08.04.1959
Sameinað þing: 36. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (2174)

108. mál, sögustaðir

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. ferðamönnum. Á það má benda, að Alþingi feli ríkisstj. að undirbúa fyrir næsta reglulegt þing frv. til laga um eftirlit með sögustöðum og öðrum þeim stöðum á landinu, sem sérstaklega eru sóttir af erlendum og innlendum ferðamönnum. Á það má benda, að Alþingi hefur með sérstakri löggjöf sett reglur um friðhelgi og eftirlit með umgengni á helgasta sögustað þjóðarinnar, Þingvöllum. Enn fremur eru í lögum, reglur um náttúruvernd og eftirlit með opinberum veitingastöðum í landinu. Þrátt fyrir þessa löggjöf brestur mikið á það, að umgengni á ýmsum fjölsóttum sögustöðum sé eins góð og vera bæri, og það hefur hent allt of oft, að landinu hefur orðið vansæmd að umgengni á þessum stöðum, bæði í augum erlendra og innlendra ferðamanna.

Þess er skemmst að minnast, að á s.l. sumri heimsótti stór hópur erlendra blaðamanna einn frægasta sögustað þjóðarinnar, þar sem einn ágætasti sonur þessarar þjóðar bjó, og gaf þá þar að líta slíka umgengni, að hinn mesti vansi var að, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni. Ég hygg, að hvorki hv. þm. né Íslendinga almennt geti greint á um það, að á ágætustu og frægustu sögustöðum þjóðarinnar beri umgengni að vera háttað þannig, að þangað sé hægt að koma hvenær sem er, bæði Íslendingar sjálfir og þeirra erlendu gestir. Það er augljóst, að á því fólki, sem byggir slíka staði, hvílir töluvert mikil ábyrgð. Það verður sjálft að finna til þessarar ábyrgðar, og það má segja, að erfitt sé að tryggja með löggjöf og reglum fulla smekkvísi eða háttvísi í þessum efnum. Þó hygg ég, að það sé ekki óeðlilegt, að það opinbera leggi það ómak á sig að fylgjast nokkuð með umgengni á þessum stöðum, eins og líka er viðurkennt með löggjöf um þá staði, sem helgastir eru í hugum þjóðarinnar.

Þess vegna er það, að ég hef leyft mér að flytja þessa till., þar sem lagt er til, að undirbúið verði fyrir næsta reglulegt þing frv. til laga um eftirlit með sögustöðum og öðrum þeim stöðum á landinu, sem sérstaklega eru sóttir af erlendum og innlendum ferðamönnum. Það er mín skoðun, að af þessu þyrfti ekki að leiða mikinn og tilfinnanlega aukinn kostnað. Það má á það benda, að hugsanlegt væri, að sýslumenn og bæjarfógetar önnuðust þetta eftirlit með sögustöðum, hver í sínu umdæmi. Einnig mætti hugsa sér, að sérstök yfirstjórn þessara mála væri í höndum tiltekinna embættismanna í höfuðstaðnum. Ég hef brotið upp á því í grg. till., að það væri í höndum t.d. húsameistara ríkisins, þjóðminjavarðar og vegamálastjóra.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál. En ég teldi rétt, að sú hv. n., sem fengi þetta mál til meðferðar, leitaði um það álits, t.d. þeirra embættismanna, sem ég nú nefndi, þ.e.a.s. húsameistara ríkisins, vegamálastjóra og þjóðminjavarðar. Enn fremur mætti hugsa sér, að hún yrði send til álita ferðaskrifstofu ríkisins, sem fylgist mjög með ferðalögum útlendinga um landið og veit, hverjir þeir staðir eru, sem mest ös er um, ef svo mætti að orði komast.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að till. verði vísað til hv. allshn.