07.01.1959
Sameinað þing: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (2103)

70. mál, akvegasamband við Vestfirði

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Eins og hv. fyrri flm. þessarar till. gat um, hefur það oft komið fyrir hér á Alþ., að samþykktar hafa verið till. um það að fela ríkisstj. að láta undirbúa vegagerðir, rannsaka vegastæði, og svo er að segja um fleiri framkvæmdir, sem samþykkt hefur verið að fela ríkisstj. að undirbúa. Þessar rannsóknir á þeim sviðum kosta yfirleitt ekki mikið fé, og það hefur ekki þótt athugavert við það að samþykkja þess konar tillögur.

En sú till., sem hér liggur fyrir, virðist vera töluvert nýstárleg. Hér er um það að ræða að ákveða með þáltill. ákveðnar framkvæmdir í vegagerðum og heimila fé úr ríkissjóði til þeirra framkvæmda og ábyrgðir ríkissjóðs fyrir lánum til þessara framkvæmda. Að sumu leyti er svo ákveðið í fyrsta tölulið till., að ákveðin framkvæmd í vegagerð skuli fara fram á næsta ári, eins og það er orðað, og mun vera átt við þetta ár, sem nú er byrjað, því að till. er flutt fyrir áramót. Og í 2. lið er aftur talað um framkvæmdir, sem eiga að gerast á þremur árum. En um hvorugt vita menn nú, hvað það muni kosta.

Sá háttur hefur verið hafður á, eins og allir hv. alþm. kannast við, að því er vegagerðir snertir og fjárveitingar til vega, að fjvn. hefur að mestu leyti ákveðið framlög til vegagerða hverju sinni, og þó að ýmsum þm. hafi oft og tíðum mislíkað hennar gerðir í þessu efni og fundizt jafnvel, að þeirra kjördæmi yrði út undan, og annað slíkt, þá hygg ég þó, að fyrir fjvn. hafi alltaf vakað að deila þessu fé, sem hægt er að verja til vegagerðar, sem sanngjarnast um landið og taka þar tillit til þarfa og allra ástæðna, sem fyrir hendi eru.

Ég held, að þetta sé góð regla, sem verið hefur, og það sé ekki til bóta að fara að ákveða fjárveitingar til einstakra vega með þál. á þingi, sem á að afgreiða fjárlög, og það áður en fjárlög eru afgreidd. Ég skal ekki á neinn hátt leggjast á móti því, að þessari till. verði vísað til hv. fjvn., og eins get ég vel skilið það, að Vestfirðingum liggi mjög á þessum vegum og sennilega fleiri vegum, og get mælt með því, að ríkið reyni að koma vegasambandi að Vestfjörðum og um Vestfirði svo fljótt sem kostur er á. En ég vona, að hv. fjvn., ef till. verður til hennar vísað, afgreiði þessa till. í nánu sambandi við fjárlögin, því að flest atriði till. eru raunverulega fjárlagaákvæði.

Hvað 2. lið till. snertir, að ákveða hér vissa framkvæmd á þremur árum og skuldbinda ríkið við það, þá er það að vísu ekki fjárlagaákvæði beinlínis. En réttara virtist nú, ef gengið er inn á þá braut, að þá yrði slíkt ákveðið með lögum. Eins er venja, þó að út af því hafi brugðið, að ákveða ríkisábyrgðir með lögum, að ríkisstj. er með lögum heimilað að taka ábyrgð á þessu og þessu. Það mun nokkrum sinnum hafa verið gert að veita ríkisábyrgð með þál., en það eru yfirleitt undantekningar. Heimildir til ríkisábyrgðar eru veittar með lögum og eiga að vera það.

Ég gat ekki látið hjá líða að hreyfa þessu og í þeim tilgangi að fara fram á það við hv. fjvn., eins og ég sagði áðan, að hún hafi mjög hliðsjón af fjárl. a.m.k., þegar hún afgreiðir þessa tillögu.