04.02.1959
Sameinað þing: 24. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (2127)

79. mál, lán til byggingarsjós af greiðsluafgangi ríkissjóðs

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það er alveg ástæðulaust og óþarfi fyrir okkur hv. 1. flm. þessarar till. að vera nokkuð um það að deila hér, hversu mikill greiðsluafgangurinn árið 1958 muni vera. Það er staðreynd, sem ekki verður haggað, að sú upphæð er ekki þekkt á þessari stundu. Hún getur orðið, meira en 25 millj. kr., hún getur orðið minna. Niðurstaðan er því óhjákvæmilega sú, að við vitum ekki á þessari stundu, hverju við erum að ráðstafa, þegar við erum að tala um að ráðstafa greiðsluafgangi s.l. árs. Þetta er heila málið í sambandi við þennan hluta till.

Þá spurðist hv. flm. fyrir um það, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hefði gert til að afla fjár til þeirra sjóða, sem hér er ætlað að fá þessar 25 millj. kr. að láni. Um þetta vil ég aðeins segja það, að ríkisstj. hefur aðeins haft mjög litinn og nauman tíma til umráða og á þeim tíma, sem hún hefur verið, hefur hún haft mjög erfið og aðkallandi vandamál að leysa. Henni hefur því ekki unnizt tími til þess að snúast í þessum málum sem skyldi. Þó hefur ríkisstj. þegar gert tilraunir til þess að afla lánsfjár til a. m. k, sumra af þessum sjóðum, þó að það mál sé ekki leyst enn þá. Það er þegar byrjað á þessu, og verður haldið áfram að vinna að því, svo sem frekast eru tök á. Um árangur vil ég ekkert segja á þessari stundu.

Þá minntist flm. á það, að heldur lítið munaði um þessar 25 millj., að því er varðaði þá fjárhæð, sem afla þarf ríkissjóði til þess að standa undir þeim ráðstöfunum, sem nýlega hafa verið gerðar í sambandi við efnahagsmálin. Ég skal játa, að þetta er ekki nema hluti af þeirri fjárhæð, sem afla þarf. En ef þessar 25 millj, kr. eru teknar í eitthvað annað, en að láta þær standa undir útgjöldunum 1959, þá þarf að finna einhverja leið til þess að afla þessara 25 millj. kr. með öðrum hætti. Og ég spurði 1. flm, að því, hvaða leiðir hann vildi þá fara í þeim efnum, og ég vildi mega vænta þess, að þeir, sem beita sér fyrir því að ráðstafa greiðsluafganginum frá 1958 í svona sérstaka sjóði, segi okkur þá um leið, hvaða leiðir þeir vilja fara til þess að afla ríkissjóði hliðstæðra fjárhæða út af þeim útgjöldum, sem óhjákvæmileg eru á næsta ári.