15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (2184)

119. mál, útvegun lánsfjár

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Mér er nú kunnugt um, að það er mjög liðið á fundartímann í dag, en á hinn bóginn er mér áhugamál, að þessi till. komist til n. til skoðunar, og mun ég því stytta mjög mál mitt um till. fyrir hönd okkar flm.

Till. fjallar um að skora á ríkisstj. að útvega 150 millj. kr. lán, er notað verði til ræktunarsjóðs, fiskveiðasjóðs, raforkusjóðs og í hafnarframkvæmdir.

Þannig er málum háttað, að undanfarið hefur ræktunarsjóður lánað mikið fé út á byggingar, útihúsabyggingar bænda og ræktun. Hann hefur nokkra fasta tekjustofna, ef svo mætti segja. Þannig fær hann árlega frá Framkvæmdabankanum talsvert mikið af lánsfé. En þær föstu tekjur, ef þannig mætti taka til orða, sem sjóðurinn hefur, hrökkva þó skammt til þess að verða við eftirspurn eftir þessum lánum, eins og hún hefur verið undanfarið og gera má ráð fyrir að hún verði framvegis. Þess vegna hefur orðið á hverju ári að útvega verulegt fé til viðbótar í sjóðinn, til þess að lánveitingar ekki strönduðu. Hefur þetta ýmist verið gert með því, að ríkið hefur lagt fram fé, ef ríkissjóður hefur verið aflögufær, eða þá að útvegað hefur verið lánsfé sérstaklega, hafi ríkissjóður ekki haft fé aflögu.

Nú er ekki hægt að sjá fyrir nokkra möguleika á því, að ríkissjóður hafi fé aflögu, öðru nær, — og þess vegna stingum við upp á, að lánsfé verði útvegað til ræktunarsjóðs á þessu ári, eins og greinir í ályktuninni.

Um fiskveiðasjóð má svipað segja og ræktunarsjóð. Hann hefur nokkra fasta tekjuliði, en þeir hrökkva ekki heldur nándar nærri til þess að verða við lánum út á endurnýjun véla í fiskibátunum og til þess að lána út á nýja fiskibáta til endurnýjunar bátaflotanum, hvað þá heldur til aukningar skipastólnum. En vitaskuld verður á hverju ári ekki aðeins að endurnýja bátaflotann, heldur einnig að auka hann sífellt, eins og raunar hefur orðið á síðustu árum. Því er augljóst, að ef ekki á að verða stöðvun á lánveitingum í fiskveiðasjóði, þarf að útvega þeirri stofnun líka á þessu ári allmikið fjármagn, og stingum við upp á, að honum sé útvegað jafnmikið viðbótarfé og ræktunarsjóði, 30 millj. kr.

Undanfarið hefur verið varið stórfé til raforkuframkvæmda. Þannig var á síðasta ári varið rúmum 100 millj. kr. í þessu skyni og árið áður stórfé. Ef halda á áfram með tíu ára áætlunina með eðlilegum hraða, þá þyrfti, að því er mér skilst, að verja á þessu ári, ef sæmilega væri, um 80 millj. kr. eða svo til nýrra raforkuframkvæmda. Á fjárlögum er gert ráð fyrir rúmlega 25 millj. kr. framlagi til raforkumálanna úr ríkissjóði. Sjá því allir, að það hrekkur skammt til þess að halda uppi framkvæmdum í sambandi við rafvæðingu dreifbýlisins, ef fylgja á þeirri áætlun, sem gerð hefur verið af raforkumálastjórninni. Það er augljóst, að þótt það fé yrði lagt fram, sem ráðgert er á fjárlögum, mundi það hrökkva skammt til þess að halda uppi eðlilegum hraða á rafvæðingunni.

Við stingum upp á því, að í þessu skyni verði aflað 30 millj. kr. lánsfjár, og er þá miðað við, að sú fjárveiting, sem er á fjárlögum, verði að sjálfsögðu ekki skert frá því, sem er gert ráð fyrir í fjárlagafrv., og mætti þá e.t.v. gera ráð fyrir því, að með öðru fé, sem hægt væri að útvega í innlendum bönkum, gætu orðið talsvert miklar framkvæmdir í raforkumálum á þessu ári, máske langt til, að hægt væri að fylgja þeirri áætlun, sem raforkumálastjórnin hefur gert. En þó mundi það sennilega ekki verða hægt alveg, þótt óskert væri haft féð á fjárl. og 30 millj. kr. aflað í raforkusjóð af erlendu lánsfé. Hér kemur einnig til greina, að það er verulegur og vaxandi rekstrarhalli á rafmagnsveitum ríkisins, og ég man ekki betur, en rekstrarhallinn sé áætlaður á þessu ári allt að 15 millj. kr. Og ef engar ráðstafanir er hægt að gera til þess að minnka þann rekstrarhalla, þá mun hann éta upp bróðurpartinn af þeirri fjárveitingu, sem gert er ráð fyrir núna á fjárlögunum, þessum 25 millj. kr. Þá minnka framkvæmdamöguleikarnir að sama skapi, ef þannig fer. Það er því alveg augljóst, að ef nokkur von á að verða um nokkrar verulegar framkvæmdir í raforkumálum, mun sízt af því veita, að útvegaðar verði þessar 30 millj. kr. að láni erlendis, sem hér er stungið upp á, í þessari þáltill.

