28.01.1959
Neðri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Við heyrðum af orðum hv. 1. þm. S-M., Eysteins Jónssonar, að honum var allmikið niðri fyrir. Hvort hann hefur með mælgi sinni gagnað flokknum á þann veg, sem hann býst við, skal ég ekki segja, en við, sem erum hér í þingsalnum, sáum, að honum var mjög annt um að komast í ræðustólinn, því að rétt áður en hv. þm. A-Sk., Páll Þorsteinsson, hvarf þaðan, fór hv. þm. S-M. með miða og afhenti honum og er enginn vafi á, að hann átti að tákna, að nú var röðin komin að því, að hann átti að þagna, en hinn að taka til máls.

Með frv. þessu er ætlunin að gera hina fyrstu af þeim raunhæfu ráðstöfunum, sem fyrrv. hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, lýsti í uppgjafarræðu sinni hér á Alþingi hinn 4. des. s. l. að láðst hefði að gera við setningu efnahagslaganna á s. l. vori. Eins og kunnugt er, var sú löggjöf, sem í háði hefur hlotið heitið „bjargráðin“ meðal almennings, sett til að útvega fé, bæði til að geta staðið undir útgjöldum fjárlaga og til efnda á loforðum um útflutningsbætur, sem atvinnurekendum höfðu verið gefin nær hálfu ári fyrr, þ. e. a. s. um áramótin 1957 og 1958. Þegar þau loforð voru gefin, hafði þáverandi ríkisstjórn ekki komið sér saman um, hvernig afla skyldi fjár til að standa við þau, né heldur til að afgreiða fjárlög tekjuhallalaus. Fjárlagaafgreiðslan fyrir árið 1958 var með þeim frumlega hætti, að nokkur hluti vitaðra útgjalda var hreinlega tekinn út af frv. og þar með látið svo sem tekjuhallinn væri úr sögunni. Þáv. ríkisstj. hafði vafalaust í huga að bæta úr þessu, tryggja tekjur handa útflutningssjóði og jafna fjárlögin. En vangaveltur um aðferðina til þess tóku nærri fimm mánuði. Kunnugir segja, að allan þann tíma hafi verið stjórnarkreppa hvern einasta dag, svo að enginn ráðherranna vissi að morgni, hvort stjórnin hjarði til kvölds. Loks var svo látið heita í maílok sem samkomulag væri komið á og bjargráðin lögfest.

Með þeim ráðstöfunum var að vísu mikilla tekna aflað, svo mikilla, að sumir hinna fyrrv. ráðherra segja, að greiðsluafgangur ríkissjóðs 1958 hafi orðið milli 60 og 70 millj. kr., auk þess sem vegna þeirrar skattheimtu hafi einhverjum áskotnazt þar fyrir utan 63 millj. kr., sem ríkisstj. ráðstafaði á banadægri sínu með meirihlutaatkv. gegn atkv. minni hlutans og án þess að bera málið undir Alþingi. Er öflun þeirrar fjárhæðar og ráðstöfun hennar rannsóknarefni fyrir sig, sem ekki verður látið niður falla. Með bjargráðunum var sem sagt mikilla tekna aflað, en á þann veg, að ljóst var, að verðbólga hlyti stórlega að aukast, ef ekki væri að gert, en verðbólguvöxturinn var einmitt sá vandi, sem við var að etja. Bjargráðin voru sett til að reyna að ráða við hann, svo úr því að árangurinn varð sá, að verðbólgan jókst í stað þess að minnka, var bersýnilega meira, en lítið varhugavert við þær ákvarðanir, sem þá voru teknar. Dæmi þessa er það, sem hv. 2. þm. S-M., Lúðvík Jósefsson, skýrði frá á Alþingi í gær, að ríkissjóður hefði orðið að greiða nýlega rúmlega 800 þús. kr. vanskilaskuld togarans Gerpis, sem beinlínís væri til orðin vegna yfirfærslugjaldsins, sem lögleitt var með bjargráðunum.

