13.05.1959
Sameinað þing: 50. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (2029)

147. mál, mæðiveiki á Vestfjörðum

Frsm. ( Pétur Ottesen ):

Herra forseti. Þær slæmu fréttir bárust út síðla vetrar, að mæðiveiki væri komin upp í Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu. Þetta vakti eðlilega mikinn ugg á þessum svæðum og það því fremur, þar sem mæðiveikinnar hafði ekki áður gætt á þessum slóðum vestur þar. Af þessu svæði var mikið flutt af fé inn á fjárskiptasvæðið. Þetta mun hafa verið tilefni þess, að þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, var flutt. Mæðiveikinefnd brást að sjálfsögðu strax við, eftir að hún hafði kynnt sér málið, og hóf um það ráðstefnu, hvað til bragðs skyldi taka til þess að forða frá þeim voða, sem þarna er á ferðinni.

Ég hef rætt við framkvæmdastjóra mæðiveikivarnanna fyrir hönd fjvn. og fengið hjá honum þær upplýsingar um framkvæmdir í þessu máli, sem nú skal greina: Það er þá fyrst, að ákveðið er að setja girðingu úr Berufjarðargirðingu nærri sýslumörkum Strandasýslu og Barðastrandarsýslu vestur á hreppamörk Reykhólahrepps og Gufudalshrepps, niður Þorgeirsdal, sem er á hreppamörkum við sjó vestan við Múla í Þorskafirði, en það er að girða hreppinn af með nokkru heiðalandi. Þessi girðing er áætlað að muni verða um 20 km á lengd. Annað, sem n. hefur tekið til athugunar um, að nauðsynlegt muni verða að gera, er að tvöfalda strax og við verður komið girðingu úr Kollafirði í Ísafjörð, sem er um 25 km á lengd. Þriðju ráðstafanirnar, sem ákveðnar eru, eru að einangra féð í Miðhúsum í Reykhólasveit, þar sem veikin fannst, og einnig fé á Reykhólum, sem sækir vestur í Gufudalssveit, en Reykhólasveit mun hafa þar upprekstur fyrir fé sitt að einhverju leyti. Til þessa mun þurfa um 3 km girðingu. Þá skýrir framkvæmdastjóri mæðiveikinefndar svo frá, að það sé búið að farga í þessu tilefni 38 kindum á Reykjanesi til könnunar veikinni. Til viðbótar verði nú í vikunni — þessar upplýsingar fékk ég í gær — slátrað um 20 kindum af Reykjanesi, sem gengið hafa í Svefneyjum í vetur, til þess að fá úr því skorið, hvort hætta hefur stafað af þeim kindum fyrir Svefneyjarféð, sem haft er í sumargöngu í Gufudalssveit. Enn fremur segir framkvæmdastjórinn, að ekki sé ráðið nú að fullu, hvort öllu fé á Reykjanesi verði fargað í haust eða einungis á sýktum og grunuðum bæjum. Þær girðingar, sem gert er ráð fyrir að leggja í þessu sambandi, munu nema um 48 km, þar með talin tvöföldun á girðingunni úr Kollafirði í Ísafjörð, og kostnaður við þetta er áætlaður um 360 þús. kr. Mér skilst, að þessar ráðstafanir, sem búið er að taka ákvörðun um að gera til varnar á þessu svæði, séu mjög svipaðar því, sem fram kemur hjá flm. þessarar þáltill. í þeirri grg., sem henni fylgir. Það er ekki að efa, að allt verður gert í þessu efni til að gæta alls öryggis, eftir því sem bezt má verða, því að hér er áreiðanlega mikið í húfi.

Þá skal ég geta þess, að fjvn. hefur lagt til, að gerð verði nokkur breyt. á till., en það er aðeins að fella niður niðurlag hennar, sem er eiginlega utan við þá ályktun, sem till. er beint að. Fjvn. leggur eindregið til, að till. verið þannig breytt samþykkt.