27.01.1959
Neðri deild: 63. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Frsm. meiri hl. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur rætt frv. á fundum sínum laugardag og sunnudag, og hv. fjhn. Ed. tók einnig þátt í athugun frv.

Svo sem nál. á þskj. 188 ber með sér, var ekki samkomulag um afgreiðslu málsins í n. Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) er andvígur frv., en hv. þm. V-Húnv. (SkG) skilar einnig sérstöku áliti.

N. aflaði sér ýmissa skýringa varðandi einstök atriði málsins, m. a. kom hagstofustjóri á fund til nefndanna og svaraði ýmsum fyrirspurnum frá einstökum nm. eða frá n. í heild.

Þar sem hinar löngu umr. voru um þetta mál hér í hv. d. fyrir helgina, þá ætla ég, að málið liggi efnislega ljóst fyrir. Þó langar mig að fara nokkrum orðum um örfá efnisatriði.

Kjarni frv. kemur vitanlega fram í 1. gr. þess. Ég vil gera ráð fyrir því, að allir séu út af fyrir sig sammála þeirri meginhugsun, að brýna nauðsyn beri til að reyna að stöðva verðbólguna. Um hitt greinir menn á, hvort nauðsynlegt hafi verið að færa vísitöluna niður með eftirgjöf um 10 stig, til þess að hægt væri að láta endana ná saman. Því er haldið fram, að hægt sé að veita framleiðsluatvinnuvegunum nauðsynlega aðstoð án þess, að til þurfi að koma nokkur bein lækkun á kaupgjaldi bótalaust. Þetta tel ég að sé ekki rétt, og það má mikið vera, ef það reynist ekki full erfitt að láta dæmið ganga upp, þó að þessi eftirgjöf eigi sér stað. Um það má auðvitað alltaf deila, hve mikil aðstoðin þurfi að vera á hverjum tíma. M. a. er því haldið fram, að nýgerðir samningar við sjávarútveginn geri e. t. v. ráð fyrir óþarflega mikilli aðstoð við þann atvinnuveg. Um þetta atriði hefur nokkuð verið rætt hér í hv. d. í sambandi við frv. um breyt. á l. um útflutningssjóð, en ég tel alveg vafalaust af þeirri reynslu, sem ég hef haft af samningagerðinni, að ef samningar hefðu ekki verið gerðir á svipuðum grundvelli og gert var, þá hefðu róðrar ekki hafizt upp úr áramótum, eins og þeir þó gerðu.

N. hefur orðið sammála um að gera eina brtt. við 1. gr. frv. Þessi till. er á þskj. 195 og miðar að því, að bætur, sem kunna að verða greiddar úr atvinnuleysistryggingasjóði, verði miðaðar við vísitölu 185. Virðist eðlilegt, ef til slíkra bótagreiðslna kemur, að þá sé miðað við þá upphæð, sem hefði verið greidd skv. þeirri vísitölu.

Þá var allmikið rætt um 2. og 3. gr. frv., m. a. við hagstofustjóra. Það er augljóst, að leiga á ýmiss konar leiguhúsnæði, þar sem í leigusamningi er miðað við breytingu samkvæmt húsaleiguvísitölu, getur lækkað nokkuð. Um leigu á öðru húsnæði er erfiðara að segja, enda held ég, að sannleikurinn sé sá, að það er fyrst og fremst framboð leiguhúsnæðis, sem ræður húsaleigu yfirleitt á hverjum tíma eða svo held ég að það hafi verið a. m. k. á undanförnum árum.

Varðandi 7. og 8. gr. frv. vil ég aðeins láta þess getið, að fjhn. barst bréf frá framleiðsluráði landbúnaðarins, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, það er útskrift úr gerðabók:

„Framleiðsluráð hefur enn tekið til athugunar frv. ríkisstj. um niðurfærslu verðlags, launa o. fl. Eru það einkum eftirfarandi atriði, sem ráðið vill benda ríkisstj. og Alþingi á og það óskar að fáist leiðrétt í frv.:

1) Áður en ákveðin er niðurfærsla á verði landbúnaðarafurða, verði reiknað með þeirri grunnkaupshækkun, sem varð á hinu almenna verkamannakaupi í Reykjavík á s. l. hausti umfram það, sem gert er ráð fyrir í verðlagsgrundvellinum, þ. e. 9.5% í stað 6% á launalið grundvallarins, sem er um 2% á grundvellinum í heild.