Af ræðu hv. þm. A-Sk., Páls Þorsteinssonar, var ljóst, að jafnvel þeir, sem dyggastir eru í þjónustunni, eru farnir að gera sér grein fyrir, að töluvert skortir á um fullkomleik bjargráðanna. Sama játningin um botnleysi þeirra kom fram hjá hv. þm. Str., Hermanni Jónassyni, í uppgjafarræðunni hinn 4. des. s. l., þegar hann sagði: „Í ríkisstjórninni er ekkí samstaða um nein úrræði í þessum málum, sem að mínu áliti geti stöðvað hina háskalegu verðbólguþróun, sem verður óviðráðanleg, ef ekki næst samkomulag um þær raunhæfu ráðstafanir, sem lýst var yfir að gera þyrfti, þegar efnahagsfrv. ríkisstjórnarinnar var lagt fyrir Alþingi á s. l. vori.“ Þetta var úr uppgjafarræðunni.

En það voru ekki aðeins hinir gífurlegu skattar, sem settir voru með bjargráðunum, sem hlutu að auka vöxt verðbólgunnar, úr því að ekki var að gert, heldur var einnig með þeim lögboðin grunnkaupshækkun. Þar sem bjargráðin voru einmitt sett af því, að kaup í landinu var þegar orðið of hátt, var það auðvitað algert öfugmæli, einungis sett til að villa um fyrir mönnum, að lögskipa í þeim sjálfum nýja grunnkaupshækkun. Þó að ótrúlegt megi virðast, mun tilætlunin með þessu hafa verið sú að draga úr frekari hækkunum. Árangurinn varð, svo sem sjá mátti fyrir, þveröfugur, enda höfðu stjórnarliðar sjálfir forustu um kauphækkanir, sem í kjölfarið sigldu. Öll stjórnarblöðin, Tíminn t. d. hinn 27. júní, mæltu með frekari kauphækkunum til fyrstu félaganna, sem kröfu gerðu um hækkanir eftir setningu bjargráðanna.

Þá er kunnari, en frá þurfi að segja ályktunin, sem bæjarfulltrúi Framsfl., deildarstjóri í fjmrn., bar fram í bæjarstjórn Reykjavíkur hinn 18. sept. s. l. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn þakkar verkamannafélaginu Dagsbrún þjóðholla afstöðu að undanförnu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Jafnframt ályktar bæjarstjórn, að brýna nauðsyn beri til að hindra, að til vinnustöðvunar komi hjá bænum og bæjarstofnunum í vinnudeilu þeirri, sem fram undan er milli verkamannafélagsins Dagsbrúnar og atvinnurekenda og felur því borgarstjóra að undirrita samninga við Dagsbrún í meginatriðum á grundvelli þeirra krafna, er félagið hefur lagt fram.“

Þannig hljóðaði þessi fræga ályktun.

Eins og tíðkast í vinnudeilum, voru kröfurnar í meginatriðum miklu hærri, en ætlunin var að knýja fram. Raunin varð og sú, að örfáum dögum síðar samþykktu Dagsbrúnarmenn sjálfir miklu lægra kaup, en bæjarfulltrúi Framsóknar hafði krafizt að umsvifalaust væri gengið að. Þá er það vitað, að kommúnistar, Moskvu-kommúnistar, sem Tíminn svo kallar þessa dagana, eru allsráðandi í Dagsbrún. Um þessar mundir eiga framsóknarmenn ekki nógu hörð orð til fordæmingar þeim mönnum. En það er ekki lengra síðan, en í miðjum september, að þeir sendu fulltrúa sinn til að þakka þeim þjóðholla afstöðu. Er sú framkoma raunar í fullu samræmi við það, að einmitt S. Í. S., Samband ísl. samvinnufélaga, þar sem Eysteinn Jónsson, hæstv. fyrrv. fjmrh., er varaformaður, var sú stofnun, er beitti sér fyrir að brjóta niður eina varnargarðinn, sem fyrrv. ríkisstj. reyndi að reisa gegn verðbólgunni, það eru kaupfestingarlögin frá því í ágúst 1956. Á meðan þau lög voru í gildi, veitti S. Í. S. starfsmönnum sínum 8% kauphækkun og gerði þar með mun erfiðara fyrir aðra að standa á móti kauphækkunum. Sú afsökun, sem nú er borin fram, að þar hafi einungis verið um samræmingu að ræða, er haldlaus, því að svo er sagt um hverja einustu kauphækkun.

