14.01.1959
Sameinað þing: 21. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (2110)

70. mál, akvegasamband við Vestfirði

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M., sem hér lauk máli sínu nú, lýsti því yfir, að flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir til umræðu, meintu ekkert með meginhluta till., 1. og 2. lið hennar. Ég álít að sjálfsögðu slíkan sleggjudóm ekki svara verðan, en álít, að þessi ummæli hv. þm. gefi ákaflega glögga, hugmynd um það, hvernig hann vinnur að málum. Hann flytur sem sagt mál til þess eins að sýnast. Þess vegna leggur hann öðrum þann tilgang í munn.

Það er gersamlega rakalaus fullyrðing hjá hv. 1. þm. N-M., að fé hafi ekki á undanförnum árum verið veitt til ýmiss konar framkvæmda með þáltill. Allir hv. þm. vita, að þetta hefur verið gert. Mér hefur ekki unnizt tóm til þess að athuga það, hvort þessi hv. þm. hefur ekki sjálfur tekið þátt í því, en þau 15 ár, sem ég hef átt sæti á Alþingi, hefur það komið fyrir mjög oft, að fjárveitingar hafa verið veittar til einstakra framkvæmda einmitt með þáltill. og það stórupphæðir. Einnig hér hefur þess vegna hv. 1. þm. N-M. farið með fleipur eitt.

Annars verð ég að segja það, að það er undarlegt, að alltaf þegar vegamál Vestfjarða ber á góma, þá standa hér upp a.m.k. tveir hv. þm. Framsfl. og hafa allt á hornum sér. Þetta gerðist á s.l. ári, og þetta gerist nú. Hv. 1. þm. Eyf. og hv. 1. þm. N-M, hafa bókstaflega allt á hornum sér, þegar um það er rætt, að veglausasti hluti landsins, fái nokkra réttingu sinna mála. Gefur þetta einnig góða vísbendingu um það, hversu einlæg ást þessara hv. þm. sé til hins svokallaða strjálbýlis, sem þeir sífellt þykjast vera hinir kjörnu fulltrúar fyrir. Ég þakka hv. þm. V-Ísf. hins vegar fyrir þann stuðning, sem kom fram í yfirlýsingu hans um það, að þetta væri raunverulega sín till. sem hann hefði flutt hér, fyrr á þessu þingi. Ég get nú ekki stillt mig um það, þó að ég fagni þessari yfirlýsingu og stuðningi hv. þm. við till. nú, að lýsa því yfir, að þessi sami hv. þm., er nú kallar þetta sína till., neitaði að vera meðflm. að tillögunni, hann neitaði að vera meðflm. að því, að reynt væri að vinna að því að skapa vegasamband við Vestur-Ísafjarðarsýslu og aðra veglausa hluta Vestfjarða þegar á næsta ári, að ég tala nú ekki um þá dirfsku, sem kemur fram í 2. lið till., að orða það, að hugsanlegt sé, að á næstu þremur árum mætti skapa akvegasamband meðfram sunnanverðu Ísafjarðardjúpi við Ísafjarðarkaupstað, einnig þá leið. Ég fagna því, að hv. þm. V-Ísf. lýsti því yfir, að hann væri með þessari till. nú, eiginlega væri þetta sín till. En staðreyndin er bara þessi, að hann neitaði að vera meðflm. að henni. Ég álít, að þetta gefi nokkra vísbendingu um það, hversu einlæg strjálbýlisástin er hjá þessum hv. þm., ekki sízt hv. 1. þm. N-M. og hv. 1. þm. Eyf., sem ráðleggur þing eftir þing einstökum landshlutum, að þeim henti betur samgöngur á sjó, heldur en á landi.

Það er þýðingarlítið fyrir hv. 1. þm. Eyf. að koma nú og benda á það, að t.d. eyjum henti allvel samgöngur á sjó. Það er nú engin smáræðisspeki, sem kemur fram hjá þessum reynda þingmanni í þessu, að ætla að telja hv. þingmönnum trú um, að hann hafi átt við það, þegar hann talaði um, að sumum héruðum hentuðu betur samgöngur á sjó, að eyjum hentuðu betur samgöngur á sjó, en vegir. Mér þykir það mjög leitt, að það skuli yfirleitt vera til, ekki sízt meðal þeirra manna, sem hafa talið sig einkavini strjálbýlisins, slíkur fjandskapur við sanngirnismál þessa landshluta, sem orðið hefur út undan í vegagerð á landi, að mjög verulegu leyti. En ég kemst ekki fram hjá að veita því athygli, og hv. þingheimur mun einnig sjá það, að ræður hv. 1. þm. N-M. og 1. þm. Eyf. mótast af einskærri þröngsýni, afturhaldi og litlum góðvilja í garð þessa veglausa landshluta, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni.

