aðhaldssamur um slíka hluti, og hefur ekki verið staðinn að neinu slíku starfi og enga aðstoð veitt hv. 1. þm. Reykv. í kauphækkunarbraski hans undanfarna mánuði og hefur aldrei gert.

Hv 1. þm. Reykv. sagði, að þetta frv. væri öðruvísi, en þeir sjálfstæðismenn hefðu viljað, ef þeir hefðu mátt ráða. Þetta eru alveg vísvitandi ósannindi hjá hv. 1. þm. Reykv. Frv. er nákvæmlega eins og Sjálfstfl. vildi að það væri, því að hann hefur blessað yfir það og ekki látið það frá sér fara aftur til prentunar hér sem þskj. nema af því, að hann var búinn að samþ. það svona; 10 stiga niðurfelling jafngilti kröfu hans um 6% grunnkaupslækkun og nafnið skiptir litlu máli. Hann var búinn að fá sinn vilja fram. Það skyldi vera reynt að koma því í gegn, sem Sjálfstfl. heimtaði, 6% grunnkaupslækkun í formi 10 stiga niðurfellingar bótalaust og það er meginkjarni málsins og þar með fékk Sjálfstfl. sitt fram. Það þýðir ekkert fyrir hv. 1. þm. Reykv. að koma hér fram og skrökva því, að þetta frv. sé í meginatriðum öðruvísi, en Sjálfstfl. hefði viljað hafa það. Það er skapað í hans mynd og er ófrýnilegt eins og sá, sem að baki þess stendur og réð því, hvernig það væri.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv., að það væri ekkert samkomulag milli Sjálfstfl. og stjórnarinnar um niðurskurð á fjárlögunum, um afgreiðslu fjárlaganna yfirleitt. Það er alveg áreiðanlegt, að þetta er einnig ósatt. Það er alveg víst, að hér hefur ekki þessi hæstv. ríkisstj. setzt í stólana upp á annað en það, að það væri alveg tryggt, að Sjálfstfl. fylgdi stjórnarliðinu í Alþfl. um afgreiðslu fjárlaganna. Að öðrum kosti, ef fjárlagaafgreiðslan var ekki tryggð af þessum tveim flokkum, þá áttu þessir fjórmenningar, sem nú sitja í ráðherrastólunum, ekkert erindi í þá.

Þá sagði hv. 1. þm. Reykv. viðvíkjandi lántöku, sem barst í tal: Ég veit ekkert um það enn þá, við höfum ekkert verið spurðir og ég veit ekki, hvort við verðum spurðir. Hann veit vel, að þeir verða spurðir. Þess vegna skrökvar hann þessu líka. Auðvitað verður engin lántaka framkvæmd, nema þeir verði spurðir. Hún hefur enga möguleika til þess að ná fram að ganga öðruvísi og hann veit þess vegna, að þeir verða spurðir.

En einmitt þessi hv. þm. kom hér og sagði, að hann væri alveg sérstakt sannleiksvitni, hann kynni ekki að skrökva. Hann var þá einmitt að tala um það, að framsóknarmenn yrðu hissa á því, ef þeir heyrðu mann segja satt orð, hann kynni ekki að skrökva. En hann var bara að skrökva hverju einasta atriði, sem hann fór með í ræðustólnum.

Hann sagði, að það væri ósatt, sem ég hefði sagt hér í dag, að það hefði aldrei veríð gert fyrr með löggjöf að lækka kaup án alls samráðs við verkalýðssamtökin og hann fór að reyna að afsanna þetta og hann sló upp í bókunum að lokum og var lengi að leita og var þá við árið 1947, þar las hann nokkrar línur úr frv. til laga, sem borið var fram af Stefáni Jóh. Stefánssyni, þáverandi forsrh., og fékk það staðfest, að ég hafði í atkvgr. mælt með samþykki þess frv. Var þetta frv. um niðurfellingu á 10 vísitölustigum? Var það um lækkun kaupsins frá því, sem kaup hafði verið ákveðið af verkalýðsfélögunum samkvæmt samningum þeirra? Nei, það var um að staðfesta það í því formi, sem verkalýðsfélögin höfðu samið um það.

