22.10.1958
Sameinað þing: 4. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (2068)

16. mál, lífeyrissjóður fyrir bátasjómenn

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Í grg. fyrir þessari þáltill. er m.a. að því vikið, hversu miklu betri sé hagur þeirra, sem njóta lífeyrissjóðshlunninda, eins og t.d. opinberir starfsmenn, heldur en hinna, sem geri það ekki.

Ég dreg út af fyrir sig ekki í efa, að þetta muni rétt vera, en tel þó rétt að vekja athygli hv. þm. á því, af því að ég er ekki víss um, að það sé öllum kunnugt, að hvað snertir a.m.k. stærsta starfshópinn, sem hér er um að ræða, opinbera starfsmenn, þá hefur verið tekið nokkurt tillit til þessara hlunninda við ákvörðun launa þeirra, þannig að með tilliti til lífeyrissjóðshlunnindanna hafa opinberum starfsmönnum verið ákveðin lægri laun miðað við aðrar samsvarandi starfsstéttir, heldur en þeir ella hefðu fengið. Ég tel rétt, að á þetta sé bent og það komi fram, þótt ég búist nú við, að það haggi því samt ekki, að starfsmennirnir og aðrir, sem svipaðra hlunninda njóta, séu eftir sem áður þó betur settir, en aðrir.

Að öðru leyti er ég sammála hv. flm. um það, að hlutur ellistyrkþega er ekki svo góður sem vera skyldi, þannig að þar er úrbóta þörf. Það eru sjálfsagt engir aðilar í þjóðfélaginu, sem hafa dregizt svo aftur úr í því kapphlaupi, sem verið hefur um bætt kjör, sem gamla fólkið. Og meginorsök þess er auðvitað verðbólgan. Það má nefna það í þessu sambandi, að samkv. lífeyrissjóðslögunum frá 1936, — það var fyrir stríð og miðað við þá fátækt, sem þjóðin átti þá við að búa, — þá var gert ráð fyrir því, að fullur lífeyrir yrði 100 kr. á mánuði fyrir einstakling. Nú mun þessi lífeyrir nema eitthvað kringum 800 kr., og það er öllum kunnugt, að 800 kr. nú, munu ekki meira verðgildi en 100 kr. voru fyrir stríð, eða m.ö.o. þýðir þetta, að jafnvel þótt maður legði 800 kr. nú að jöfnu við 100 kr. fyrir stríð, sem ég efast þó um að sé rétt, þá hafa styrkþegarnir ekki fengið neina hlutdeild í þeirri aukningu þjóðarteknanna, sem átt hefur sér stað á þessum tíma. En ætla má, að raunverulegar þjóðartekjur hafi a.m.k. tvöfaldazt, og vissulega er það ranglæti, að þeir, sem að öðru leyti búa við skarðastan hlut, skuli þannig enga hlutdeild hafa fengið í raunverulegrí aukningu þjóðarteknanna. Hér er því vissulega hreyft góðu máli að mínu áliti. Um það er ég hv. flm. fyllilega sammála. Á hitt vil ég þó leyfa mér að benda, að hér er gert ráð fyrir því, að þessi lífeyrissjóðsstofnun geti orðið mjög víðtæk. Bæði í sjálfri till. og eins í grg. er jafnvel gert ráð fyrir því, að hún komi til að ná til allra þeirra, sem ekki njóta nú sérstakra lífeyrissjóðshlunninda.

Ef niðurstaðan yrði sú, þá væri í rauninni óeðlilegt, að hinum almenna lífeyrissjóði yrði haldið uppi sem sérstakri stofnun. Þetta finnst mér bera að þeim brunni, að eðlilegt sé þá að endurskoða ákvæði almannatryggingalaganna um ellilífeyri almennt. En ef endurskoða á ákvæðin um ellilífeyri almennt, þá vaknar sú spurning, hvort það sama á ekki við um aðra tryggingastarfsemi. Nú hefur það að jafnaði verið þannig, að t.d. elli- og örorkulífeyrir hefur verið látinn fylgjast að, þannig að ef hlutur ellilífeyrisþega yrði verulega bættur, þá verður varla annað séð en gera yrði tilsvarandi ráðstafanir varðandi alla styrkþega, eins og t.d. örorkustyrkþega. Mér virðist það því eðlilegast, eða ég varpa a.m.k. fram þeirri spurningu, hvort ekki væri þá eðlilegast að láta fara fram endurskoðun á almannatryggingalögunum almennt. Þetta verður sjálfsagt tekið til athugunar í þeirri hv. n., sem málið fær til meðferðar.

