15.04.1959
Sameinað þing: 38. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (2194)

131. mál, Íslenski farskipaflotinn

Flm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tillögu þá til þál., sem útbýtt hefur verið á þskj. 331, en till. þessi felur í sér í fyrsta lagi, að rannsókn verði látin fara fram á því, hvort ekki sé mögulegt að hagnýta betur en gert er íslenzka farskipaflotann, sérstaklega með tilliti til sparnaðar á þeim gjaldeyri, sem nú fer árlega til greiðslu á leigu erlendra farskipa. Í öðru lagi, leiði slík rannsókn í ljós, að með bættu skipulagi megi hagnýta lestarrúm íslenzku skipanna betur, þá verði komið á fastri skipan þeirra mála, er tryggi sem fyllsta hagnýtingu flotans, enda beri skipafélögin sjálf kostnað af slíkri starfsemi.

Nauðsyn ber til að draga úr hinum gífurlega gjaldeyrisaustri, sem á undanförnum árum hefur verið á þennan hátt varið til erlendra aðila, en þær upphæðir munu skipta tugum eða hundruðum millj kr. S.l. ár, sem er þó talið eitt með þeim útgjaldalægstu í þessum efnum, voru yfirfærðar af bönkum rúmar 28 millj. kr. í frjálsum gjaldeyri. Í upphæð þessari er þó ekki meðtalin leiga á rússnesku olíuflutningaskipi, sem þó var einnig í förum á árinu.

Þegar nú annars vegar er svo mjög rætt um að spara hinn frjálsa gjaldeyri og svo hins vegar vitað um algera endurnýjun alls íslenzka farskipaflotans ásamt stórfelldri aukningu á rúmlestafjölda hans, þá er ekki að undra, þó að ýmsar spurningar vakni í hugum manna um slíka ráðstöfun hins dýrmæta gjaldeyris okkar. Hefur útflutningur okkar aukizt svo gífurlega, að hin stórfellda aukning farskipaflotans megi sín lítils til þess að anna þörfum þjóðarinnar? Vissulega hefur útflutningur okkar stóraukizt með tilkomu stærri og afkastameiri fiskiflota, en áður og svo einnig að stórlega hefur dregið úr siglingum togaranna með eigin afla til erlendra hafna. En þegar vitað er um, að okkar farskip sigla oft lítið lestuð, að ekki sé talað um ólestuð til erlendra hafna, þá verður enn óskiljanlegri nauðsyn þess, að slíkum ógnarfjárhæðum skuli samt sem áður varið til erlendra leiguskipa í hörðum gjaldeyri til útflutnings íslenzkra afurða. Hvað útflutningi hins hraðfrysta fisks líður, þá munu ekki teljandi brögð að því, að hann hafi verið fluttur út með erlendum leiguskipum, en þegar kemur að saltfiskafurðunum, verður hlutfallið milli íslenzkra og erlendra skipa næsta óhugnanlegt. Samkvæmt nákvæmum upplýsingum, sem ég hef aflað mér um útflutning þessara fiskafurða á árinu sem leið og ég er að sjálfsögðu fús til að láta þeirri nefnd í té, sem málið fær til meðferðar, þá er hlutfallið einn á móti fjórum erlendu skipunum í vil. Í þessum upplýsingum, sem ég hef undir höndum, er greint nákvæmlega frá um magn hverrar ferðar og brottfarardag hvers skips um sig. Nánar tilgreint fluttu íslenzk skip 6.060.057 kg af fiski til erlendra hafna á s.l. ári. Á sama tíma fluttu erlend leiguskip íslenzkar foskafurðir til erlendra hafna, sem námu 24.683.949 kg. Af þessu sést, að erlendu skipin hafa flutt út aðeins betur, en fjórum sinnum meira magn, en íslenzku skipin af þessum afurðum. Fyrir þennan óhugnanlega mismun á útflutningi ásamt einhverjum innflutningi greiðir þjóðin hátt í 30 millj. kr. út úr landinu í hörðum gjaldeyri.

Á starfsárum hins svonefnda fjárhagsráðs, er mér sagt, að einn af starfsmönnum þess hafi annazt þau stör,; sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. þessarar þáltill. Hafi hann haft um það samvinnu við skipafélögin og hafi sú samvinna gengið með ágætum. Í þessari till. minni er lagt til, ef rannsókn leiðir í ljós, að mögulegt verði að leiðrétta ríkjandi vansæmdarástand þessara mála, þá verði komið á föstu skipulagi slíkrar leiðréttingar, er skipafélögin beri sjálf kostnaðinn af. Það ættu ekki að vera fjárútlát, sem horfandi væri í, miðað við þá ágóðavon, sem hlýtur að liggja í betri hagnýtingu skipanna og betri samvinnu skipanna um að koma slíkri hagnýtingu í framkvæmd.

Það, sem styður þá skoðun mína, að ekki sé í þessum efnum gætt nægjanlegrar fyrirhyggju eða sem fullkomnasts skipulags á fermingu skipanna er, að af fyrrnefndum upplýsingum er ljóst. að til hinna suðlægari landa, sem mest kaupa t.d. af saltfiski, virðast íslenzku skipin ekki hafa haft neina fasta áætlun, sem útflytjendur gætu byggt á.

Eitt augljósasta dæmið frá s.l. ári er Portúgal. Þangað flytja erlend skip 11.017.400 kg fisks, en íslenzk skip komu þar ekki. Til Spánar flytja erlend skip 1476.350 kg. Þar koma heldur ekki íslenzk skip með fiskafurðir. Til Grikklands siglir eitt íslenzkt skip með aðeins 363.150 kg af fiski, en 5 erlend skip sigla á sama tíma til þessa lands með 2.431.800 kg af íslenzkum fiskafurðum. Hér eru aðeins tekin þrjú dæmi af mörgum úr fyrrnefndum athugunum, sem benda til þess, að góð samvinna skipafélaganna undir forustu þess aðila, sem þau sjálf kysu til starfans, gæti dregið úr notkun erlendra leiguskipa og þannig sparað gjaldeyri og aukið hagnýtingu hins glæsilega íslenzka farskipaflota.

Samþykki Alþingi, að sú athugun fari fram, sem till. þessi felur í sér, tel ég rétt, að einnig fari fram athugun á hagnýtingu strandferðaflotans, án þess að dregið verði þar úr nauðsynlegri þjónustu við hinar dreifðu byggðir landsins. Þær sögur, sem fara af því, að 1–3 strandferðaskip komi til sama staðar á sama sólarhring, hvert með sinn smáskammt varnings, en svo líði aftur á móti óeðlilega langur tími, þangað til skip sést, bera vissulega ekki vitni um góða nýtingu strandferðaflotans. Til þess að taka af öll tvímæli um slíkar sögusagnir er vissulega einnig þörf á athugun þeirra mála, þó að ekki gæti þar erlendra leiguskipa.

Ég treysti því að, að þessum fáu upplýsingum fengnum geti hv. alþm. orðið mér sammála um, að nauðsyn beri til, að opinber forusta verði viðhöfð um rannsókn þessara mála með það fyrir augum, að úr verði bætt og till. fái fljóta og góða afgreiðslu.

Að lokum legg ég svo til, að þessari umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.