Tveir voru þeir hópar, sem framsóknarmenn og kommúnistar hafa í sameiningu fyrr og síðar sýnt fullkominn fjandskap í kaupdeilum. Þegar Iðjufólk, sem eftir langvarandi yfirráð kommúnista í félaginu var um margt verr stætt en aðrir, fékk nokkra leiðréttingu mála sinna vorið 1957, þá snerust bæði framsóknarmenn og kommúnistar gegn þeirri leiðréttingu af miklu offorsi og vitna enn til hennar sem einstæðs hneykslis. Þannig var umhyggjan fyrir þeim, sem lægst kaupið höfðu. Annar hópur, sem varð fyrir barðinu á stjórnarvöldunum, voru farmenn. Þeir töldu sérstaklega á sig hallað í bjargráðunum og reistu kröfu á þeim grundvelli. Sérfræðingur ríkisstj. í efnahagsmálum, Jónas Haralz, gaf þá yfirlýsingu um, að farmenn hefðu orðið verr úti, en aðrir vegna þessarar löggjafar. Eftir það treysti stjórnin sér ekki til að halda í ranglætið og heimilaði hækkun á farmgjöldum til að gera mögulegt, að farmenn gætu fengið hlut sinn réttan. En af einhverjum ástæðum bannaði ríkisstj. algerlega, að birt væri tilkynning sérfræðingsins um, af hverju hækkunin væri nauðsynleg. Sú tilkynning var þó bezta vörnin gegn því, að aðrir reistu kröfur á þeim grundvelli, áð fordæmi hefði verið skapað með leiðréttingum til handa farmönnum. En í þessu sem fleiru var svo að sjá sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. gerði sér ekki grein fyrir afleiðingum verka sinna.

Eins og af þessu yfirliti sést, hafa á valdaárum fyrrv. hæstv. ríkisstj. sífelldar kauphækkanir og stórkostlegar álögur lagzt á eitt um að auka verðbólguvöxtinn. Gegn þessu voru engar raunhæfar ráðstafanir gerðar af hálfu ríkisstj., eftir að kaupbindingarlögin féllu úr gildi í árslok 1956. Það var því orð að sönnu, sem hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, sagði í uppgjafarræðunni: „Í ríkisstj. er ekki samstaða um nein úrræði í þessum málum.“ Um ástæðurnar fyrir því ósamkomulagi skal ég ekki fjölyrða. Málflutningur framsóknarmanna og kommúnista skýrir þær betur, en mér vinnst tími til.

Framsóknarmenn telja, að óhæfilegar kauphækkanir eigi fyrst og fremst sök á verðbólguþróuninni. Vissulega er margt, sem þeir segja um hættuna af kauphækkunum umfram getu atvinnuveganna, alveg rétt. En við þá eiga orð séra Hallgríms, þegar hann sagði: „Þetta, sem helzt nú varast vann, varð þó að koma yfir hann.“ Framsóknarmenn og þá ekkí sízt hv. 1. þm. S-M., Eysteinn Jónsson, hafa með atferli sínu, allra manna mest ýtt undir örar og óheilbrigðar kauphækkanir hér á landi síðustu árin.

Á sama veg er um kommúnista. Ýmislegt, sem þeir segja um hættuna, sem stafar af ofboðslegri fjárheimt ríkisins, er rétt. Enginn efi er á því, að svo gífurleg skattheimta sem gerir mögulegt, að þrátt fyrir óstöðvandi eyðslu sé nú tekjuafgangur 1958 60–70 millj. kr., að viðbættum 63 millj. kr., sem áskotnuðust vegna bjargráðanna, — slíkar skefjalausar álögur hljóta mjög að ýta undir verðbólguvöxtinn. Hæstv. forsrh., Emil Jónsson, hefur og upplýst, að tekjurnar á fjárlagafrv. fyrir árið 1959 séu vantaldar að mati sérfræðinga í fjmrn. um 83 millj. kr. Hnígur það að hinu sama, að úr hófi er farið um skattheimtuna, og bætir það ekki úr skák, að reynt hefur verið að halda svo stórfelldum fjárhæðum leyndum fyrir Alþingi. Er það í senn vitni ótrúlegrar óreiðu og vilja til að draga fjárveitingavaldið úr höndum Alþingis. Hitt er rétt, sem hv. 1. þm. S-M., Eysteinn Jónsson, hefur haldið fram, að engir hafi verið frekari í fjárkröfum, en einmitt kommúnistar og þess vegna situr ekki á þeim að saka aðra. En það er önnur saga.

