14.01.1959
Sameinað þing: 21. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (2114)

70. mál, akvegasamband við Vestfirði

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég get lýst því hiklaust yfir, að ég hef aldrei ofmetið lögspeki hv. 1. þm. N-M, og hef heldur aldrei haft ástæðu til þess, hvorki meta hana né ofmeta, og mun áreiðanlega enn þá síður í framtíðinni hafa ástæðu til þess. Ég vil bara benda honum á, að það má vel vera, að það hafi komið fyrir, að ríkisstj, hafi tregðazt við eða jafnvel neitað að nota heimild, sem henni hefur verið veitt til útgjalda í þáltill., en það raskar ekki þeirri staðreynd, að ég hygg flestar ríkisstjórnir síðari ára hafa notað útgjaldaheimildir, sem þeim eru veittar í fjárlögum, og þá ekki síður heimildir til þess að taka lán og ábyrgjast lán. Þetta eru nú staðreyndirnar í málinu, sem hv. 1. þm. N-M. getur ekki gengið á snið við, ef hann les þingtíðindin.

Hv. 1. þm. Eyf. varð undrandi á ræðu minni, sagði hann. Hann var undrandi yfir því, að ég skyldi átelja þá þröngsýni, sem komið hefur fram hjá honum gagnvart þörf Vestfirðinga í vegamálum, bæði á síðasta þingi og nú. Ég mundi mega beina þeirri fsp. til hv. 1. þm. Eyf., hvað hann mundi hafa sagt, ef ég hefði komið með þá aths. í sambandi við tilraunir þm. Eyf. til þess að fá aðra landleið úr Ólafsfirði, að þetta væri mesta fásinna, Ólafsfirðingum hentaði betur að fara sjóleiðina inn í Eyjafjörð. Þetta væri alger óþarfi fyrir þá. Þeir hefðu veg yfir Lágheiði yfir í Skagafjörð, sem að vísu væri á kafi í snjó allan veturinn, og svo gætu þeir bara farið sjóleiðina til Eyjafjarðar. Þetta væri hreinn óþarfi, þegar á að fara að berjast fyrir nýjum vegi fyrir Ólafsfjarðarmúla. Ég veit ekki, hvort hv. 1. þm. Eyf. hefði talið það nokkurt undrunarefni, þó að hann hefði staðið upp og mótmælt slíkum ásetningi og ekki talið hann byggjast a.m.k. á góðvilja eða skilningi í garð þess fólks, sem býr í Ólafsfirði. Svo stendur þessi æruverðugi þm. upp og lætur eins og hann hafi orðið fyrir einhverri ómaklegri árás af minni hálfu. Ég held, að það sé enginn maður hér á hæstv. þingi, sem mig langar minna til að gera árás á, og langar raunar ekki til þess að gera árás á einn einasta mann, heldur ekki hv. 1. þm. Eyf.

En hann verður bara að gera sér ljóst, þó að hann sé æruverðugur og góður og gegn maður, að þá getur hann ekki staðið upp og sagt hvaða vitleysu sem er, án þess að því sé mótmælt af því fólki, sem verður fyrir barðinu á hans þröngsýni. Ég verð bara að láta hv. þm. vita þetta, vegna þess að hann þarf ekki að halda það, að hann geti skákað í sínu forsetadæmi eða virðuleik eða jafnvel okkar gömlu og góðu samskiptum. Það er ekki á mig, sem hann er að ráðast, og það er ekki ég sjálfur, sem ég er að verja. Ég er að verja það fólk, sem hefur orðið fyrir barði mikillar ósanngirni af hálfu fjárveitingavaldsins. Og ég er ekki að deila á persónuna Bernharð Stefánsson, heldur á þann þingmann, sem stendur upp og heldur fram þeim fjarstæðum, sem hann hefur haldið hér fram.

Hv. þm. taldi, að allt öðruvísi hefði staðið á með ýmsar útgjaldatill., sem ræddar hefðu verið hér í þingsályktunarformi og afgreiddar í þingsályktunarformi á undanförnum árum. Þar hefði verið einungis um heimild að ræða til ríkisstj. Ég gruna nú hv. 1. þm. Eyf. um að hafa ekki einu sinni lesið okkar till. Ég vil benda hv. þm. á það, hvernig niðurlag hennar er. Það er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. skal heimilt að verja fé úr ríkissjóði til fyrrgreindra framkvæmda eða veita ábyrgð fyrir lánum, sem kunna að verða tekin til þeirra.“

Er það ekki einmitt þetta algenga form, sem notað er að þessari þáltill.? Þessu virðist hv. 1. þm. Eyf. alls ekki hafa tekið eftir. Hv. framsóknarmenn þurfa ekkert að vera að halda neina kennslustund yfir mér í því, hver sé munur á lögum og þingsályktun.

Hv. þm. Ísaf. hefur nokkuð rætt til viðbótar því, sem ég hef áður sagt um fyrri hluta till., og skal ég því ekki fjölyrða um það. Það gerist á hverju einasta þingi, að Alþ. lætur í ljós viljayfirlýsingar mjög svipaðar þeirri, sem hér um ræðir í þessari þáltill., að þetta og hitt skuli gert, þessi og hin framkvæmdin unnin eða undirbúin.

Því miður held ég þess vegna, að afstaða hv. framsóknarmanna, sem hér hafa talað í þessu máli, utan þm. V-Ísf., einkennist a.m.k. ekki af góðvilja. Ég vona þrátt fyrir þessa andstöðu, sem fram hefur komið gegn þessu sanngirnismáli, að þá muni vegamálum Vestfjarða þoka áfram á næstunni í einu eða öðru formi og Alþ. sýni sinn skilning á því þrátt fyrir allt, að í þessari till. felst réttlætismál.