22.10.1958
Sameinað þing: 4. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (2069)

16. mál, lífeyrissjóður fyrir bátasjómenn

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara út í almennar umr. um fjárhagsmál, en það gleður mig stórum, að hv. 9. landsk. er undir það búinn að taka þátt í að tryggja, að verðbólguþróun haldi ekki áfram. Hefur stundum skort á, að félagar hans hafi a.m.k. verið til viðtals og þátttöku í þeim aðgerðum. En út í það ætla ég ekki að fara og efa ekki, að þessi hv. þm. væri persónulega reiðubúinn til þess.

Ég tók það fram hér áðan, að ég mundi ekki fara að ræða um einstök atriði í framkvæmd þessa máls og þá ekki heldur um það, hvort hér ætti að eiga sér stað endurskoðun á almennum tryggingalögum, því að það ætla ég nefndinni að gera, eins og greint er í grg. till. Það er mikill misskilningur hjá hv. 2. þm. Eyf., að hér sé um eitthvert vantraust á hæstv. ríkisstj. að ræða með flutningi þessarar till. Það, sem hér er um að ræða, er, að því er slegið föstu, að það skuli vera milliþn., sem leysi þetta verk af hendi, svo sem við reiknuðum að vísu með og fram kom í ræðu frsm. hér á hv. Alþingi 1957.

Ég hef kynnt mér, hvort það sé nokkuð óeðlilegur háttur um aðferð að skipun nefndar, sem gert er ráð fyrir hér með þessari till. okkar. Ég hef fengið þær upplýsingar, að hér sé ekki um neitt óeðlilegt að ræða og tilhögunin um skipun nefndarinnar í alla staði eðlileg. Hinu leyni ég ekki, að ég ber auðvitað mikið og margfalt meira traust til hæstv. ríkisstj. heldur en stjórnarandstöðunnar, og er það ekki að ástæðulausu, því að núverandi stjórnarandstaða er ekki traustvekjandi.

Út af því, sem hæstv. sjútvmrh. sagði, að hann héldi, að ef til vill hefði nefnd þeirri, sem undirbjó lögin um lífeyrissjóð togarasjómanna, verið falið þetta verk líka, þá hef ég kynnt mér það hjá formanni n., hvort svo er, og er það ekki, enda held ég, að það sé ekki eðlilegt, að sú nefnd endilega ætti að leysa það verkefni, því að mál togarasjómanna er afgreitt, en það eru mál annarra stétta, sem þarf að leysa, og því eðlilegt, að þar komi aðrir menn til starfa.

Ástæðan til þess, að við flytjum þessa till., er, eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, sú, að við viljum leggja áherzlu á að hraða málinu og undirstrika það, að við teljum þetta eðlileg vinnubrögð í framhaldi af því, sem þegar er búið að gera.