Nú verðum við að taka afleiðingum þess, sem orðið er fyrir tilverknað þessarar þokkalegu samfylkingar. Hæstv. fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, lýsti ástandinu í uppgjafarræðu sinni hinn 4. des. svo: „Ný verðbólgualda er skollin yfir.“ Og þrátt fyrir alla skattheimtuna og milljónatugina eða hundruðin, sem komu í leitirnar, sagði 1. þm. S-M. hinn 23. jan., að við blöstu tómir sjóðir, missir fjölda manns á íbúðum sínum og botnlaus verðbólguhít. Þannig var ástandið, þegar hann hvarf frá völdum og því miður er ekkert ofmælt í lýsingum þeirra flokksbræðranna Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar.

Sérfræðingur ríkisstj. í efnahagsmálum, Jónas Haralz, hefur sannað, að þar sem verðbólgan hefur að meðaltali á ári vaxið um 10% frá árinu 1946 fram á 1958, þá er nú fyrirsjáanlegt, að vöxturinn verður 20–30% árlega og sennilega meiri. Hann telur, að næsta haust komist vísitalan upp í 270 stig, og hv. 9. landsk. þm., prófessor Ólafur Björnsson, hefur sýnt fram á, að eftir 1½ ár muni hún verða 400 stig, ef ekki verða gerðar gagnráðstafanir. Almenningur finnur og af eigin útgjöldum, hversu þróunin er orðin geigvænleg. Niðurgreiðslur hæstv. núv. ríkisstj. um áramótin hafa að vísu nokkuð dregið úr ofurþunga útgjaldanna, en þar er um ráðstöfun að ræða, sem senn segir til sín í lækkaðri vísitölu og þar með kaupgjaldi.

Hæstv. fyrrv. stjórn færir sér það til afsökunar fyrir því, að hún hafi ekki gert hinar raunhæfu ráðstafanir, sem hún vissi að gera þurfti í sambandi við bjargráðin á s. l. vori, að það væri vegna þess, að hún vildi hafa samráð við stéttasamtökin. Raunin varð og sú, að ríkisstj. beið eftir Alþýðusambandsþingi. Það var haldið síðustu vikuna í nóvember. En voru nokkrar raunhæfar tillögur lagðar fyrir það þing? Nei, síður en svo. Hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, hefur upplýst, að framsóknarmenn hafi lagt tillögur sínar í efnahagsmálum fram á ríkisstjórnarfundi hinn 17. nóv. Síðustu daga í nóvember höfðu ráðherrar kommúnista einnig lagt tillögur sínar fyrir ríkisstj., en hvorki framsóknarmenn né kommúnistar báru þessar tillögur undir Alþýðusambandsþing, þó að þeim hefði verið það í lófa lagið. Í stað þess fór hæstv. fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, á Alþýðusambandsþing og bað þar um frest, sem auðsjáanlega var fyrst og fremst og raunar eingöngu miðaður við það, að sjálft Alþýðusambandsþingið tæki enga málefnaafstöðu til þessa vandamáls, heldur yrði við það látið sitja að veita einhverjum umboð, sem síðan gætu ráðið málunum til lykta að eigin vild. Frestinum var neitað. Sjálft fékk Alþýðusambandsþing ekki neitt færi á því að taka efnislega ákvörðun um málið. Að vísu voru þar á næturfundi bornar fram, ræddar og samþykktar till. í efnahagsmálum, en nærri má geta, hvers virði þvílíkar samþykktir eru, sem gerðar eru á einni næturstund, án þess að mönnum hafi gefizt kostur á að átta sig á málum eða kynna sér forsendur, þegar vandinn, sem við er að etja, er slíkur, að sérfræðingar hafa skrifað um hann hverja álitsgerðina eftir aðra, stjórnmálaflokkar gert um hann ályktun eftir ályktun og lagaboð hafa verið sett eftir lagaboð, en allt komið fyrir ekki.

