29.10.1958
Sameinað þing: 6. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (2059)

7. mál, innflutningur varahluta í vélar

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það eru spurningar, sem hv. 1. þm. Reykv. (BBen) bar fram. Hann spurði um það, hverjum hefði verið ritað, hvort það hefði verið ritað gjaldeyrisbönkunum eða innflutningsskrifstofunni. Það var ritað báðum, vegna þess að það eru báðir aðilar, sem hlut eiga að máli, þegar þarf að afgreiða þessi mál.

Hann spurði um það, hvort gjaldeyrir hefði verið veittur fyrir þessum 4.7 millj. kr., sem leyfi lágu fyrir um í júlímánuði. Það stendur ekkert um það í skýrslunni, og ég vil ekki fullyrða neitt um það, en það stendur, að í lok mánaðarins hefðu verið 4 millj. kr., og ætti þá að vera sæmilega séð fyrir þeim hluta varahlutanna á þessu ári, sem háður er leyfum, svo framarlega sem erlendur gjaldeyrir er fyrir hendi til kaupanna.

Um afgreiðslu málsins í þessum stofnunum vil ég segja það, að ég geri ráð fyrir því, að hv. alþm. geti fengið upplýsingar um atkvgr. um það bæði í innflutningsskrifstofunni og í báðum bönkunum, því að ég hygg, að menn, sem hann á góðan aðgang að, hafi fjallað um málin þar ekki síður en þeir menn, sem ég á aðgang að, flokksbræður mínir. Ég vil ekki á þessu stigi a.m.k. fara að gefa neina skýrslu um það, hvernig atkvgr. í bönkunum og innflutningsskrifstofunni hefur verið háttað um þessi mál, en ég veit, að fulltrúar Sjálfstfl. hafa tekið þátt í atkvgr., þar ekki síður en hinir.