12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (2041)

21. mál, aðbúnaður fanga

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Till., sem fyrir liggur, fjallar um skipun n. til að athuga aðbúnað fanga hér á landi.

Ég vil strax láta þess getið, að hæstv. ríkisstj. mun nýlega hafa skipað nefnd lögfræðinga til að athuga aðbúnað fanga og sú n. þegar skilað sínum niðurstöðum. Ég hef orð á þessu til þess, að sú hv. n., sem væntanlega fær þessa till., sem hér liggur fyrir, til meðferðar, geti aflað sér upplýsinga um þá athugun, sem þegar hefur fram farið. En mig langar að gera með nokkrum orðum grein fyrir, hvers vegna þessi þáltill. samt sem áður er komin fram.

Þegar afbrotamenn fyrri alda voru dæmdir, var þess gætt fyrst og fremst, að refsingin væri í sem fyllstu samræmi við glæpinn. Megináherzlan var lögð á endurgjaldið og farið eftir boðorðinu: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Afbrotið sjálft var vegið og mælt, en afbrotamanninum minni gaumur gefinn. Guðstrú og opinbert siðgæði kröfðust þess, að full friðþæging kæmi fyrir framinn glæp.

Þetta hefndarsjónarmið mun ekki hafa þótt gefa góða raun, og því var önnur stefna upp tekin á síðustu öld. Samkvæmt henni skyldi refsingin ekki skoðast sem hefnd þjóðfélagsins, heldur ætti hún að vera vörn þess. Afbrotamanni skal að vísu refsað öðrum til viðvörunar, en jafnframt á refsingin að vera honum sjálfum meðal til betrunar. Þessi stefnubreyt. hefur leitt til þess, að nú er ekki lengur einblínt á afbrotið sjálft, heldur er persónan, sem framdi það, einnig athuguð ofan í kjölinn. Andlegt og líkamlegt ástand afbrotamannsins, upplag hans og uppeldi, lífskjör og allar félagslegar aðstæður, allt er þetta rannsakað í því skyni, að síðan megi ákveða honum þá tegund refsingar, sem þjóðfélaginu og honum sjálfum verði affarasælast. Hér er verndin komin í stað hefndarinnar.

Afbrotamenn mynda mjög sundurleitan hóp. Þar má finna alls konar manngerðir, unga menn og gamla, heilbrigða og sjúka, og má ráða af líkum, að ekki muni þeim öllum henta sama refsimeðferð, jafnvel þótt afbrotin sjálf gætu gefið tilefni til slíks. Afbrotamennina þarf að flokka og veita hverjum þá meðferð eða þá refsingu, sem bezt svarar tilgangi. Ef geðveikur maður, fáviti eða flogaveikur maður fremur ódæði, ber að vista hann á viðeigandi hæli til lækningar eða vörzlu. Sé um að ræða alvarlega áskapaða skapgerðarveilu eða afbrotahneigð, verður að dæma manninn til gæzlu á vinnuhæli, sem eingöngu er slíkum ætlað. Megi rekja orsakir afbrots til óhóflegrar áfengisneyzlu, á meginverkefnið að vera lækning ofdrykkjunnar, og þannig mætti áfram telja.

Oft eiga erfið lífskjör þátt í, að afbrot eru framin, svo og ýmiss konar geðræn vandamál, sem ekki hefur tekizt að leysa á heilbrigðan hátt. Þegar svo stendur á, er leitazt við að liðsinna afbrotamanninum, bæði á meðan hann afplánar og á eftir, að sjálfsögðu í þeim tilgangi að forða honum frá endurtekningu afbrota. Sérstaklega mikilvægt er talið, að refsimeðferð unglinga sé frá upphafi tekin réttum tökum. Þeir fá gjarnan skilorðsbundna dóma og njóta leiðbeinandi eftirlits, en teljist refsivist óhjákvæmileg, er þeim komið fyrir í sérstökum ungmennafangelsum, þar sem þeir nema hagnýt störf eða bókleg fræði.

Á síðari árum hafa læknar og sálfræðingar verið kvaddir í þjónustu réttvísinnar í vaxandi mæli. Þessir sérfræðingar rannsaka afbrotamanninn og gefa leiðbeiningar um meðferð, sem þeir síðan eiga meira eða minna þátt í að veita.

Í sumum fangastofnunum er forstöðumaðurinn geðlæknir, sem hefur aðstoðarlækna og sálfræðinga sér við hlið í starfi. Í þeim stofnunum dveljast erfiðustu og hættulegustu afbrotamennirnir, psykopatarnir, er áður voru taldir ólæknandi með öllu, en reynast nú alls ekki vera það. Einnig við almennu fangelsin starfa sérfróðir menn að betrun fanganna, og eftir afplánun er meðferðinni haldið áfram í formi ýmiss konar félagslegrar aðstoðar.

Þessi er stefnan í refsilöggjöf og fangelsismálum siðmenntuðustu þjóða, eins og t.d. Norðurlandaþjóðanna. En hvernig er þessu varið hjá okkur? Ég hygg, að löggjöf okkar í þessu efni sé ekki svo mjög aðfinnsluverð og að í henni sé jafnvel gert ráð fyrir flestu af því, sem ég nú hef drepið á. Allt öðru máli gegnir um framkvæmdina. Þar er ástandið þannig, að ekki verður við unað öllu lengur. Fangastofnanir eru of fáar og nauðsynleg aðgreining fanga því óframkvæmanleg. Í þröngum og óvistlegum húsakynnum fangelsanna ægir öllu saman. Þar eru óharðnaðir unglingar hafðir með gömlum afbrotamönnum og geðsjúkir menn með heilbrigðum. Ólíkustu manngerðir safnast þar saman og blanda geði, með þeim afleiðingum, að allt fær keim af því, sem þar finnst lakast.