Synjun Alþýðusambandsþings um frest notaði Hermann Jónasson svo sem átyllu til þess að segja af sér. Auðvitað var þar ekki um hina eiginlegu orsök að ræða, heldur einungis átyllu, vegna þess að Hermann Jónasson var búinn að gera sér ljóst, að ríkisstj. hans skorti sökum sundurlyndis öll skilyrði til þess að geta leyst verðbólguvandann, sem hún fyrst og fremst var mynduð til að leysa. Það var af þeim sökum, sem fyrrverandi stjórn „fleygði málinu frá sér“, svo að notað sé orðalag hæstv. forsrh., Emils Jónssonar, á Alþingi í gær. Ef til vill vakti fyrir hæstv. fyrrv. forsrh., Hermanni Jónassyni, að hann með afsögn sinni gæti hrætt samstarfsmenn sína til hlýðni. En það fyllti ekki hina botnlausu verðbólguhít, sem Eysteinn Jónsson réttilega segir blasa við.

Á þennan veg var málum komið, þegar leitað var til okkar sjálfstæðismanna um að reyna að mynda ríkisstj. Við gerðum okkur þegar í stað grein fyrir, að þar var þrenns að gæta. Þegar í stað varð að gera ráðstafanir til að stöðva vöxt verðbólgunnar, setja varð nýjar reglur um kjördæmaskipun og tryggja, að nýjar kosningar færu fram, svo fljótt sem við verður komið.

Um nauðsyn kosninga ætti ekki að þurfa að fjölyrða. Bæði Framsókn og Alþfl. hétu því fyrir síðustu kosningar að vinna hvorki með kommúnistum né sjálfstæðismönnum á kjörtímabilinu. Þeir hafa að vísu rofið loforðið varðandi kommúnista, en við sjálfstæðismenn teljum okkur ekki samboðið að taka þátt í samstarfi, sem byggist á svikum af hálfu gagnaðila. Frambúðarsamstarf getur því þegar af þeirri ástæðu ekki komið til greina af okkar hálfu fyrr en, að afloknum nýjum kosningum.

Rangindi Hræðslubandalagsins við síðustu kosningar gerðu og óumflýjanlegt, að kjördæmaskipuninni yrði breytt. Undanfarinn einn og hálfan áratug hefur endurskoðun stjórnarskrárinnar strandað á ósamkomulagi um nýja kjördæmaskipun. Úr því sem komið er, var ekki um annað að ræða, en að reyna að ná samkomulagi um að hafa nokkur stór kjördæmi með hlutfallskosningum. Framsóknarmenn segja, að með því eigi að leggja öll gömlu kjördæmin niður og það brjóti gegn sögulegri þróun. Hin þrönga staðbundna skipting, sem nú er á kjördæmum hér, á rætur sínar að rekja til þess tíma, er danska einveldið réð á landi hér. Á meðan Íslendingar höfðu frelsi áður og hin fornu goðorð voru við lýði, þá voru þau ekki staðbundin. Þá mátti maður kjósa sér hvern þann goða, sem hann vildi, innan sama fjórðungs. Alveg á sama veg leggjum við nú til, að menn megi kjósa á milli margra innan staðartakmarka, sem segja má að svari til fjórðunganna fornu, enda er svo til háttað, að á engan verði hallað vegna hlutfallskosninganna. Auðvitað eru gömlu kjördæmin ekki lögð niður með þessum hætti, heldur sameinuð á svipaðan veg og þegar piltur og stúlka ganga í hjónaband og slá saman búum sínum. Auðvitað halda þau hvort um sig eftir sem áður sinni sjálfstæðu tilveru og forræði eigna sinna, eftir því sem lög segja til um, þrátt fyrir hjónaband og félagsbú.