Svo staðnæmist hann við 1956 og þar sló hann upp á lögum um festingu verðlags og kaupgjalds og vildi reyna að heimfæra það á þann hátt, að þetta væri alveg hliðstæða við það, sem fælist í þessu frv. Í fyrsta lagi sjá allir, að þegar fest var verðlag og kaupgjald haustið 1956, var á engan hátt haggað því, sem verkalýðsfélögin höfðu þá tryggt sér sem umsamið kaup og umsamin kjör í stéttarfélagasamningum. En í annan stað er sá mikli munur á, eins og hv. 2. þm. S-M. upplýsti hér áðan, að þá var leitað eftir samkomulagi við stéttarfélögin í landinu, ekki með einum leynifundi, eins og hv. 1. þm. Reykv. skrökvaði áðan meðal margs annars, heldur með mörgum fundum víðs vegar um allt land, fundi hér í Iðnó, þar sem allir formenn allra stéttarfélaga í Reykjavík og nágrenni voru saman komnir og var samþykkt þar. Þetta var rætt á félagsfundum og þetta var rætt í stjórnum allra fjórðungssambanda innan Alþýðusambandsins og fjórðungsstjórnirnar höfðu borið sig saman við verkalýðsfélögin hver í sínu umdæmi og að yfirgnæfandi meiri hluta var samkomulag gert um þetta. Þar var því ekkert gert á móti vilja verkalýðssamtakanna, þau ekki svipt neinum rétti. Það var gert eftir samkomulagi við þau gegn því, að felldar væru niður verðhækkanir, sem voru fram undan innan hálfs mánaðar, þá skyldu 6 vísitölustig falla út, sem áttu að koma til framkvæmda eftir nokkurn tíma, — en að það hafi verið nokkuð það á ferðinni að lækka kaup, rifta gerðum samningi stéttarfélaganna eða fella niður 10 vísitölustig bótalaust, um það var ekki að ræða. Að þetta séu hliðstæður, er því algerlega rangt hjá hv. 1. þm. Reykv., og það var víst eitt af því fáa, sem hann sagði satt, að guð mundi hafa gefið mönnum gáfurnar yfirleitt, bæði honum og mér og öðrum slíkum, en það má hamingjan vita, hvað hann er búinn að gera af þeim gáfum, sem guð hefur gefið honum einhvern tíma, því að þeirra hefur ekki orðið vart í ræðuhöldum hans hér í kvöld, svo mikið er víst, því að ómálefnalegri eða ósannari ræðuflutning hefur enginn maður hér hlustað á heldur, en einmitt hjá honum og var enga vitsmuni hægt að sjá í þeim ræðuflutningi.

Það eru til tvenns konar leikhús: leikhús, þar sem eru lifandi leikendur og svo eru til önnur leikhús, þar sem eru dauðar dúkkur á framsviðinu, en það er þráðarspotti í hverja dúkku aftur fyrir tjaldið og þar eru æfðir leikstjórar, sem kippa í spottana og láta dúkkurnar dansa, eins og þeir, sem á bak við tjaldið eru, ætlast til að þær dansi og leiki. Þekkið þið, hv. þm., nokkurt slíkt dúkkuleikhús, slíkt strengbrúðuleikhús? (Gripið fram í.) Já, þið sjáið það, ég sé það. Þessu brúðuleikhúsi var komið á fót núna á messu heilags Þorláks rétt fyrir jólin. Þá settust á framsviðið fjórir leikarar; spottinn lá aftur fyrir tjaldið úr hverjum þeirra í hendur formanns og varaformanns Sjálfstfl., Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar. Þeir halda í þræðina í þessu leikhúsi og það var samkomulag, að þeir áttu að halda sig bak við tjaldið. Þeir áttu ekkert að vera að álpast fram fyrir tjaldið, þeir voru ekki viðurkenndir sem leikbrúður. Þeir voru bara þeir, sem áttu að halda í þræðina á bak við. En þetta samkomulag hefur ekki verið haldið vel. Formaður Sjálfstfl, hefur haldið það ágætlega. Hann hefur ekkert komið fram fyrir tjaldið. Hann er bara á bak við tjaldið, eins og hann á að vera í þessu leikhúsi og hann kippir þar í spottana, eins og um var samið. En varaformaður Sjálfstfl., sá leikstjóri, hefur ekki haft stillingu í sér til þess að geta verið á bak við tjaldið, eins og hann átti að vera. Hann hefur hvað eftir annað rokið fram fyrir tjaldið og þótzt vera leikbrúða, sem ætti að leika sjálf framan við tjaldið og komið hér fram í salinn og farið að leika. Þetta átti hann ekki að gera. Hann átti að halda sér bak við tjaldið, eins og um var samið, og láta dúkkurnar fjórar á forsíðunni sprella þar, en bara með því að hann kippti í spottana, þá gat hann fengið allt, sem hann vildi láta gera.