07.01.1959
Sameinað þing: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (2107)

70. mál, akvegasamband við Vestfirði

Eiríkur Þorsteinsson:

Ég lagði áherzlu á það í ræðu, sem ég flutti hér í tilefni af opnun vegalaga fyrst á þessu þingi, að Alþingi og fjvn. legði fram fé til þess vegar, sem er nr. 1 í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir til umræðu, á þessu ári, þannig að vegagerðinni gæti verið lokið á því ári, sem nú er að byrja. Þess vegna er þessi till. alveg beint framhald af þeirri ósk. Ég verð að láta ánægju mína í ljós yfir því, að hún er komin fram, því að ég tel, að hún stuðli að því sama og ég setti þá fram.

Mér er það hins vegar ljóst, að málið er fjárlagamál. Það er rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. gat um hér áðan, að málið er fjárlagamál, og það hlýtur þess vegna að verða á valdi fjvn. og Alþingis, hvort þessi vegagerð, sem er nr. 1 á till. og ég hef mestan áhuga fyrir, kemst algerlega í framkvæmd á þessu ári. Eftir því sem ég veit bezt, mun framkvæmdin kosta hátt í 3 millj, kr., og með því að láta allverulega fjárveitingu til vegarins og verulegt af benzínvegafé, sem hæstv. ríkisstj. ræður yfir, til vegarins nú, er vel hægt að ljúka þessu á árinu. Þá er einmitt það fengið, sem seinni liðurinn, annar liðurinn, felur í sér, að komið er á sambandi við allt vestanvert Djúp og Vestur-Ísafjarðarsýslu. Ég tel, að það sé ekki farið fram á neitt óhæfilegt, þó að þessar sýslur fengju vegasamband nú á þessu ári, þar sem það eru síðustu sýslur landsins, sem eiga eftir að fá vegasamband.

Ég ætla ekki að blanda mér inn í þær umræður, sem hér hafa farið fram. En ég vil aðeins geta þess, að ég þakka þessum flutningsmönnum fyrir það að vera nú komnir með þetta mál mitt hér, og ég þakka þeim fyrir stuðning við það. Og ég vænti þess, þar sem þeir eru áhrifamenn í hæstv. ríkisstj., sem ríkir á þessu augnabliki, að málinu sé vel borgið og við getum sameinazt um það í fjvn. Alþingis í vetur, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn, að veita nægilegt fé, svo að vegurinn komist fram. Þá er málinu borgið, og þá þarf ekki að ræða um það meir. Ég veit þess vegna, að því er borgið og það kemst fram á þessu ári. Þökk fyrir stuðninginn.