En úr því að Framsfl. finnur svo mjög að till. okkar um kjördæmabreytinguna, af hverju ber hann þá enga sjálfstæða tillögu fram í málinu? Af hverju hrekkur hann ætíð undan og fæst ekki til að segja hug sinn í þessu mikla máli, þegar til ákvörðunar kemur? Það er vegna þess, að hann vill það eitt að halda við ranglætinu og leiðir þannig meiri hættur yfir umbjóðendur sína, en nokkur annar, því að aldrei blessast til lengdar í lýðfrjálsu þjóðfélagi að sitja yfir rétti samborgara sinna.

Tal Framsóknar um þjóðstjórn nú sýnir ótta þeirra herra við kosningar, því að nú þora þeir ekki að leggja til kosninga nema í samstarfi við okkur sjálfstæðismenn, sem þeir höfðu heitið að vinna alls ekki með. En það er einnig eftirtektarvert, að þjóðstjórnartalið bar aldrei á góma í viðræðum okkar og þeirra fyrir jólin, heldur skaut því þá fyrst upp, þegar framsóknarmenn sáu, að þeir voru ella oltnir úr völdunum.

En kosningar eru ekki aðeins nauðsynlegar af þessum sökum, heldur og vegna sjálfra efnahagsmálanna.

Þegar við sjálfstæðismenn gerðum tilraun okkar til stjórnarmyndunar, settum við það sem frumskilyrði, að tafarlaust yrðu gerðar ráðstafanir til þess að stöðva vöxt verðbólgunnar. Um þetta sögðum við nánar í flokksráðssamþykkt okkar frá 18. des.:

„Við athugun á þeim gögnum um efnahagsmálin, sem flokkurinn fékk í hendur fyrir rúmri viku fyrir milligöngu Forseta Íslands, er staðfest, að ástandið í þessum efnum er svo alvarlegt, að ráðstöfun til stöðvunar sívaxandi verðbólgu má með engu móti skjóta á frest. Það er ótvírætt, að þjóðin notar meiri fjármuni, en hún aflar og verður að taka afleiðingunum af því til þess að tryggja efnahagslegt öryggi sitt í framtíðinni.

Flokkurinn hefur lagt áherzlu á að finna þau úrræði, er þrautaminnst væru fyrir almenning, en væru þó um leið líklegust til þess að stöðva vöxt verðbólgunnar. Er það mat flokksins, að eftirgreindar ráðstafanir samræmist bezt þessu tvíþætta markmiði: Launþegar afsali sér 6% af grunnkaupi sínu, og verð landbúnaðarvara breytist vegna hliðstæðrar lækkunar á kaupi bóndans og öðrum vinnukostnaði við landbúnaðarframleiðsluna.“

Er þetta síðan skýrt nokkuð, og segir því næst :

„Til þess að halda vísitölunni í 185 stigum yrði að auka niðurgreiðslur á vöruverði, er næmi 10–12 stigum. Séu niðurgreiðslur ekki auknar umfram þetta, ætti ekki að þurfa að hækka beina skatta og almenna tolla.

Jafnhliða þessum aðgerðum verður þegar í stað að gera ýmsar aðrar ráðstafanir, svo sem í bankamálum og fjárfestingarmálum, til þess að forðast verðbólgumyndun úr þeim áttum. Ráðstafanir þessar til stöðvunar verðbólgunni eru aðeins fyrsta skrefið til jafnvægisbúskapar og heilbrigðrar þróunar í atvinnulífi þjóðarinnar. En til þess að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum er þörf fjölþættra ráðstafana og telur flokkurinn óhjákvæmilegt, að þjóðin fái, svo fljótt sem við verður komið, í almennum kosningum að meta aðgerðir stjórnarflokkanna að undanförnu og tillögur allra flokka til lausnar þessu mikla vandamáli. Mun Sjálfstfl. þá gera þjóðinni grein fyrir viðhorfi sínu og úrræðum í einstökum atriðum.“

Þetta er úr flokksráðssamþykktinni 18. des.

