28.01.1959
Neðri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég get ekki að því gert, kannske er það nú ljótt, að mér kemur helzt í hug strengjabrúðuleikhús, þegar ég leiði hugann að núverandi hæstv. ríkisstj. Ég sé fyrir mér tvo strengjameistara, handfima og sterka, að tjaldabaki í gervi hv. þm. G-K., Ólafs Thors, og hv. 1. þm. Reykv., Bjarna Benediktssonar. Þeir stjórna fastri hendi af mikilli kunnáttu öllum hreyfingum og athöfnum leikbrúðanna fjögurra á sviðinu framan leiktjalds, og nú getum við gert okkur það í hugarlund, að frumsýning á leikritinu „Kauplækkun til kjarabóta“ sé að hefjast.

Ætli það hafi annars nokkurn tíma átt sér stað um viða veröld, að verkalýðsflokkur og íhaldsflokkur, sem í senn er harðsvíraður málsvari atvinnurekendavalds og kaupsýsluhags muna, séu eins og samvaxnir tvíburar og standi sameiginlega að ríkisstj.? En hvað sem um það er, þá er það staðreynd, að Sjálfstfl. og Alþýðufl. hafa tekið upp með sér náið samstarf, sem sjálfsagt er hugsað til margra ára. Því er þannig háttað, að Alþfl. leggur til alla ráðherrana með hálfum þingflokki sínum, en Sjálfstfl. kýs sér heldur það hlutskipti að standa í skugganum, ef hugsazt gæti, að hann með því kæmist hjá að verða dreginn til ábyrgðar fyrir þann einstæða vesaldóm að hafa ekkert — alls ekkert — til málanna að leggja fyrir kosningar til úrlausnar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Og nú sjáum við fyrsta ávöxtinn af samstarfi atvinnurekendaflokksins og verkalýðsflokksins. Það er frv. til laga um bótalausa niðurfellingu tíu vísitölustiga á allt kaupgjald eða 5.4% kauplækkun, sem játuð er af foreldrum þessa efnilega frumburðar. Ýmsir aðrir telja þessa kauplækkun miklu meiri.

Eins og menn muna, komst Sjálfstfl. að þeirri niðurstöðu, þegar hann var að reyna að mynda ríkisstj. í des. s. l., að höfuðaðgerð í efnahagsmálum yrði að vera a. m. k. 6% grunnkaupslækkun. Kauplækkun sú, sem felst í frv. Alþfl., er nálega jafnmikil og virðist frv. þannig svipa mest í ætt Sjálfstfl. Er heldur ekki ólíklegt, að svo muni einnig verða um fleiri mál, sem ríkisstj. Alþfl. leiðir til lykta? Þar sem það er Sjálfstfl., sem leggur til meginhluta þess þingstuðnings, sem þarf til þess að afgr. mál á Alþingi.

Í lok seinasta Alþýðusambandsþings réðu Alþfl.-fulltrúar utan af landi úrslitum um það, að fulltrúar Alþb. og Alþfl. skyldu taka höndum saman um stjórn Alþýðusambands Íslands næstu tvö ár. Með þessu héldu menn, að bundinn væri endir á það nána samstarf, sem verið hafði seinustu árin milli íhaldsins og margra Alþfl.-manna í Reykjavik. Var þessum atburði fagnað af alþýðu manna um allt land, en íhaldið steytti hnefa og brigzlaði Alþfl.-mönnum um svik.

Á þessu sama þingi Alþýðusambandsins stóðu fylgjendur Alþfl. og Alþb. hlið við hlið um afgreiðslu á myndarlegri ályktun um efnahagsmál. Lögð skyldi höfuðáherzla á stöðvun verðbólgunnar í nánu sambandi við verkalýðssamtökin, þannig að framfærsluvísitalan yrði ekki hærri en 202 stig og kaupgjaldsvísitalan þannig 185 stig. Bent var á ákveðnar leiðir til að framkvæma þetta. Þær 120–130 millj. kr., sem nú er vitað að voru ofteknar af þjóðinni s. l. vor og valdið hafa verðhækkunum, sem a. m. k. nema 15 vísitölustigum, skyldu nú eðlilega vera notaðar til niðurgreiðslna. Dregið skyldi úr þýðingarminni fjárfestingu ríkisins, sveitarfélaga og einstaklinga, einkum þeirri, sem ekki væri bráðaðkallandi. Nokkur niðurskurður skyldi framkvæmdur á fjárl. og tekna aflað með hækkuðu verði á einkasöluvörum, helzt þó einnig með ríkiseinkasölu á olíum. Þannig taldi þingið, að komizt yrði hjá að leggja á nýja neyzluskatta. Um þetta stóðu fulltrúar Alþfl. og Alþb. saman eins og einn maður.

