05.05.1959
Sameinað þing: 45. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (2025)

147. mál, mæðiveiki á Vestfjörðum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Þetta mál skýrir sig sjálft, þannig að ég þarf ekki að flytja langa framsöguræðu fyrir þessari þáltill. Í henni er lagt til, að Alþingi skori á ríkisstj. að fela sauðfjársjúkdómanefnd að gera nú þegar ráðstafanir til þess, að hindruð verði útbreiðsla mæðiveiki á Vestfjörðum, en sá landshluti hefur átt ríkan þátt í að tryggja íslenzkum landbúnaði heilbrigðan fjárstofn.

Eins og kunnugt er, spurðust þau tíðindi rétt fyrir páska síðastliðna, að mæðiveiki hefði orðið vart í Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu. Það lætur að líkum, að þessar fregnir hafa valdið hinum mesta ugg meðal bænda, ekki aðeins á Vestfjörðum, heldur og um land allt. Vestfirðir hafa á síðustu áratugum verið svo til eini landshlutinn, þar sem sauðfjárpesta hefur ekki orðið vart, svo að teljandi sé, og á nokkrum hluta Vestfjarða hefur þeirra alls ekki orðið vart.

Í Reykhólasveit, þar sem veikinnar hefur nú orðið vart, hefur mæðiveiki aldrei gosið upp áður, og fjárskipti hafa ekki farið þar fram.

Það þykir nú vitað, þó að ekki sé alveg fullvíst um útbreiðslu veikinnar, að hún sé á nokkru fleiri bæjum, en í upphafi var gert ráð fyrir. Læknar hafa farið þarna vestur og rannsakað fé á allmörgum bæjum.

Nú er það hins vegar svo, að allmikill samgangur er milli fjár úr Reykhólasveit og nálægum sveitum í Barðastrandarsýslu og enn fremur allt norður um heiðar, milli fjár í Steingrímsfirði í Strandasýslu og frá norðanverðu Ísafjarðardjúpi.

Í sveitunum við Steingrímsfjörð hefur mæðiveiki aðeins orðið vart, en aldrei við norðanvert Ísafjarðardjúp og að sjálfsögðu ekki heldur vestan mæðiveikigirðingarinnar úr Kollafirði í Ísafjörð, og það svæði, sem liggur þar fyrir vestan, hefur séð landbúnaðinum um land allt fyrir hraustum fjárstofni á undanförnum árum.

Ég skal ekki fullyrða um það, til hvaða ráðstafana skuli grípa í sambandi við þessar sauðfjárpestir, sem nú hafa komið upp þarna vestur í Reykhólasveit. En mér virðast þó nokkrar liggja í augum uppi, eins og ég drep á í grg. till. Í fyrsta lagi, að reynt verði að gera sem öruggasta varnargirðinguna úr Kollafirði í Ísafjörð og tryggja, að enginn samgangur geti orðið á milli svæðisins fyrir vestan hana og sveitanna fyrir austan. Í öðru lagi mætti hugsa sér að girða Reykjanesið sjálft og Reykhólasveitina af og freista þannig að takmarka útbreiðslu veikinnar við þessa sveit. Mér hafði í fljótu bragði komið í hug, að rétt væri að girða aðeins sjálft Reykjanesið af, en eftir að hafa fengið frekari upplýsingar þarna að vestan, þá mun það nú vera skoðun bænda, að réttara sé að girða nokkru stærra svæði af. Mun sú nauðsyn fyrst og fremst spretta af því, að bændur mundu telja, að þeir misstu allmikið af beitarlöndum, ef aðeins sjálft nesið væri girt af. Í þriðja lagi sýnist mér, að skynsamlegt sé að efla varnargirðingarnar úr Berufirði í Steingrímsfjörð, þannig að reynt yrði að takmarka það svæði, þar sem veikinnar hefur orðið vart, sem allra mest.

Mér er kunnugt um það eftir að hafa haft samband við menn úr sauðfjársjúkdómanefnd, að n. er þegar byrjuð að undirbúa ráðstafanir í þessu efni. Hins vegar er það þannig, að gengið hefur verið frá fjárl., og ákveðin upphæð er ætluð til þess á fjárl. að framkvæma mæðiveikivarnir. Ég vil nú þrátt fyrir það vona, að hæstv. ríkisstj. og sauðfjársjúkdómanefnd hafi forustu um þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar reynast í þessum efnum, og verði þá ekki eingöngu takmarkað sig við það litla fjármagn, sem unnt hefur verið að veita á fjárl. þessa árs í þessu skyni.

Hér er mjög mikið í húfi. Eins og ég sagði áðan, hafa Vestfirðirnir bjargað að vissu leyti sauðfjárbúskap landsmanna á einhverjum mestu þrengingatímum, sem yfir landbúnaðinn hafa gengið vegna hinna þrálátu sauðfjárpesta, sem herjað hafa alla landshluta nema þennan litla hluta landsins. Þess vegna er það ákaflega þýðingarmikið, að hér verði snúizt snarlega til varnar og einskis látið ófreistað til að hindra útbreiðslu veikinnar.

Ég leyfi mér svo að óska þess, herra forseti, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. fjvn.