Á Alþingi fékkst ekki meiri hluti fyrir stjórnarmyndun á þessum grundvelli. Þá sneri Forseti Íslands sér til Alþfl., og leitaði Alþfl. til okkar sjálfstæðismanna um stuðning við minnihlutastjórn sína, eins og til hinna flokkanna og féllumst við einir á að veita stuðning á þann veg að verja slíka stjórn vantrausti, á meðan hún væri að reyna að leysa efnahagsmálin. Þá komu Alþfl. og Sjálfstfl. sér saman um megindrætti í lausn kjördæmamálsins og ákveðið var, að kosningar væru látnar fara fram á næsta vori.

Svo sem kunnugt er, var þessi stjórn mynduð hinn 23. des., og hefur hún síðan ósleitilega unnið að lausn efnahagsmálanna. Á Alþingi hefur verið lýst yfir því af hálfu Sjálfstfl., að við hefðum talið réttara, að efnahagsmálin hefðu öll verið leyst í einu, þ. e. a. s. þetta frv. hefði verið tengt ákvörðun um auknar niðurgreiðslur vöruverðs, um fiskverð og afgreiðslu fjárl. En vegna þess öngþveitis, sem fyrrv. hæstv. ríkisstj. skildi við málefni þjóðarinnar í, er hún fleygði málum frá sér, varð þessum starfsháttum ekki komið við.

Þegar á allt þetta er litið, er sízt of sterklega að orði kveðið, þegar sagt hefur verið, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé að efni til um fyrstu afborgun af vanskilavíxli fyrrv. ríkisstj.

Deilt er um, hversu mikil sú kjaraskerðing er, sem í þessu frv. felst. Ég skal ekki blanda mér í þær deilur, en fullyrði aðeins, að hún er áreiðanlega lágmark þess, sem gera þarf, ef ekki á að fara illa. Reynt er að láta jafnt yfir alia ganga. Fjarstæða er, að bændum sé gert rangt til, þvert á móti er ekkí hallað á þá, svo sem framsóknarmenn létu viðgangast, á meðan þeir voru í stjórn. Því fer hins vegar fjarri, að þetta sé eina ráðstöfunin, sem nú þarf að gera. Við sjálfstæðismenn bentum á það strax í flokksráðsályktun okkar 18. des., að nú þegar yrði auk kauplækkunarinnar og aukinna niðurgreiðslna að gera ýmsar ráðstafanir í bankamálum og fjárfestingarmálum til þess að forðast verðbólgumyndun úr þeim áttum. En hér við bætist, að nú er komið í ljós, að ástandið var enn verra, en við þá gerðum okkur grein fyrir. Útvegurinn hefur þurft meiri uppbætur, en ætlað varð eftir þeim gögnum, sem við þá fengum í hendur. Kommúnistar segja raunar í öðru orðinu, að óþarfi sé að hafa þær uppbætur svo miklar, en í hinu orðinu játar Lúðvík Jósefsson á Alþingi, að hæstv. ríkisstj. hafi náð beztum fáanlegum samningum. Gagnrýni hans er því ekki mikils virði. En hækkanirnar eru óneitanlega vitni þess, að verðbólguþróunin hefur verið komin enn þá lengra, en menn jafnvel gerðu sér grein fyrir um miðjan desember. Því meiri nauðsyn er, að stungið sé við fótum og snúið við.

Kommúnistar og framsóknarmenn nota það til árásar á hæstv. ríkisstj., að hún hafi enn ekki tryggt sér afgreiðslu tekjuhallalausra fjárlaga og hælast um yfir því, að við sjálfstæðismenn höfum ekki lofað að skera niður framkvæmdir á fjárlögum, svo að nemi 40 millj. kr. Um afgreiðslu fjárl. hefur enn ekki verið samið. Til þess hefur einfaldlega skort tíma. En auðvitað munu sjálfstæðismenn nú sem fyrr taka ábyrga afstöðu til afgreiðslu fjárl. og meta það, hverjar ráðstafanir gera þurfi, til þess að sá megintilgangur náist, að verðbólguvöxturinn stöðvist. Þetta tekst að sjálfsögðu ekki erfiðleikalaust. Ein höfuðvilla fyrrv. hæstv. ríkisstj. var sú að láta sem unnt væri að finna einhverja varanlega lausn efnahagsmálanna, eins og þeir tóku til orða, án þess að almenningur yrði fyrir nokkrum óþægindum. Þrátt fyrir eindæma góðæri s. l. ár og meðalár þar á undan gat hæstv. fyrrv. ríkisstj. aðeins haldið sæmilegri atvinnu við í landinu með því að auka opinberar skuldir nokkuð á 7. hundrað millj. kr., eða hér um bil fimm sinnum meira, en sambærileg skuldaaukning varð á nær 3 ára valdaferli stjórnar Ólafs Thors. Er það raunar eitt vitni ringulreiðarinnar, að opinberum aðilum kemur ekki saman um skuldaaukninguna, svo að munar hundruðum millj. eftir því, hver stofnunin gefur upp tölur.

