12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (2043)

21. mál, aðbúnaður fanga

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Í framsöguræðu minni gerði ég nokkuð einhliða grein fyrir fangelsismálum frá sjónarmiði betrunarinnar, en ég viðurkenni fyllilega, að það eru fleiri hliðar á þessu máli, fangelsismálum okkar, og hv. þm. G-K. (ÓTh) benti á a.m.k. tvær af þessum hliðum, öryggi þjóðfélagsins og öryggi gæzlumanna fangelsanna. Þetta eru tvær hliðar á málinu, sem eru mjög mikilsverðar, að þannig sé að búið í fangelsunum, að fangaverðirnir séu ekki í óþarflega mikilli hættu, og að almenningur, þjóðfélagið sjálft, standi ekki uppi magnþrota gagnvart föngum, en slíkt er ástandið nú hjá okkur, að það nálgast þetta.

Ég viðurkenni líka, eins og ég raunar tók fram, að refsing á að vera til viðvörunar, bæði mönnunum sjálfum og öðrum, og betrunin er aðeins gerð til þess að forða þessum mönnum frá, ef hægt er, endurtekningu glæpa, en refsivistin, refsingin sjálf, skal vera til viðvörunar. Ég álít ekki, að við getum komizt hjá því, og einmitt þess vegna er ekki gott, að það komi oft fyrir, sem kom fyrir nýlega og hv. síðasti ræðumaður sagði frá, að fangar geti gengið út úr fangelsinu, þegar þeim sýnist, og að hið opinhera verði að lokum að gefast upp. Þetta er mjög óheppilegt. En þetta eru aðrar hliðar á málinu, en ég gerði að umtalsefni, hliðar, sem eiga fullkominn rétt á sér að athugast um leið og eru afleiðing af því sama ástandi, sem ég hef rætt hér um.