En hvað hefur svo gerzt síðan? Rétt eftir að fulltrúar Alþfl. á Alþýðusambandsþingi voru komnir úr höfuðborginni til heimkynna sinna, hafði forustulið Alþfl. stofnað til nánari íhaldssamvinnu á stjórnmálasviðinu, en nokkru sinni fyrr eða eins og það hefur verið orðað hnyttilega og réttilega: Sjálfstfl. myndaði ríkisstj. Alþfl.

Og svo varð eitt fyrsta verk þessarar ríkisstj. íhaldsins og Alþfl. það að ráðast gegn frjálsum samningarétti verkalýðsfélaganna og beita sér fyrir lögbundinni kauplækkun og þetta hvort tveggja án þess að leita nokkurs minnsta samráðs við launþegasamtökin í landinu.

Það var fyrst, þegar Sjálfstfl. hafði blessað endanlega yfir málið og frv. var fullmótað í öllum aðalatriðum, sem það var rætt við fulltrúa bændasamtakanna og síðast við fulltrúa Alþýðusambandsins og annarra launþegasamtaka. Þannig hagaði ríkisstj. Alþfl. vinnubrögðum sínum, því miður.

Þeir menn, sem að undanförnu hafa horft tárvotum augum ofan í opna gröf Hræðslubandalagsins sæla, hafa stundum að undanförnu verið að hugga sig við fullyrðingar um, að Alþb. væri einnig úr sögunni. Þeir hafa búið til alls konar skröksögur um hatrömm átök, sem nú ættu sér stað innan Alþb. Ja, svo mæla börn sem vilja. En fyrir þessum sögum og fullyrðingum er enginn flugufótur. Alþb. hefur aldrei verið jafnsamhent og sterkt eins og nú. Alþb. hefur heldur aldrei haft jafnþýðingarmiklu hlutverki að gegna eins og nú. Alþfl. er genginn íhaldinu á hönd í kauplækkunarherferð gegn verkalýðnum og öllum launastéttum landsins, en Alþb. er staðráðið í að berjast fyrir þeirri stefnu í efnahagsmálum, sem mörkuð var á Alþýðusambandsþingi af Alþfl.-mönnum og fylgjendum Alþb. í sameiningu.

Alþb. vill sannarlega stöðva verðbólgu og vaxandi dýrtíð. En Alþb. krefst þess, að fyrst sé hafinn sparnaður hjá ríkinu, þar næst klipið duglega af ofsagróða auðfélaga og stórgróðamanna, skipulagi verði komið á fjárfestinguna í landinu og henni sett hófleg takmörk, allt þetta áður en ráðizt sé á 5.000 kr. mánaðarlaun meðalfjölskyldu og þrengt að lífskjörum hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu, eins og íhaldið og Alþfl. hafa gert að sinni sáluhjálparkenningu í þessu frv. Og þessi stefna Alþb. er rétt stefna, sem alþýða landsins mun fylkja sér um. Hin gamalkunna og þráláta kauplækkunarstefna íhaldsins, sem Alþfl. hefur nú flekazt til að gera einnig að sinni stefnu, er hins vegar röng stefna, falskenning, sem verkalýðshreyfingin hefur alltaf barizt gegn og mun alltaf berjast á móti.

