14.01.1959
Sameinað þing: 21. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (2113)

70. mál, akvegasamband við Vestfirði

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Það hafa nú orðið allverulegar umræður um þetta mál, og ég skal ekki tefja með langri ræðu, en ætla aðeins að taka saman dálítið það, sem mér virðist aðalatriðin af því, sem fram hefur komið.

Þó vil ég aðeins taka eitt atriði, sem hv. 1. þm. Eyf. nefndi nú. Hann var hræddur um, að ef allir þm. tækju nú upp á að flytja slíkar till. sem þessa hér, þá færi í óefni. Í minni fyrstu ræðu um þetta mál lýsti ég því, hvernig ástatt er um vegagerð hér á landi nú. Það er ekki meira eftir ógert af þjóðvegum, sem komnir eru á vegalög, en svo, að jafnvel þó að svipuð heimild væri veitt alls staðar eins og hér er farið fram á, þá væri enginn voði skeður, annar en sá, að vegagerð, sem ætlað er að ljúka á þremur árum eða fjórum, yrði lokið fyrr. En ef svipað væri lagt af vegum árlega og gert hefur verið undanfarið, þá yrði lokið að leggja alla þessa vegi á næstu 4 árum, og það, sem skeði, væri því ekki annað, en það, að þeir, sem heima í héraðinu búa, fengju leyfi til að láta vinna þessi verk í ákvæðisvinnu og þá væntanlega fé til þess á fjárlögum eða fá a.m.k. loforð um það að fá til þeirra á fjárlögum svipaða upphæð og veitt hefur verið á fjárlögum undanfarið. Það væri því enginn skaði skeður. Það hættulegasta, sem gerðist, væri það, að í staðinn fyrir að leggja í þremur áföngum þrjá spotta, þá yrði verkinu væntanlega lokið í einum áfanga, þó vafalaust ekki allt á næsta ári, því að það væri ekki hægt að fá fólk til þess, heldur mundi það verða lagt á kannske næstu 3 árum, en hver vegur, hvert verk verða tekið út af fyrir sig og klárað. Ég held satt að segja, að þetta væru mjög heppileg vinnubrögð og yrðu til þess að gefa fyrirmynd um aðferð, sem notuð yrði framvegis.

Annars þykir mér vænt um það, að allir þeir hv. þm., sem til máls hafa tekið, hafa verið sammála um atriði, sem vissulega er mikilsvert, en það er einmitt það atriði, sem kemur í 3. lið till. um ákvæðisvinnuna og ég tel vera mjög mikilsvert. Væntanlega stendur því ekki á því, að það atriði fáist samþykkt.

Hv. 1. þm. N-M. talaði um, að það vantaði þarna verulega i, því að það vantaði ákvæði um brúargerð á þessum vegi og að heimila að gera það í ákvæðisvinnu líka. Í rauninni er það innifalið að nokkru, en hins vegar stendur svo á þarna, að eina brúin, sem brú getur kallazt í rauninni, er 6 m löng brú, sem er syðst á þessum vegarkafla, sem ólagður er. Hún á að byggjast á næsta sumri og verður það væntanlega að öllu forfallalausu. Hitt eru aðeins smábrýr, sem að vísu kann að verða erfitt að fá fé til á næsta sumri af smábrúafé, a.m.k. fyrir þeim öllum. En það er þó bót í máli, að sumt af þeim vatnsföllum, sem þær eiga að vera yfir, er ekki stærra en það, að þess má vænta, að hægt verði að nota veginn, þó að það dragist í eitt eða tvö ár að fullgera hann að því leyti að ljúka öllum brúnum. Ég tek alveg undir það með honum og er honum alveg sammála um það, að við ættum að fara þessa sömu leið með brúargerðirnar, að láta þær í ákvæðisvinnu, enda held ég, að það hafi verið gert nokkuð að því hjá vegagerðinni, einhver tilraun verið gerð í þá átt a.m.k., ef ég man rétt.

Hitt, 1. og 2. lið till. okkar, að við meinum ekkert með þeim, er náttúrlega fjarstætt. Ég lýsti því hér áður, að m.a. er tilgangurinn með þeim að fá í tæka tíð viljayfirlýsingu þingsins um, að þetta megi vinna svona, til þess að vegamálastjóri geti hafizt handa um að útbúa verklýsingar og annað, sem nauðsynlegt er, til þess að hægt sé að bjóða þetta út og vinna það á næsta sumri. En til þess að fá slíka viljayfirlýsingu gefst ekki tóm með öðru móti, en þessu. Ef bíða ætti eftir fjárlagaafgreiðslu, þá yrði það of seint, til þess að hægt væri að fá þetta verk unnið í sumar.

Um hitt, sem nokkuð hefur verið karpað hér um, hvort rétt sé að veita ríkisstj. heimild til þess að láta framkvæma verk, sem kostar fjármuni, með þáltill. eða ábyrgjast lán, sem tekið kynni að vera til að framkvæma verkið, vil ég aðeins segja það, að ríkisstj. mun jafnan hafa talið sér heimilt að ábyrgjast lán samkv. þáltill., sem samþykktar hafa verið, og gert það.

Annars verður þetta væntanlega ekki mikið vandamál, því að með svo öflugum stuðningi sem við virðumst eiga við þetta mál hér, þá verða sjálfsagt ekki vandræði að fá þetta samþykkt eða teknar upp fjárveitingar til þess á fjárlögum.