29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (2052)

7. mál, innflutningur varahluta í vélar

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að mótmæla þessari till., heldur þvert á móti, en ég hlýt að gera hana um leið að umræðuefni.

Þessi till., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru áskorun á ríkisstj. um, að hún hlutist til um, að innflutningsskrifstofan og gjaldeyrisbankarnir geri skyldu sína. Og vissulega er slíkra áskorana full þörf og þó að fyrr hefði verið. S.l. sumar hafa t.d. jarðýtur hjá búnaðarsamböndum og fleiri dýrar vélar, sem hver um sig kostar svo að skiptir hundruðum þús. kr., staðið ónotaðar, af því að varahlutar til þeirra hafa verið ófáanlegir. Og rekstur þeirra véla, sem enn eru í gangi, hefur, þar sem ég þekki til, aldrei verið jafnóhagstæður og í sumar vegna sífelldra bilana og þar af leiðandi vinnutafa sökum vöntunar á varahlutum til þeirra.

Sama sagan og engu betri er af búvélum bænda, bæði dráttarvélum og heyvinnuvélum. Þessar vélar urðu í sumar, sumar hverjar, ónothæfar um hásláttinn af þessum ástæðum, bændum, sem fyrir því urðu, til stórtjóns. Og þeim bændum fer stöðugt fjölgandi með hverjum mánuði, sem líður, sem komast í vandræði af þessum sökum.

Þegar ég fór suður í haust, var ég t.d., beðinn að kaupa tvö örlítil smástykki í Ferguson-dráttarvél, sem hvert um sig mun hafa sennilega kostað aðeins nokkra tugi króna. Ég spurðist fyrir hjá umboðinu, h.f. Dráttarvélum, sem er dótturfélag S.Í.S. Stykkin voru ekki til, og þegar ég spurði afgreiðslumanninn, hvenær þau væru væntanleg, bjóst hann við, að þau kæmu ef til vill fyrir vorið eða þá n.k. vor. Þá stóðu haustannir yfir hjá bændum og því afar mikil þörf fyrir dráttarvélavinnu einmitt á þeim tíma, þegar fólksleysið er jafnmikið og það er nú. Vitanlega er reynt að lappa upp á þessar vélar, þegar svona stendur á, ef þess er nokkur kostur, þótt eina rétta væri að taka þær algerlega úr notkun, því að viðbúið er, að þær stórskemmist að öðrum kosti.

Afleiðingin verður því, að þegar varahlutarnir koma loksins, gagna þeir ekki lengur, t.d. í þessa vél. Þá má búast við, að það gagni ekki lengur þessi tvö smástykki, sem kostuðu um nokkra tugi króna, heldur verði þá að kaupa varahluta, sem skipta hundruðum eða jafnvel þúsundum króna, vegna þess að það hefur orðið að nota vélina og hún skemmzt í notkuninni af þessum sökum.

Ef innflutnings- og gjaldeyrisyfirvöldin halda, að synjun eða hömlur á innflutningi varahluta til landbúnaðarvéla sé einhver búhnykkur og gjaldeyrissparnaður, er það áreiðanlega hinn herfilegasti misskilningur. Það er þvert á móti stórfelld sóun á gjaldeyri og hefur þegar og á áreiðanlega eftir að baka bændum og þjóðarbúinu verulegt og það jafnvel stórtjón, að ég ekki tali um, að á undanförnum árum hefur verið varið, eins og kom fram í ræðu frsm., stórfé, svo að mörgum milljónatugum króna nemur, af dýrmætum gjaldeyri þjóðarinnar til kaupa á vélum í þágu landbúnaðarins, til þess að bændur geti þannig mætt sívaxandi verkafólksskorti í sveitunum. Nú er verið með þessum ráðstöfunum að gera tilraun til þess, að þessi sjálfsbjargarviðleitni bændanna, — því að í raun og veru hafa þessi kaup ekki verið annað en nokkurs konar sjálfsbjargarviðleitni, — gera þessa sjálfsbjargarviðleitni að engu með því að neita um nauðsynlega varahluta til þessara véla.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þessa hlið málsins. Ég hygg, að hún sé öllum nokkurn veginn ljós. En nú vita allir, sem nokkuð þekkja til þessara mála, að innflutningur varahluta í vélarnar er hreint framkvæmdaratriði, sem er algerlega á valdi núv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar. Þegar núv. ríkisstj. var setzt að völdum, var það eitt af hennar fyrstu verkum að skipa þannig málum, að hún réð öllu í bönkunum og um innflutninginn. Stjórnin með stuðningsflokkum sínum ræður því innflutningnum og gjaldeyrisúthlutuninni algerlega og fer með þessi mál eftir eigin vild. Þegar svona er í pottinn búið, furðar mig á, að flm. þessarar till. skyldu ekki snúa sér til ríkisstj. og samstarfsflokka sinna á Alþingi fyrir langa löngu, a.m.k. strax í vor, áður en þingi sleit, og knýja þar fram það, sem þáltill. fer fram á, því að þegar í vor var kunnugt, að jarðýtur t.d. og fleiri vélar, sem kosta hundruð þús. kr., kæmust ekki til vinnu, nema varahlutar fengjust frá útlöndum. Þetta vissu menn. Að ótöldum svo búvélum bænda, sem voru í yfirvofandi lamasessi, ef varahlutar væru ekki fyrir hendi. Ef til vill hafa flm. þáltill. reynt þetta, en árangurinn hefur þó orðið algerlega neikvæður, þeir hafa enga áheyrn fengið, og um það ber ástandið nú nokkurn veginn ljóst vitni.

Þessi till., sem hér liggur fyrir, er því í mínum augum fyrst og fremst tilraun flm. til að þvo af sér, í augum bænda grunsemdir um, að þeir eigi beinan þátt í því ófremdarástandi, sem hér hefur verið lýst. Er þessi viðleitni flm. í raun og veru ofur vel skiljanleg, m.a. þegar höfð er í huga ræða fjmrh. nú fyrir skömmu, þar sem helzt var að heyra, að hér væri allt í þessu fína lagi og blómabúskapur á þjóðarbúinu á helzt öllum sviðum. En þrátt fyrir það hefur þó ekki reynzt gerlegt að sjá bændum fyrir nauðsynlegustu varahlutum í vélar sínar. Eftir þessu að dæma virðist það vera viljinn, sem vantar hjá stjórnarvöldunum eða fulltrúum stjórnarvaldanna til þess að kippa því í lag. Það getur því líka verið, að þáltill. sé eins konar neyðarkall þessara fylgismanna ríkisstj., af því að þeim hafi ekki orðið ágengt, neyðarkall til þeirra þingmanna, sem ekki styðja stjórnina, um, að þeir veiti sitt lið til að fá framgengt þessu nauðsynjamáli okkar bændanna eða bændastéttarinnar. En hvernig sem þessu er háttað, er það víst, að fáist ekki innflutt nú hið allra bráðasta, nægilegt af varahlutum til að fullnægja þörfinni, hlýtur það að valda bændum áframhaldandi og vaxandi vinnutöfum og stórtjóni, sem hlýtur að leiða til öngþveitis á þeim heimilum, þar sem að langmestu leyti er treyst á þessar vélar. Það er því sjálfsögð skylda að fylgja þáltill., ef hún gæti orðið að einhverju liði, og vil ég hér með skora á alla að veita þessu máli lið.

Reynslan ein sker þó úr því, hvort tilgangurinn með flutningi till. er aðeins handaþvottur eða raunveruleg viðleitni til úrbóta í þessu máli.