En er það nú víst, að verkalýðshreyfingin verði andvíg þessu kauplækkunarfrv. íhaldsins og Alþfl.? Það er nú þegar farið að sjást, hverjar undirtektirnar verða hjá launþegasamtökunum. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands markaði strax þann 19. jan. s. l. afstöðu sína til kauplækkunarfrv. með ályktun, sem birzt hefur í blöðum og tvívegis verið lesin hér í þessum umr. Í samþykktinni varaði miðstjórn

Alþýðusambands Íslands alvarlega við samþykkt frv. og benti sérstaklega á þá hættu, sem í því felst að ætla að afgreiða aðgerðir í efnahagsmálum án eðlilegs samráðs og samstarfs við launþegasamtökin í landinu. Jafnframt lýsti miðstjórnin yfir því, að hún væri reiðubúin til viðræðna við ríkisstj, um aðgerðir verðbólgunni til stöðvunar á grundvelli þeirrar samþykktar, sem þing Alþýðusambandsins í lok nóv. s. l. gerði í þeim efnum.

Landssamband íslenzkra verzlunarmanna hefur í sinni samþykkt um frv. mótmælt skerðingu ríkisvaldsins á frjálsum samningum launþega við vinnuveitendur sem hættulegu fordæmi, sem verkalýðsfélögin verði að gjalda varhuga við. Landssamband verzlunarmanna lagði líka ríka áherzlu á, að þeim byrðum, sem með frv. yrðu lagðar á þjóðina, verði réttlátlega skipt á allra herðar. Til þess að svo verði, segja verzlunarmenn sérstaklega nauðsynlegt, að vandlega sé tryggt, að í raun takist að framkvæma þær lækkanir, sem samkvæmt frv. eiga að verða á vörum og þjónustu, og virðist svo sem þeir leyfi sér að draga það í efa, að svo reynist. Stranglega verður einnig að gæta þess, segja þeir í ályktun sinni, að húsaleiga lækki raunverulega og vinna seld erlendum aðilum lækki ekki og renni mismunurinn þá í ríkissjóð.

Með þessu seinasta er bent á þá staðreynd, að samkvæmt frv. mun launakostnaður setuliðsins á Keflavíkurflugvelli lækka verulega, og það verður þannig setuliðið, sem græðir á efnahagsmálaaðgerðum íhaldsins og Alþfl.

Afstaða Landssambands íslenzkra verzlunarmanna er andstæð frv.

Þá gætir einnig harðrar andstöðu við frv. í samþykktum, sem ég nú hef séð frá fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Árnessýslu, Verkamannafélaginu Hlíf í Hafnarfirði, fulltrúaráði verkalýðsfélaganna á Akureyri, verkamannafélaginu Dagsbrún og Sjómannafélagi Hafnarfjarðar. Í öllum þessum samþykktum er mótmælt þeirri beinu kjaraskerðingu, sem í frv. felist. Lögbundinni lækkun á umsömdu fiskverði er einnig mótmælt og síðast, en ekki sízt skerðingu hins helga samningsréttar verkalýðsfélaganna, sem þau hafa öðlazt í harðri baráttu um áratugi. Má vera, að miklu fleiri verkalýðsfélög hafi þegar mótmælt frv., en þessi viðbrögð sýna ljóslega, að nú telja verkalýðsfélögin vá fyrir dyrum.

Hver er þá hin beina kjaraskerðing, sem í frv. ríkisstj. felst? Hún er þessi að því er snertir verkamenn og verkakonur og meiri hjá öllum þeim, sem hærra eru launaðir: Tímakaup verkamanna er nú kr. 23.86, en fer eftir 1. febr. niður í kr. 20.67. Lækkunin á útborguðu tímakaupi nemur þannig kr. 3.19 eða 13.4%. Dagkaupið lækkar þannig um kr. 30.31, ef reiknað er með átta dagvinnutímum og einum eftirvinnutíma, eins og algengast er. Og sé reiknað með 25 vinnudögum í mánuði, lækkar mánaðarkaup verkamanns um 757 kr., en af árskaupi slíks verkamanns nemur lækkunin, sem af frv. leiðir, hvorki meira né minna en 9.093 kr. og gæti fátækan verkamann munað um minna. Á móti þessari kauplækkun kemur svo sparnaður vegna niðurgreiðslu þeirrar, sem ákveðin hefur verið, en hún nemur, þegar miðað er við það magn af kjöti, saltfiski, nýmjólk, kartöflum, smjöri og smjörlíki, sem gert er ráð fyrir að meðalfjölskylda noti samkvæmt grundvelli hinnar nýju vísitölu, sem frv. gerir ráð fyrir að nú verði tekin upp, á mánuði kr. 176.32, og á ári sparast meðalfjölskyldu kr. 2.115.79. Sé þessi sparnaður vegna niðurgreiðslnanna dreginn frá, nemur kauplækkun meðalfjölskyldu verkamanns kr. 527.18 á mánuði, en á ári verður nettókauplækkun hans kr. 6.326.16.

