22.10.1958
Sameinað þing: 4. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (2066)

16. mál, lífeyrissjóður fyrir bátasjómenn

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Frsm. þessarar þáltill., sem hér er til umræðu, vék nokkrum orðum að frv.. sem áður hafði verið hér lagt fram af mér í hv. Ed. um breytingar á hinum nýsettu lögum um lífeyrissjóð togarasjómanna, og varpaði fram þeirri spurningu sérstaklega, hvað ætti að verða um alla hina, sem í dag nytu ekki þeirra hlunninda, sem lífeyrissjóðir væru taldir gefa þeim, sem þar ættu hlut að máli.

Ég lýsti því yfir við umr. í Ed. um það frv., sem hann minntist réttilega á að ég hefði þar flutt, að ég væri síður en svo eða minn flokkur andvígur því, að allsherjarathugun færi fram á því að gera lífeyrissjóðina almennari og þá helzt fyrir alla þá, sem ekki njóta þeirra þegar, en lýsti því þar, sem ég skal endurtaka hér, að ástæðan til flutnings þessa frv. er fyrst og fremst sú, að nú ríkir nokkurt misrétti meðal sjómannastéttarinnar einnar, þar sem sérstök lög hafa verið samþ. varðandi togarasjómennina og flestar deildir farskipaflotans hafa þegar samið um sína lífeyrissjóði frá og með næstu áramótum, og þá er aðeins einn hópur sjómannastéttarinnar eftir, bátasjómennirnir, og það hefði verið litið svo á af færustu mönnum, sem um þessi mál hafa fjallað í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögu okkar, að nú yrðu gerðar enn þá meiri kröfur til bátaflotans um aflamagn, heldur en verið hefur, svo að nauðsyn bæri til að örva menn til þátttöku í sjómennsku á vélbátaflotanum.

Þetta voru þær meginstoðir, sem undir flutning þessa frv. renna.

Ég sé ekki heldur, að þrátt fyrir það að fyrirsögn þessarar þáltill. hefur verið breytt nokkuð frá því, sem hún var samþ. á s.l. Alþingi, að vísu í dálitið öðrum búningi, og nú hefur verið bætt inn í upptalninguna í henni bátasjómönnum, að það eigi að geta á nokkurn hátt dregið úr framgangi þessa frv. né að frv. geti á nokkurn hátt dregið úr framgangi þessarar tillögu.

Ég verð hins vegar að láta í ljós undrun mína yfir því, eins og síðasti ræðumaður hér áðan, að þessi till. skyldi nú endilega vera flutt rétt í kjölfarið á þessu frv. í Ed., þegar örskammt er síðan till. var samþ. hér sama efnis, þó að sá munur væri þar á, að nú væri nefnd falin framkvæmd málsins, en ríkisstj. áður.

Ég skal endurtaka það, sem ég gerði í upphafi þessara orða minna og reyndar einnig í hv. Ed., að ég er samþykkur þeim rökum, sem að þessari þáltill. liggja, en tel, að það sé framtíðarverkefni að leysa það mál, en meginefnið, sem margnefnt frv. mitt fjallar um, þoli ekki bið. Um það vitna hinar sífellt auknu auglýsingar eftir mannafla til þessara mjög mikilvægu starfa fyrir íslenzka þjóðarbúið.