27.01.1959
Neðri deild: 63. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal ekki á þessu stigi málsins blanda mér í þær almennu umr. og deilur, sem orðið hafa um þetta mál, en vil aðeins um það segja það, sem raunar ætti að vera ljóst, að þegar sjálfstæðismenn skömmu fyrir áramótin eða þegar til Sjálfstfl. var um það leitað fyrir áramótin, að gera tilraun til stjórnarmyndunar og þeir framkvæmdu þær tilraunir sínar eða formaður flokksins, þá var lögð á það höfuðáherzla af hálfu sjálfstæðismanna, að í efnahagsmálunum yrði óhjákvæmileg byrjunarráðstöfun sú að stöðva verðbólguna. Nú skal ég ekki rifja þetta frekar upp að öðru leyti en því, að eins og kunnugt er, þá mistókust þessar tilraunir sjálfstæðismanna, en hins vegar hafa sjálfstæðismenn tekið að sér þann stuðning við núv. hæstv. ríkisstj., sem margsinnis hefur komið fram hér, að verja hana vantrausti, meðan hún ynni m. a. að framgangi þessa máls, sem að vísu er í nokkrum einstökum atriðum ekki alveg í sama formi og við hefðum helzt kosið, en stefnir þó að því meginsjónarmiði, sem sjálfstæðismenn lögðu áherzlu á, að stöðva verðbólguna í landinu.

Annars eru það aðeins brtt., sem ég hef flutt hér, sem ég vildi gera að umtalsefni. Eins og fram kom hjá frsm. meiri hl. fjhn., lá fyrir n. erindi frá framleiðsluráði landbúnaðarins, þar sem var farið fram á tvenns konar breytingar á frv. og hef ég á þskj. 194 tekið upp tvær af þessum tillögum, sem fram voru bornar af hálfu framleiðsluráðsins.

Þessar brtt. eru báðar við 8. gr., en þar er tekið upp það nýmæli, að framleiðsluráði landbúnaðarins sé nú heimilt að hækka afurðaverð til framleiðenda svarandi til þess, að laun bónda og verkafólks hans í verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara séu færð til samræmis við þá vísitölu, sem verðlagsuppbótarlaun eru greidd eftir, frá sama tíma og samkvæmt ákvæðum 6. gr. þrisvar sinnum á ári, til viðbótar við þá almennu ákvörðun um verðlagsgrundvöllinn, sem fram til þessa hefur ætíð verið gerð að haustinu, 1. sept.

Hér er bændum skapaður nýr réttur til þess að fá lagfærðan þeirra verðlagsgrundvöll, ef miklar breytingar eru á tilkostnaði og kaupgreiðslum í landinu og ætti þeim að geta orðið það til mikilla hagsbóta. Á þessu var þó sá hemill, að slík heimild á ekki eftir 8. gr. frv. að koma til framkvæmda, nema breytingin á vísitölunni eða hækkun sé minnst 5 stigum hærri, en sú vísitala, sem afurðaverðið var síðast ákveðið eftir.

Nú gerðu fulltrúar landbúnaðarins eða framleiðsluráðsins grein fyrir því í sínu bréfi, eins og fram kom áðan, að þegar á sínum tíma hafði verið við þá um þetta rætt, þá hefði á þessi fimm stig verið fallizt af þeirra hálfu út frá þeirri hugsun, að þeim var þá ekki ljós sá umreikningur eða breyting á vísitölunni, sem nú er ráðgerð með þessu frv. að taki gildi 1. marz og fóru því fram á, að þetta yrði lækkað, þessi hemill yrði lækkaður úr 5 stigum niður í 2 stig. Það má segja, að það sé á móti þeim höfuðtilgangi að verjast breytingum á verðlagi og kaupgjaldi. En hins vegar er hitt rétt, að það mundi verða sáralítill munur á 2 stigum eftir nýju vísitölunni og 5 stigunum eftir þeirri vísitölu, sem við nú höfum, eða m. ö. o., eftir að vísitalan 175 verður færð á grundvöllinn 100 frá 1. marz, svo að frá þessu sjónarmiði hef ég talið sanngjarnt að fallast á þetta og flutt þess vegna till. í samræmi við þær óskir, sem fram voru bornar í umræddu bréfi.

