07.01.1959
Sameinað þing: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (2105)

70. mál, akvegasamband við Vestfirði

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur ummæli 1. þm. Eyf., sem gefa mér tilefni til að koma hér aftur.

Það er þá fyrst, að hann taldi þetta nýstárlegt, þessa till. okkar, og það má til sanns vegar færa. Það er nýstárlegt, eins og ég gat um í minni frumræðu, að því leyti, að við leggjum til, að farið sé inn á þá braut að leggja þjóðvegi í ákvæðisvinnu. Og ég leitaðist við að gera grein fyrir því, að ég héldi, að það gæti orðið til bóta, væri a.m.k. alveg sjálfsagt að gera tilraun með þetta, og færði nokkur rök að því, að það væri ástæða til að ætla, að tilraunin gæfist vel.

Þá taldi hann, að það væri einkennilegt af okkur eða óréttmætt að leggja til, að annarri þessari vegagerð yrði lokið í ár. Það er alveg rétt hjá honum, till. var samin fyrir áramót, og það, sem var talið á næsta ári, á við árið í ár, og við gerum ráð fyrir því, að þeirri vegagerð, sem gert er ráð fyrir þar, yrði lokið á næsta sumri eða fyrir næstu áramót. Sérstaklega fannst honum þetta fjarstætt vegna þess, að ekkert væri vitað um, hvað þetta mundi kosta. En ég get upplýst, að þetta er að verulegu leyti rangt hjá honum. Það liggur einmitt fyrir áætlun um það frá vegamálastjórninni, hvað þetta mundi kosta eða hvað þetta hefði kostað, ef það væri lagt t.d. í ár. Hitt er kannske rétt, að það er ekki hægt að segja, hvað það mundi kosta, ef það dregst í mörg ár að leggja það, því að við vitum um verðlagið hér á landi, að það hefur verið óstöðugt og ekki hægt að segja, hvað það muni kosta, ef það dregst. Hitt getum við aftur sagt með nokkurn veginn vissu eða a.m.k. þeir verkfræðingar, sem við þetta eru vanir að fást, hvað það muni kosta á hverjum tíma, og það liggja einmitt fyrir áætlanir um það, að með óbreyttu verðlagi eða því verðlagi, sem var á s.l. ári, ætti þessari vegagerð úr Arnarfirði um Dynjandaheiði að vera lokið á fjórum árum með þeim sömu framlögum á fjárlögum og af benzínfé og verið hafa á undanförnum árum, en það er vitanlega miðað við, að verðlag haldist óbreytt. Ef hins vegar væri farin þessi leið, sem ég lagði til og við leggjum til í okkar till. og ég skýrði nokkuð í minni frumræðu hér, þá er ég þess fullviss, að það væri hægt að fá þetta gert fyrir það fé, sem áætlun vegamálastjórnarinnar um þetta nefnir, og það er þess vegna óréttmætt hjá 1. þm. Eyf. að saka okkur um það, að við séum hér að fara fram á fjárframlög út í bláinn.

Það er rétt hjá honum, að venja er um þessar vegaframkvæmdir, að þær séu á fjárlögum, að það séu fjárlagaákvæði. En einmitt vegna þess, sem nýtt er í þessari till, okkar, varð ekki hjá því komizt, þar sem við vissum a.m.k. ekki þá og vitum ekki enn, hvenær fjárlög fyrir þetta ár verða endanlega samþykkt, ef eitthvað átti að verða af framkvæmdum nú næsta sumar, að hafa sérstakan hátt á hér og stuðla að því eða leitast a.m.k. við að stuðla að því, að vegamálastjórnin gæti hafizt handa nú þegar um nauðsynlegan undirbúning, til þess að hægt væri að bjóða verkið út og ljúka því í sumar, en það mun ekki af veita, að vegamálastjórnin fái sem fyrst um það að vita, ef þetta á að takast.

Ég vil því óska þess, eins og 2. flm. tók hér fram áðan, að þessi till. nái fram að ganga, og legg til, eins og mér hafði láðst við fyrri ræðu mína hér, að þessari till. verði visað til hv. fjvn. að lokinni þessari umr.