Svo að segja öll skilyrði til betrunar vantar á þessum stöðum. Í fangahúsi höfuðstaðarins er jafnvel sjálfsagðasta betrunarmeðalið, vinnan, föngunum með öllu meinað. Þar sitja menn auðum höndum vikum og mánuðum saman.

Starfslið fangelsanna er mjög einhæft og takmarkað við gæzlumenn. Þar koma geðlæknar sjaldan og sálfræðingar aldrei, að ég held. Félagslega sérmenntað starfsfólk fyrirfinnst ekkert í sambandi við fangelsin og er þó ómissandi. Sé eitthvað fengizt við fangahjálp, er það kák eitt, sem sennilega er verra, en gagnslaust.

Í 15. gr. almennra hegningarlaga er svo ákveðið, að eigi skuli refsa mönnum sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir til að stjórna gerðum sínum á þeim tíma, er þeir unnu verkin. Ég skal ekki fullyrða neitt um, hvernig þessu ákvæði er framfylgt, en tel tíð mistök vera sennileg og raunar óhjákvæmileg, svo lengi sem læknisleg og sálfræðileg athugun sérhvers afbrotamanns er ekki gerð. Enn meiri hætta á mistökum liggur þó í framkvæmd næstu gr. á eftir, þar sem rætt er um geðbilanir á vægara stigi og vafi leikur á í einstökum tilfellum, hvort refsingu skuli beitt eða ekki. Má gera ráð fyrir, að í því efni sé yfirsjónin regla, meðan svo er í pottinn búið sem nú er.

Í hegningarlögunum er gert ráð fyrir fangastofnunum og hælum, sem ekki eru til í landinu nú, mörgum árum eftir setningu laganna. Virðist sannarlega kominn tími til að framkvæma eitthvað af því, sem þar er ráðgert. Þannig er í 43. gr. l. heimild um sérstaka meðferð fanga innan 22 ára aldurs. Segir þar svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Skal þá leggja sérstaka stund á að efla andlegan og líkamlegan þroska fanganna með kennslu, líkamsæfingum og hentugri útivinnu svo og með því áð kenna þeim atvinnugreinar, sem komið geti þeim að gagni, er þeir hafa fengið frelsi sitt aftur.“

Þetta er lofsvert ákvæði og ber löggjafan um fagurt vitni, en hvers virði er það sem pappírsplagg eitt? Hvers virði eru góð lög, ef stjórnarvöldin sjálf hirða ekkert um að framkvæma þau? Líklega er þá verr farið, en heima setið. Reynslulausn úr fangelsi og skilorðsbundnir refsidómar eru leyfð með lögum. Hvort tveggja mun talsvert tíðkað, en ætti þó að verða miklu algengara, en það hefur verið. En þá er skilyrðið það, að eftirlitið með mönnunum og félagsleg aðstoð þeim til handa verði á annan veg, en nú er, sem sé rækt af starfsliði, sem til þess er sérstaklega þjálfað. Er slík þjónusta nú víða erlendis tengd fangastofnunum.

Þá er enn allt of lítil áherzla lögð á að veita drykkfelldum afbrotamönnum nauðsynlega læknismeðferð, eins og lög þó gera ráð fyrir, og hefur mig oft furðað á tómlæti yfirvalda í þeim efnum. Þess má þó minnast, að fjöldi afbrota er framinn í ölæði og að 60% fanga, eða meira, eru drykkjumenn.

Óhætt mun að fullyrða, að ástand fangelsismála okkar sé hið aumlegasta og þjóðinni til tjóns og vanvirðu. Oft berast almenningi fréttir úr fangelsunum, og ætíð eru þær um einhver mistök eða óhöpp. Fangar strjúka, einn eða fleiri saman, oft á hinn ævintýralegasta hátt. Fangar gera verkfall eða annan samblástur gegn yfirboðurum sínum. Fangi fremur sjálfsmorð og annar finnst örendur í klefa sínum. Á þessa leið eru fregnirnar. Af þorra fanganna fara þó engar sögur. Þeir koma í fangelsin og fara þaðan, koma aftur og fara, og þannig áfram, á meðan kraftar þeirra endast. Hver fangelsisvist gerir þá að örlítið verri mönnum, en þeir voru áður.

Það er nauðsyn bráðra umbóta á sviði fangelsismálanna. Til framkvæmda verður að koma sem fyrst, en þó ber að vanda undirbúning allan. Bygging nýrra fangastofnana er vafalaust brýn nauðsyn, en hitt er þó sízt ónauðsynlegra, að hæfir starfskraftar tengist þessum stofnunum. Það vill oft gleymast, að húsakynnin ein ákveða ekki gæði stofnunar. Þar veltur eins mikið og raunar meira á hæfni starfsfólksins. Við eigum vafalaust ágæta fangaverði, en okkur vantar lækna, sálfræðinga og ármenn til starfa í fangelsunum. Fyrir þessu öllu, húsakynnum og hæfu starfsliði, verður að sjá, ef vel á að takast. Nefnd sérfróðra manna þarf að kynna sér ástandið, eins og það er, og gera síðan till. um, hvernig bezt verði úr bætt. Þetta er það, sem við leggjum til, hv. 8. landsk. þm. og ég, í þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir.

Herra forseti. Ég legg svo til, að till. verði vísað til hv. allshn. að þessari umr. lokinni.