Þá var einnig þess óskað, að verðlagsráðinu væri heimilað að hækka afurðaverðið, á sama hátt og ég nú hef greint í samræmi við hækkun vísitölu, ef hækkanir á grunnkaupi ættu sér stað, þ. e. a. s. grunnkaupi í almennri verkamannavinnu í Reykjavík, á undangengnu þriggja mánaða tímabili.

Þetta er að vissu leyti einnig þess eðlis, að það getur skapað meiri hreyfingar og þess vegna dregur úr þeirri festu, sem er nú höfuðtilgangurinn, að reyna að halda verðlaginu sem stöðugustu. Á hitt er hins vegar bent, eins og fram hefur komið í umr., sérstaklega um frv. um breyt. á l. um útflutningssjóð, að gert hefur verið ráð fyrir því að, að einhverju leyti a. m. k. verði í samningunum við útvegsmenn við þetta breytingar á grunnkaupinu miðaðar og hef ég því talið, að það væri ekki óeðlilegt frá því sjónarmiði, að hér kæmi fram meira samræmi, en ella væri á milli aðstöðu bændanna annars vegar og útvegsmannanna hins vegar. Þó er ekki alveg ljóst, hvað kann að felast mikið í samkomulagi ríkisstj. um þetta í sambandi við samningana við útvegsmenn og sjómenn og víst er það rétt, að það er ekki bundið í lögunum eftir því frv., sem hér liggur fyrir 9. gr., en um þetta segir þó í grg. frv. frá hæstv. ríkisstj. um útflutningssjóð, 90. mál, með leyfi hæstv. forseta: „Í samningum þeim, sem gerðir voru milli bátasjómanna og útvegsmanna, er ráð fyrir því gert, að skiptaverð hækki og lækki með breytingum á kaupgreiðsluvísitölu. Í framhaldi af þessu varð í samningum ríkisstj. við útvegsmenn að gera ráð fyrir, að þeir gætu fengið bætta þá hækkun rekstrarkostnaðar, er af slíkum kaupbreytingum og breytingum á grunnkaupi leiddi.“

Það er, eins og ég segi, nokkuð til samræmis við þennan hugsunarhátt, sem ég hef fyrir mitt leyti fallizt á eða tekið upp þessa ósk framleiðsluráðs landbúnaðarins, eins og hún lá fyrir fjhn.

Þá var þriðja ósk framleiðsluráðsins sú, sem fram kom hér áðan, að bændur fengju nú þegar leiðréttingu á verðlagsgrundvellinum frá því í haust vegna hækkunar á Dagsbrúnarkaupi, sem varð frá því að verðlagning landbúnaðarafurðanna var ákveðin 1. sept. eða síðar í septembermánuði og það er verðhækkun, sem bændur eiga tvímælalaust rétt til, en að óbreyttum lögum hins vegar mundi ekki koma inn í verðlagsgrundvöll þeirra fyrr en 1. sept. á þessu ári. Það má segja, að það sé nokkuð sanngirnismál að fara þess á leit, einkum og sér í lagi þegar er verið að flytja till. um það og fallast á að hreyfa oftar verðlagsgrundvöllinn, en ella væri. En hitt er líka rétt, að í sjálfu sér eiga bændur ekki rétt á þessu fyrr, en nú næsta haust og auðvitað mundi það nokkuð draga úr þeim verðlækkunum, sem stefnt er að einmitt og mikilsvert að komi sem fyrst fram á landbúnaðarvörunum, ef fallizt væri á þetta sjónarmið. Og þó að fulltrúar bænda hafi tilhneigingu þarna til þess að óska eftir slíku sem þessu, þá verða þeir einnig á sama tíma að hafa í huga, að hér hefur verið fallizt á mjög mikilvægt atriði í sambandi við verðlagningu landbúnaðarafurðanna, sem felst í 8. gr., að verðbreytingar í sambandi við kaupgreiðsluvísitölu og breytingar á grunnkaupi, ef tillögur um það verða samþykktar, séu reiknaðar út fjórum sinnum á ári, en fram til þessa aðeins árlega.

Með vísun til þessa verð ég að segja fyrir mitt leyti, að ég treysti mér ekki til að taka upp þessa ósk, sem var sú þriðja og þar sem ég hef fyrir mitt leyti líka orðið að fallast á þau sjónarmið hæstv. ríkisstj., að hér gæti skipt verulega máli að öðru leyti um framgang þessa máls, ef við þessu væri orðið nú.

Ég held, að það séu svo ekki fleiri atriði, sem ég þarf að taka fram í sambandi við þetta mál að svo komnu.