04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í D-deild Alþingistíðinda. (2126)

79. mál, lán til byggingarsjós af greiðsluafgangi ríkissjóðs

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, að ekki hefði verið aflað nógra upplýsinga um, hvað tekjuafgangur s.l. árs væri mikill, þá vil ég segja það, að hér á hæstv. Alþ, hefur verið deilt hart á hæstv. fyrrv. fjmrh. fyrir að hafa þennan greiðsluafgang, svo að það er þó nokkuð svipað að farið hjá þeim eins og okkur, að á skortir um upplýsingar. Ég vil líka nefna það máli mínu til stuðnings, að hæstv. forsrh. gat þess, að einn liður í fjárhagsáætlun núv. hæstv. ríkisstj. væri þessi greiðsluafgangur. Og eftir því sem við flm. bezt vitum, þó að ég hins vegar viti, að þetta mál er ekki uppgert, þá mun tekjuafgangurinn nema sem svarar hallanum frá fyrra ári og vel þessu til viðbótar. Þess vegna held ég, að það sé ekki frekar við okkur að sakast en aðra, ef menn hafa ekki fengið nógar upplýsingar um þetta, því að svo hefur þetta mál verið rætt hér á hv. Alþ. sem upplýst væri.

Hæstv. ráðh. gat um það, að full þörf væri fyrir þessa sjóði að fá það fjármagn, sem hér um ræðir. Ég spurðist fyrir um það áðan, hvað hæstv. ríkisstj. hefði gert í því að útvega þessum sjóðum fjármagn, og bíð eftir svari með það, því að ég geri fastlega ráð fyrir því, ef hún hugsar sér ekki þessa leið, að þá hljóti hún að hugsa sér aðra leið, því að hún getur ekki hugsað sér, að sú leið verði farin, að þeir, sem hafa staðið í þessum framkvæmdum á síðustu árum, verði að missa af þeim og þær lendi í braski og þeir að missa bæði af fjármagni sínu og vinnu þeirri, sem þeir hafa lagt í þetta. Ég held, að sú stefna mundi hvorki reynast hæstv. ríkisstj. né þjóðfélaginu í heild happadrjúg.

Þá talaði hæstv. ráðh. um það, að þeir, sem vildu ráðstafa þessu á þennan veg, hlytu að sjá fyrir því, hvernig ætti þá að mæta þeim tekjuauka, sem yrði að vera, vegna þess að þetta væri í burtu tekið. Ég gat um það hér áðan, að þessar 25 millj. kr. munu ekki koma til með að nægja í niðurgreiðslur nema í 3–4 mánuði, 4 mánuði, ef miðað er við kringum 6 millj. kr. á mánuði. Er þá svo mikill munur á því að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að þurfa að afla þessara tekna núna eða nokkrum mánuðum seinna? Hefur það úrslitaáhrif fyrir afkomu atvinnulífsins í landinu, hvor leiðin er farin? Ég hef ekki trú á því, að það hafi nein úrslitaáhrif fyrir atvinnulífið í landinu. Það getur hins vegar haft nokkur áhrif fyrir ríkisstj., sem ætlar sér að sitja í nokkra mánuði. En ég gat um það líka, að það hefur áhrif fyrir fólkið, sem stendur í þessum framkvæmdum, hvort úr þessu verður bætt eða ekki. Og það er líka mál, sem þjóðfélagið þarf að sinna engu að síður, en skjóta því á frest í nokkra mánuði að afla tekna til atvinnulífsins í landinu, eins og hér yrði þá gert.