Íslendingum tjáir ekki til lengdar að ætla að lifa með því að bæta stöðugt láni ofan á lán til eyðslu og þeirra framkvæmda, sem þjóðin með eðlilegum hætti á sjálf að leggja fé til. Sá, sem lifað hefur um efni fram, verður annað hvort eða hvort tveggja að draga úr eyðslu eða auka tekjur. Eins og nú háttar til, verðum við að byrja með því að draga úr eyðslu. En það er alger misskilningur, að þetta verði gert örðugleikalaust. Enn sakast gömlu stjórnarflokkarnir innbyrðis á um það, hverjum þeirra sé að kenna um, að upp úr samstarfinu slitnaði og segja, að aldrei hafi verið auðveldara að leysa vandann en einmitt á s. l. hausti. En af hverju leystu þeir þá ekki þennan vanda? Það var vegna þess, að þeir voru ósammála í öllum meginatriðum og höfðu ekki kjark til að gera sér grein fyrir örðugleikunum, sem við var að etja. En þegar þeir sáu afleiðingar verka sinna, skutu þær þeim skelk í bringu og þeir hlupu af hólmi.

Örðugleikana ber að líta raunsæjum augum, þá eru mestar líkur til að hægt sé að vinna bug á þeim. Ég játa, að mér virðist sem Alþfl. enn leitist um of við að gera minna, en vert er úr þeim örðugleikum, sem við blasa og ekki verður fram hjá komizt. Þetta segi ég eins og er, jafnframt því sem ég viðurkenni þann meginmun, sem er á framkomu Alþfl. og hinna, sem sjálfir gáfust upp, fleygðu málum frá sér og nú reyna að spilla þeim.

Með þessu frv., ef lögfest verður og öðrum nauðsynlegum ráðstöfunum, er hægt að skapa svigrúm fyrir þjóðina til að átta sig á þessum málum. Það svigrúm þarf að nota til þess að gefa kjósendum færi á að segja sjálfir til um, hvernig þeir vilji að málum sé háttað í framtíðinni.

Áður en að kosningum kemur, gefst flokkunum að sjálfsögðu færi á að gera grein fyrir skoðunum sínum. Ég skal ekki í kvöld rekja stefnu Sjálfstfl. í einstökum atriðum, til þess skortir mig tíma. Ég læt mér nægja að vitna til flokksráðsályktunarinnar frá 18. des. En fyrst og fremst verðum við að koma á því jafnvægi í þjóðarbúskap okkar, að við getum sloppið úr svikamyllu styrkja og hafta, sem nú binda þjóðina á höndum og fótum. Eðlileg lögmál atvinnulífsins verða að taka hér gildi. Atvinnurekendur verða á ný að fara að reka atvinnu sína upp á eigin áhættu, en ekki almennings, svo sem nú er gert. Við verðum að skapa traust á krónunni og þar með leggja grundvöllinn að víðtækum framkvæmdum. Við eigum að varast erlendar lántökur til að halda uppi meiri eyðslu, en við höfum efni á. En við eigum hiklaust að afla okkur erlends fjár til að hagnýta þá orku, sem í landinu er, þá orku, sem — ef rétt er að farið — áreiðanlega nægir til þess að búa Íslendingum öruggan efnahagsgrundvöll í framtíðinni, þannig að við, er búum á þessari köldu eyju, getum notið jafngóðra lífskjara og nokkur þjóð önnur.