Að öðru leyti vil ég taka undir það, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði hér, að ef n. verður kosin af Alþ. með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, þá tel ég eðlilegt og sjálfsagt, að Alþ. kjósi alla mennina. Mér finnst sá háttur, sem hæstv. ríkisstj. og stuðningsfl. hennar hafa að jafnaði haft á við tilsvarandi nefndarskipanir, að láta hæstv. ríkisstj. tilnefna einn nm., vera óviðunandi, því að þetta þýðir, að hv. stjórnarfl. fá þá einum manni meira í þessar n. en þeim ber samkv. þeirra þingfylgi, og það tel ég ranglátt.

Ég vil svo að lokum vekja athygli á því, sem raunar kom fram í framsöguræðu hv. frsm. og honum var fyllilega ljóst, en það er vöxtur verðbólgunnar. En ég held, að það geri ekkert til, þó að þetta sé undirstrikað enn þá meir, en hann gerði. Við verðum að gera okkur það fyllilega ljóst, að grundvöllur allrar heilbrigðrar tryggingastarfsemi í landinu hlýtur ávallt að vera stöðugt verðgildi peninganna. Ef svo er, þá er tryggingastarfsemi vissulega heilbrigð, bæði fyrir þá einstaklinga, sem aðilar eru að henni, og þjóðfélagið í heild. Allt öðru máli gegnir, ef svo gengur sem undanfarið hefur verið, að verðgildi peninganna fer stöðugt rýrnandi. Þá verður það beinlínis óskynsamleg fjárráðstöfun fyrir einstaklingana að leggja fé sitt í tryggingastarfsemi. Hugsum okkur t.d. mann, sem keypt hefur sér lífeyrissjóðstryggingu fyrir stríð, og upp í þá lífeyrissjóðstryggingu hefur hann borgað með þeim tiltölulega verðmætu krónum, sem þá voru. En það, sem hann fær svo til baka á sínum tíma, verður ekki að verðgildi nema lítið brot af því, sem hann hefur lagt fram.

Það var um daginn, að ég hlustaði á erindi í útvarpinu, þar sem einhver hafði gert það að gamni sínu að reikna út, hvað maður, sem fyrir 30 eða 40 árum hefði safnað eldspýtustokkum í stað þess að leggja peninga sína í sparisjóð, væri miklu betur settur heldur en sá, sem hefði lagt peningana í sparisjóðinn. Þó að þetta væri gert til gamans, þá er það þó ekki annað, en bláköld staðreynd, sem fram í þessu kemur, þannig að þótt ekki sé nema gott eitt um það að segja, að skipaðar séu nefndir til þess að undirbúa endurbætur á tryggingalögunum, og til þess sé kannske einmitt sérstök ástæða nú, með tilliti til þeirrar miklu hættu, sem steðjar að allri tryggingastarfsemi vegna þeirra verðhækkana, sem nú eiga sér stað og yfirvofandi virðast, þá verður þó að hafa í huga, að til þess að skapa grundvöll fyrir heilbrigðri tryggingastarfsemi þarf að tryggja verðgildi peninganna.

Á síðustu mánuðum hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað hvorki um meira né minna en 25 stig, sem þýðir það, að 13% skattur hefur í rauninni með því verið lagður á alla starfandi sjóði. Við verðum því að gera okkur ljóst, að það mundi vera miklu stærra spor í þágu tryggingastarfseminnar í landinu að stöðva verðbólguna, en skipa nefndir til undirbúnings nýrri tryggingastarfsemi. Er ég þó engan veginn — síður en svo — að andmæla þessari till. eða öðrum, sem í þá átt ganga.