Svo stendur hv. 1. þm. Eyf. hér upp og segir, að ég hafi ekki talað efnislega um þetta mál. Ég veit ekki betur, en ég hafi einmitt rætt málið efnislega. Þegar hv. þm. sér það, að hann er orðinn uppvís að afturhaldi og illvilja gagnvart landshluta, sem ekkert hefur til saka unnið, þá flýr hann á náð þeirra fullyrðinga, að ég hafi ekki talað efnislega um málið.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að það væri yfirleitt ekki tíðkanlegt að flytja útgjaldatill. öðruvísi, en í sambandi við fjárlög, og fráleitt væri það í sambandi við vegamál að flytja till. um framlög til einstakra vega og framkvæmda öðruvísi, en í sambandi við fjárlög. Ég vil nú benda hv. þm. á það, að fyrir nokkrum árum voru samþykkt hér lög um einn veg í nágrenni Reykjavíkur, svokallaðan Austurveg. Í þessum lögum er í 6. gr. m.a. komizt að orði á þessa leið: „Til framkvæmda samkvæmt lögum þessum heimilast ríkisstj. að taka lán allt að 20 millj. kr.“ Ég man ekki eftir því, að hv. 1. þm. Eyf. snerist hart gegn þessari lagagrein eða þessari heimild til ríkisstj. til þess að verja stórfé til einstakrar vegagerðar, þó að það væri ekki í sambandi við fjárlög, og ég álít, að það sé ekki svo ýkja mikill munur á því, hvort heimilað er að verja stórfé úr ríkissjóði eða ríkissjóði heimilað að taka stórlán til vegagerðar með lögum eða með einfaldri þáltill. Það er ekki svo ýkjamikill munur á því. Hvort tveggja er utan fjárlaga. Nei, en það, að hv. þm. hefur allt á hornum sér, þegar nefnt er, að varið sé fé úr ríkissjóði öðruvísi, en í sambandi við fjárlagaafgreiðslu til Vestfjarðavega, sýnir greinilega, af hversu lítilli góðvild og lítilli þekkingu og skilningi á aðstöðu þess fólks, sem þann landshluta byggir, hann talar. Ég vil einnig benda á það, að fyrr á þessu þingi hefur verið flutt þáltill. um vegagerð, stórfellda vegagerð, sem kostar geysimikið fé. Það hefur verið flutt þáltill. hér á þessu þingi um steinsteyptan veg frá Hafnarfirði til Sandgerðis, yfir Keflavík og Garð, og í niðurlagi þeirrar till. er komizt að orði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði eigi talið fært að veita í fjárlögum nægilega háa fjárveitingu til þess, að verkinu geti orðið lokið á fáum árum, skal ríkisstj. afla sér heimildar til lántöku í því skyni.“

Skyldu hv. þm., 1. þm. N-M. og hv. 1. þm. Eyf., ekki hafa staðið upp til að verja rétt fjárveitingavaldsins og fjárlagalöggjafans, þegar þessi till. var flutt hér á þingi eða mælt fyrir henni? Ég varð ekki var við það a.m.k. Ég heyrði ekki hv. 1. þm. Eyf. standa upp til þess að verja rétt fjvn. og fjárlagalöggjafans eins til þess að veita fé til vegaframkvæmda, þegar þessi till. var flutt, en hann setti upp landsföðursvip, um leið og nefnt var, að vegagerð á Vestfjörðum yrði lokið með stórum átökum og myndarlegri en gert hefur verið undanfarið.

Ég skal nú ekki hafa miklu fleiri orð um þessa till. Ég endurtek það, sem ég sagði og við flm. þessarar till. báðir, — við hv. þm. Ísaf. lögðum áherzlu á, þegar málið var rætt hér fyrir viku síðan, að hér er um sanngirnismál að ræða, og þó að einstökum þm. virðist, að hér sé nýstárleg leið til þess að hraða vegaframkvæmdum fyrir veglausan landshluta, þá vil ég aðeins benda á það, að Vestfirðingar búa við algera sérstöðu í þessum efnum. Það er ekki til lengdar hægt að halda því fram hér á hæstv. Alþingi, að nokkur sanngirni og réttlæti mæli með því, að einn landshluti skuli vera hafður út undan í þessum efnum, landshluti, sem þó er mjög mikil og þróttmikil framleiðsla í, og landshluti, sem vissulega leggur fram sinn stóra skerf til þjóðarbúsins.

Ég verð að lokum að harma það, að tveir af forvígismönnum Framsfl. hér á Alþingi skuli hafa sýnt það skilningsleysi og illvilja á hagsmunum strjálbýlisins, að þeir skuli hafa snúizt gegn þessu máli. En ég fullvissa þá um það, að fólk vestur á Vestfjörðum greinist ekki í flokka um það, hvernig leysa eigi þessi mál, og að ég er alveg fullviss um það, að á bak við þessa till. standa ekki aðeins flokksmenn okkar hv. þm. Ísaf. á Vestfjörðum, heldur fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Og það mun áreiðanlega verða tekið eftir því, að hv. framsóknarmenn hafa sýnt þessu máli þann fjandskap sem raun ber vitni um, hér á Alþingi.