29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (2054)

7. mál, innflutningur varahluta í vélar

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er út af ummælum, sem féllu hjá hv. 2. þm. Skagf., sem ég tek til máls. Það eru þau ummæli, að það mundi sýna sig við athugun á þessu máli, hvort hér væri raunverulega verið að styðja að því, að bankarnir gengju betur fram í því en áður eða gjaldeyrisyfirvöldin að sjá fyrir gjaldeyri til varahluta, sem hér er gert ráð fyrir í þessari till., eða það væri kattarþvottur af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég get skýrt frá því strax, að á s.l. vetri, nægilega snemma til þess að hægt hefði verið að sinna málinu, ritaði ég sem landbrh. bréf til gjaldeyrisbankanna og gjaldeyrisyfirvaldanna og óskaði þess, að þau gættu þess, að gjaldeyrir yrði nægilegur til þess að flytja inn varahluta í vélar. Og þessi bréf getur n., sem fjallar um málið, að sjálfsögðu fengið. Það, sem tafði málið kannske meira en ella, var það, að á s.l. vetri voru gerðar meiri pantanir í heimilisdráttarvélar en nokkurn tíma hafa verið gerðar áður og fyrir meiri fjárhæð. Það er því ekkert launungarmál, að margir af þeim, sem sjá um gjaldeyrisúthlutunina, töldu, að of langt væri gengið á einu ári að kaupa inn yfir 500 vélar, og kann það að hafa haft nokkur áhrif um skeið á úthlutun gjaldeyris til varahluta. En til þess að reyna að fyrirbyggja, að þetta hefði áhrif á innflutning varahluta til véla til landbúnaðarins, var þá rætt við gjaldeyrisyfirvöldin hvað eftir annað um fyrirkomulag þessa máls, án þess að það bæri þann árangur, sem ég hefði viljað eiga von á, þó að vitanlega sé ekki hægt að neita því, að það þarf í mörg horn að líta, þegar úthlutað er gjaldeyri. Að lokum, á s.l. vetri, skipaði ég svo þrjá menn til að rannsaka til hlítar, hvað mundi þurfa mikinn gjaldeyri til þessara véla, og liggur sú skýrsla fyrir og sýnir, að það hefur á undanförnum árum verið vaxandi skortur á varahlutum og jafnframt með aldri vélanna, eins og frsm. tók fram, geysilega mikil aukning á þörf fyrir varahluta, þannig að þörfin mun vera komin núna upp í um það bil 10 millj.

Þessa skýrslu vildi ég gefa nú við umræður um þetta mál.