15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (2185)

119. mál, útvegun lánsfjár

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Á s.l. hausti leitaði fyrrv. ríkisstj. eftir láni í Bandaríkjunum að upphæð 6 millj. dollara. Var fyrirætlunin að nota þetta lán fyrir ræktunarsjóð, fiskveiðasjóð, raforkusjóð og til hafnarframkvæmda. Við lánbeiðnina var þessu fé þó ekki skipt á milli þessara sjóða, og ekki lá þá fyrir nein áætlun um lánsfjárþörf eða fjárþörf þessara sjóða yfirleitt. Það var vel tekið í þessa lánbeiðni, en jafnframt var þess óskað, að gerð væri nánari grein fyrir því, til hvers ætti að nota lánið, til hvaða sjóða það ætti að fara og hver væri raunveruleg fjárþörf hvers sjóðs og þá sérstaklega hver væri lánsfjárþörf þeirra.

Núv. ríkisstj. hefur unnið að því að undirbúa þetta mál, og er það komið alveg á lokastig að fá uppgjör frá þessum sjóðum og áætlanir um fjárþörf þeirra á árinu 1959 og jafnvel lengra fram í tímann.

Þetta lán verður ekki tekið, eins og kunnugt er, án þess að fyrir hendi sé sérstök heimild í lögum til að taka það. Nú stendur hins vegar þannig á, að ríkisstj. hefur enga handbæra lántökuheimild. Ríkisstj. mun því snúa sér til fjvn., strax og lokið er við þessar áætlanir, og leggja þær fyrir n, og óska eftir, að stjórninni verði fengin lántökuheimild. Það er að sjálfsögðu eðlilegt, að í lántökuheimildinni sé gerð grein fyrir því, til hvers lánið á að fara, enda er það forsenda fyrir því, að lánið fáist, að lánveitanda sé gerð grein fyrir því.

Ríkisstj. getur því ekki og vill ekki ráðstafa þessu láni, án þess að fyrir liggi afgreiðsla á því máli hér á hæstv. Alþingi, og ég get alveg tekið undir það með hv. 1. þm. S-M., að það er ekki heppilegt að halda uppi þeim hætti, sem áður var á hafður, að ríkisstjórnir skipti þessu láni að verulegu leyti án þess að bera slíkt undir Alþingi. Mun ríkisstj. því nú að sjálfsögðu hverfa að því ráði.