29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (2057)

7. mál, innflutningur varahluta í vélar

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur tekið fram það, sem í raun og veru er kjarni þessa máls, þ.e. að rannsakað sé og það tímanlega ár hvert, hver gjaldeyrisþörfin er til innflutnings á varahlutum, því að það er ekki nóg, að þær upplýsingar liggi fyrir í árslok, þær þurfa að liggja það tímanlega fyrir, að innflutningurinn geti hafizt fyrir næstkomandi ár, seint á árinu áður, til þess að hægt sé að koma vélunum í nothæft ástand það tímanlega, að starfstími þeirra verði óskertur.

Það, sem vakti fyrir flm. þessarar till., var fyrst og fremst það, að komið yrði föstu skipulagi á þann innflutning, sem er mjög nauðsynlegur. Engum dylst þó, að eins og nú er komið og með vaxandi vélvæðingu í landinu verður öruggt skipulag enn nauðsynlegra á komandi árum. Það verður meiri þörf og það miklu meiri þörf á gjaldeyri til þessara hluta á komandi árum, en hefur verið til þessa. Við þurfum ekki að vera að deila um keisarans skegg að því leyti til, hv. sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Við vitum það ósköp vel, að það hefur verið skortur á varahlutum öll undanfarin ár að einhverju leyti. Mér er það vel kunnugt með Massey-Harris-vélarnar, að það hefur verið ákaflega erfitt að fá varahluta til þeirra í fjöldamörg ár, þær hafa staðið, kannske sumar landbúnaðarvélarnar öll sumrin, án þess að maður fengi nokkra hluti til þeirra. Það er ekki neitt nýtt fyrirbrigði nú. En aðalástæðurnar fyrir því, að ég tel, að það hafi borið meira á varahlutaskorti nú, en verið hefur, er það tvennt, að í fyrsta lagi hafa varahlutarnir yfirleitt hækkað á erlendum markaði og þess vegna þurft meiri gjaldeyri til kaupa, en annars hefði verið, og í öðru lagi, að vélafjölgunin er svo mikil í landinu, að það þarf af þeim sökum miklu meiri gjaldeyri, en nokkrir hafa reiknað með, og þetta vita sjálfstæðismenn einnig, enda hafa þeir sína fulltrúa bæði í innflutningsnefnd og gjaldeyrisbönkunum, þannig að þeir gátu náttúrlega á þeim vettvangi ekki síður greitt fyrir þessum málum en aðrir. En það, sem ég tel að hafi kannske vantað í þessum efnum á undanförnum árum og er nauðsynlegt, það er að koma föstu skipulagi á innflutning varahlutanna, það er að skipuleggja í tíma, hvað muni þurfa mikið af gjaldeyri til varahluta- og verkfærakaupa, svo að það strandi ekki neitt af þeim sökum.

Mér er það gleðiefni, að þeir hv. sjálfstæðismenn, sem hér hafa talað, hafa tekið þessari till. vel, eins og raunar vænta mátti af þeim, sem hér hafa talað. Hitt skal ég fyllilega játa, að ég hef ekki fylgzt með því, sem hv. 7. þm. Reykv. gat um, að það væri hörgull á varahlutum í iðnaðinum eða jafnmikill skortur á varahlutum til hans og til landbúnaðar og sjávarútvegs. Að sjálfsögðu vænti ég þess, að n. taki þá hlið málsins til athugunar líka og það megi þá lagfæra það, ef þörf þykir. Og ég vænti þess líka, að n. rannsaki, hvern hátt verði bezt að hafa á í þessum efnum á komandi árum. Það hafa t.d. verið fluttar inn 800 hjóladráttarvélar á 2 s.l. árum, og með þannig vaxandi innflutningi, bæði á þeim tegundum véla og öðrum, verður varahlutaþörfin miklu meiri, svo að það eru orð í tíma töluð, að það sé sannarlega tekið til athugunar, hvað mikið við þurfum til að halda gangandi þeim vélakosti, sem við höfum nú og komum til með að fá á komandi árum.