03.12.1958
Sameinað þing: 13. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (2081)

30. mál, almannatryggingar

Flm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þeim 10. landsk. þm. og 5. landsk. þm. að bera fram á þskj. 50 till. til þál., sem felur það í sér, að ríkisstj. láti fara fram endurskoðun á þeim ákvæðum 3. kafla almannatryggingalaga, er fjalla um upphæð slysabóta, með það fyrir augum, að slíkar bætur verði hækkaðar.

Helzt hefðum við flm. þessarar þáltill. kosið að geta flutt frv. til l. um þetta efni, en þess var ekki kostur, þar sem við höfðum ekki yfir að ráða þeirri sérkunnáttu um tryggingamál, sem til þess þarf að undirbúa slíkt frv. Var því sá einn kostur að flytja um þetta þáltill., þannig að hæstv. Alþ. gæti með þeim hætti látið í ljós vilja sinn um málið og þokað því áleiðis.

Í grg., sem till. fylgir, er sýnt fram á það með dæmum, að kaup Dagsbrúnarmanns, sem taka má sem mælikvarða um almennt kaupgjald í landinu, hefur hækkað stórum meira hlutfallslega, en iðgjöld til slysatrygginganna síðan 1939. Mundi því nú vera hægt að greiða mun hærri bætur fyrir sambærilegt iðgjald við það, sem greitt var 1939. Þá mun og mega fullyrða, að slysatíðni hefur lækkað verulega undanfarna áratugi, og það hefur að sjálfsögðu einnig áhrif á möguleika til hækkunar á slysabótum í hagstæða átt. Hlutverk slysatrygginganna er sem kunnugt er að greiða bætur fyrir tjón á mönnum, sem slasast við vinnu, þannig að þeir verða óvinnufærir eða slysið veldur dauða. Þó að slíkar tryggingar hafi þekkzt hér á landi og verið í einhverri mynd lögboðnar í meira en hálfa öld, fer því víðs fjarri, að þær séu með nokkrum hætti fullnægjandi enn.

Bætur þær, sem greiddar eru fyrir slys, eru það lágar, að aðeins lítill hluti tjóns fæst bætur. Þannig má benda á það, að dagpeningagreiðslur til einhleyps manns eru nú aðeins kr. 22.50 og verðlagsuppbót. Sé hann giftur, er samsvarandi upphæð 26 kr. og verðlagsuppbót og auk þess kr. 3.50 með verðlagsuppbót fyrir hvert barn á framfæri allt að þrem. Þetta mun vera um það bil 1/4 hluti og upp í ca. 1/5 hluta af kaupi Dagsbrúnarmanns. Valdi slys dauða innan árs, frá því að það bar að höndum, greiðast ekkju hans sem dánarbætur 9.000 kr. og verðlagsuppbót og foreldri hans frá 3 og upp í 9 þús. kr. og verðlagsuppbót.

Við, sem höfum það hlutverk með höndum að annast greiðslu þessara slysabóta, hljótum oft að blygðast okkar, er við greiðum út bæturnar, svo smávægilegar eru þær.

Að sjálfsögðu er skylt að geta þess, að í ýmsum tilfellum eru dánarbætur hærri. Þannig er það, að sé ekkja eða ekkill fimmtíu ára eða eldri og hafi auk þess misst helming starfsorku eða meir, þá greiðist auk dánarbótanna dálítill árlegur lífeyrir. Hafi lögskráður sjómaður látizt af slysförum, greiðast að auki 14 þús. kr. og verðlagsuppbót til ekkju hans, þannig að alls fær hún 23 þús. kr. og verðlagsuppbót, og foreldri fær þá að auki 2–6 þús. kr. og verðlagsuppbót eða alls frá 5 þús. til 15 þús. kr. og verðlagsuppbót. Það má vafalaust deila um það, hvort rétt sé að greiða meira, en helmingi hærri slysabætur eða dánarbætur eftir lögskráða sjómenn, en annað fólk. En hvað sem því líður, þá blasir við hér sú staðreynd, að bótagreiðslur allar vegna slysa eru svo lágar, að óviðunandi er og jafnvel fullkomin vansæmd og sjálfsagt, að úr verði bætt, að svo miklu leyti sem unnt kann að reynast.

Hæstv. ríkisstj. hefur fyrir skemmstu lagt fram hér á Alþ. frv. til l. um breyt. á almannatryggingalögum, sem felur það í sér, að ýmsar bótafjárhæðir samkv. þeim I. skulu hækka um 91/2 %, þ. á m. slysabætur, þegar um er að ræða varanlega örorku eða dauða. Þetta er að sjálfsögðu góðra gjalda vert og ber að fagna því. En hvort tveggja er, að hér er ekki ráðgerð hækkun á öllum tegundum slysabóta, t.d. ekki á dagpeningagreiðslum slasaðra manna, og einnig hitt, að það er skoðun okkar, sem flytjum þáltill., að unnt sé að hækka slysabætur stórum meir, en í frv. er ráðgert og það án verulegs átaks.

Í þessu sambandi er ástæða til að hafa það í huga, að samkv. almennum reglum skaðabótaréttarins er ábyrgð atvinnurekanda mjög víðtæk, enda þótt þeir eigi ekki sök á slysi. Það er næsta algengt, að atvinnurekandi eða atvinnufyrirtæki verði að greiða stórfé, oft svo að skiptir hundruðum þús. kr., í bætur fyrir eitt slys umfram það, sem slysatryggingin greiðir. Þessi áhætta atvinnurekenda getur verið svo mikil og er oft svo mikil, að hún skiptir verulegu máli fyrir atvinnureksturinn. Ýmis atvinnufyrirtæki hafa því brugðið á það ráð að kaupa sér tryggingu fyrir þessari áhættu hjá vátryggingarfélögum. Slíkar tryggingar eru þó stórum dýrari hjá venjulegum vátryggingarfélögum, en verða mundi hjá Tryggingastofnun ríkisins, sökum þess að vátryggingarfélögin verða að taka allt að 20% af iðgjöldum til þess að standa straum af kostnaði við beinan rekstur félaganna. En þessi hundraðshluti er miklum mun lægri hjá Tryggingastofnun ríkisins. Fyrir þessa atvinnurekendur mundi það því beinlínis verða hagstætt, ef lögboðnar slysatryggingar yrðu hækkaðar sem mest.

Stjórnskipuð n. manna mun nú vinna að því um þessar mundir að gera till. um hækkun ellilauna og örorkubóta. Slík hækkun er að sjálfsögðu nauðsynleg, þótt fyrr hefði verið. En við flm. þessarar þáltill. teljum, að jafnnauðsynlegt sé, að slysa- og dánarbætur séu jafnframt hækkaðar, svo að um muni.

Það mun hafa tíðkazt, að málum snertandi Tryggingastofnun ríkisins eða almannatryggingar yfirleitt hafi verið vísað til fjvn. Hér er ekki um að ræða, að ríkissjóði verði lagðar á herðar fjárhagsbyrðar umfram það, sem greiða þarf í slysabætur fyrir atvinnurekstur, sem ríkissjóður hefur með höndum. Ég gæti því látið mér detta í hug, að vel gæti komið til greina að vísa málinu til allshn. eins og fjvn., en legg það á vald forseta að gera till. þar um.