2) Ef sú regla yrði látin gilda yfirleitt, að kaupgjald og afurðaverð, sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir, breytist ekki vegna vísitölubreytingar, nema vísitalan hækki eða lækki um 2% eða meira í stað 5 stiga, gæti framleiðsluráð fallizt á það fyrir sitt leyti. Að öðru leyti verði engar slíkar takmarkanir settar á breytingar afurðaverðs.

3) Breyta skuli verði landbúnaðarvara ársfjórðungslega til samræmis, ef breytingar eiga sér stað á grunnkaupi almennra verkamanna í Reykjavík.

Eru þessar ábendingar um breytingar í samræmi við viðtöl þau, sem framleiðsluráð og fulltrúar þess hafa átt við ríkisstj. að undanförnu. Þó skal á það bent, að því er varðar 2. tölulið, að í frv. er gert ráð fyrir útreikningi á vísitölu út frá öðrum grunni, en framleiðsluráði var kunnugt um, þegar það ræddi við ríkisstj.

Rétta útskrift vottar Sveinn Tryggvason.“ N. sem heild sá sér ekki fært að taka þessar óskir framleiðsluráðsins til greina, en einstakir nm. flytja brtt., sem hníga í þessa átt.

Varðandi 9. gr. frv. sé ég ekki ástæðu til að ræða mikið nú, þar sem það hefur verið gert rækilega í gær og dag hér í hv. d. við umr. um frv. um breyt. á lögum um útflutningssjóð. Þó vil ég aðeins taka fram vegna þess fyrirvara, sem settur var af hálfu samninganefndar sjómanna, að það upplýstist þegar eftir undirskrift samninganna, að samninganefnd sjómanna leit tvennum augum á fyrirvarann. Þrír af sex nm. sjómanna litu einmitt svo á fyrirvarann, að hann ætti ekki við breytingu á vísitölu. Hinir 3 voru á annarri skoðun. Hlaut því að koma í hlut hæstv. ríkisstj. að segja til um sinn skilning á málinu. En ég hef hér samning á milli Landssambands ísl. útvegsmanna og sjómannasamtakanna innan Alþýðusambands Íslands, sem var undirritaður að morgni þess 3. jan., en í þeim samningi segir svo í 6. gr., með leyfi hæstv. forseta, 6. gr. hljóðar svo:

„Aðilar eru samþykkir yfirlýsingu ríkisstj. um, að fiskverð skuli hækka eða lækka, ef vísitala breytist frá 185 stigum.“

Ég tel alveg vafalaust, að þegar þessi grein var samþ. og frá henni gengið og samningurinn undirritaður, þá hafi öllum aðilum verið fullljóst, hvað hér var um að ræða.

Varðandi 10. gr. frv., sem fjallar um niðurfærslu verðlags á hvers konar vöru og þjónustu, skal ég ekki heldur vera margorður. Verðlagsyfirvöld fara með framkvæmd þessa atriðis og verður það vafalaust talsvert verk að umreikna verð á vöru og þjónustu til lækkunar, svo sem gert er ráð fyrir í frv. En samkvæmt lögum verður þetta vitaskuld ákveðið af viðskmrn. og innflutningsskrifstofunni.

Það eru vitanlega skiptar skoðanir um það, hvort með þessu frv. sé stefnt í rétta átt í framvindu efnahagsmála okkar. Úr því sýnist mér reynslan verða að skera. En það er þó ekki hægt að segja annað af neinni sanngirni heldur en, alvarleg tilraun sé nú gerð til þess að reyna að stöðva það mikla verðbólguflóð, sem við blasir.