Loks vil ég minna á hafnargerðirnar, sem er stórfellt mál, sem undanfarið hefur verið oft minnzt á hér á hæstv. Alþingi. Nokkuð hefur verið unnið að hafnargerðum víðs vegar og má segja talsvert. En mörg stór verkefni eru í takinu í hafnarmálunum, og þau eru þannig vaxin, að það miðar ákaflega lítið í þeim verkum með því að notfæra sér aðeins það fé, sem hægt er að fá á fjárlögum og svo með lántökum innanlands. Menn hafa haft áhuga fyrir því á undanförnum missirum, að það væri fengið útlent fé í hafnargerðirnar, og stafar það blátt áfram af því, hversu margt annað hefur verið í takinu undanfarið. Auk þess sem aflað hefur verið fjár í ræktunarsjóð, fiskveiðasjóð og raforkusjóð erlendis frá, þá hefur verið aflað fjár til áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju og Sogsvirkjunar, svo að nokkur mjög stór dæmi séu nefnd. Af þessum ástæðum hafa hafnargerðirnar ekki komizt að undanfarið, í sambandi við erlendu lántökurnar. En þar sem búið er nú að sjá fyrir þeim erlendu lánum, sem mögulegt er að fá til Sogsvirkjunarinnar, og búið að sjá alveg fyrir fjárþörf sementsverksmiðjunnar, þá sýnist tími kominn til þess, að hafnargerðirnar komi verulega með í sambandi við næstu erlendu lántökur, og stingum við upp á því, að í þessar framkvæmdir séu ætlaðar 60 millj. kr.

Við höfum sett það ákvæði í þáltill., að það verði síðan ákveðið í samráði við Alþingi, hvernig lánsfénu til hafnargerða verði varið. Þar er vitaskuld um stórmál að ræða, hvernig skipta skuli niður því aukalánsfé, ef svo mætti kalla þetta fjármagn, sem útvegað yrði í þessu sambandi, og fer ég ekki út í það núna við þessa framsögu, en vísa til þessa ákvæðis í ályktuninni, að okkur flm. sýnist það sjálfsagt, að þar sé Alþingi með í ráðum um, hvernig svo miklu fé yrði varið. Geri ég fastlega ráð fyrir því, að allir séu sammála um það.

Við flytjum þessa þáltill. til þess að láta í ljós vilja okkar um það, hvað gera ætti í þessum málum, og byggjum þessa þáltill. sumpart á vitneskju okkar um þann undirbúning, sem fyrrverandi ríkisstj. hafði haft í lánamálunum, því að þar voru uppi fyrirætlanir um lántöku að fjárhæð, sem greinir í þessari þáltill., og menn höfðu hugsað sér, að lánsfénu yrði varið í þessu skyni, sem þarna greinir, þó að ekki væri búið að ganga endanlega frá tillögum um skiptingu á því lánsfé. Við teljum líka alveg eðlilegt, að gerð sé um það þingleg ákvörðun, hvaða framkvæmdir skuli njóta lánsfjárins, og þá einnig með sérstöku tilliti til þess, að lánsheimildir munu ekki vera til nægilega miklar nú þegar í lögum, til þess að svo stórt lán sé tekið. Hér er ekki gerð till. um lánsheimild í þessu skyni, en við mundum að sjálfsögðu vilja eiga þátt í því, að nauðsynlegar lánsheimildir verði veittar í framhaldi af samþykkt slíkrar þáltill. eins og hér er ráðgerð, og einnig verða til viðtals um það að breyta þáltill. í það horf, að hún yrði lánsheimild, að svo miklu leyti sem það við athugun kæmi í ljós, að lánsheimildir vantaði.

Ég mun svo ekki hafa fleiri orð til framsögu þessu máli, þótt það sé mjög stórt og mikilvægt, vegna þess, eins og ég sagði, að mér er það mesta áhugamál eða okkur flm., að það geti komizt til hv. fjvn. til skoðunar, og vil ég leyfa mér að leggja til, að því verði vísað til nefndarinnar.