11.05.1959
Sameinað þing: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (2014)

63. mál, handritamálið

Frsm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Till. þessi er þess efnis að fela ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd, er undir forustu hennar vinni að endurheimt íslenzkra handrita frá Danmörku, og er ráð fyrir því gert, að nefndin verði þannig skipuð, að þingflokkarnir tilnefni sinn manninn hver og fimmti maðurinn í nefndina sé tilnefndur af heimspekideild Háskóla Íslands og nefndin kjósi sér sjálf formann.

Þessari till. var vísað til fjvn., og varð samkomulag um það í fjvn. að leggja til, að till. yrði samþykkt. Fjvn. stendur að því einhuga að leggja þetta til. Fjvn. lítur svo á, að með skipun nefndarinnar sé lagður grundvöllur að fastmótaðri, samfelldri og óslitinni sókn í máli þessu af vorri hálfu, er eigi verði látið linna, fyrr en vér höfum fengið fullnægt sanngirnisog réttlætiskröfum vorum um heimflutning handritanna.

Það er einnig álit fjvn., að ríkisstj. sé í því meginstyrkur að njóta í sókn þeirri, sem fram undan er í þessu máli, fulltingis nefndar, sem skipuð sé á þann veg, sem lagt er til í þessari till. Fjvn. mælir sem sagt eindregið með samþykkt þessarar tillögu.