Tímakaup verkakvenna í almennri vinnu lækkar úr kr. 18.62 í kr. 16.13 eða um kr. 2.49. Það verður á dag kr. 19.92, rétt við 20 kr. eftir átta stunda vinnu. Hér er því ráðizt á garðinn, þar sem hann er einna lægstur. Þess vegna er það, að ég og hv. 2. landsk. þm., Karl Guðjónsson, flytjum við þessa umr. till. til breyt. á frv., sem er svo hljóðandi:

„Enn fremur skal greiða verðlagsuppbót samkvæmt vísitölu 185 á allt grunnkaup kvenna samkvæmt samningum stéttarfélaga, þar til fullum jöfnuði er náð við kaup karla, sem vinna hliðstæð störf.“

Ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á því, að Alþfl. snúist gegn þessari sjálfsögðu till., sem miðar að auknu launajafnrétti milli kvenna og karla og hefur þó engin áhrif á vísitölu til hækkunar. En við sjáum, hvað setur.

Að því er hlutarsjómenn snertir, fer fiskverðið, eins og menn vita, úr kr. 1.91 í kr. 1.66 eða lækkar um 25 aura á kg. Getur það orðið laglegur skildingur, ef sæmilega aflast.

En nú kynni einhver að segja: Hverju á ég eiginlega að trúa? Ég hef lesið það í Alþýðublaðinu og gott ef ekki Morgunblaðinu líka, að þessar niðurgreiðslur og 10 stiga niðurfelling verði mér eftir allt saman til kjarabóta. — Við þessu segi ég aðeins eitt: Trúið engu í blindni, kannske er bezt að þið bíðið, þangað til þið getið þreifað á. Eftir 1. febr. verður ykkar eigin pyngja ólygið vitni í þessu máli og þá sést, hvers konar sannleiksvitni Alþýðublaðið og Morgunblaðið eru.

Seinustu dagana hafa Alþýðublaðið og Morgunblaðið sagt, og því sama leyfði hæstv. forsrh., Emil Jónsson, sér einnig að haldá fram hér áðan, að segja eitthvað á þessa leið: Góðir verkamenn, þið megið vera vissir um það, að þetta er allt saman gert ykkur til kjarabóta, þetta er nákvæmlega það sama og Hannibal gerði haustið 1956 og auk þess förum við í þessu frv. í einu og öllu eftir till. Hannibals Valdimarssonar, sem hann gerði grein fyrir í nóv. í haust í ágætri, já, stórmerkri grein í Vinnunni, tímariti Alþýðusambandsins. — Og svo mikið var við haft út af þessari grein, að hæstv. menntmrh. las þessa ágætu grein í heild í ræðu á Alþingi, og daginn eftir var hún einnig birt í heild í Alþýðublaðinu og myndir af höfundi á forsíðu beggja þessara verkalýðsblaða, Morgunblaðsins og Alþýðublaðsins. Öðruvísi mér áður brá. Þvílíkir forláta hræsnarar og falsarar!

Á sama hátt hafa þessi verkalýðsmálgögn hampað nöfnum manna eins og Gunnars Jóhannssonar og Einars Olgeirssonar o. fl., allt í þeim tilgangi að telja fólki trú um, að þeir hafi til skamms tíma mælt með svona aðgerðum í efnahagsmálum. En allt er þetta hið argasta fals og blekking.

Tökum nú til dæmis það, sem gerðist haustið 1956. Ég spyr: Voru þá og þar felld niður 10 vísitölustig af kaupi manna bótalaust? Nei og aftur nei. Þá stóðu sakir þannig, að 1. sept. átti vísitalan að hækka um 6 stig og nokkrum dögum síðar átti verð á landbúnaðarvörum að hækka um rösk 11%, og nú var lögð ósköp einföld spurning fyrir verkalýðsfélögin: Munduð þið sætta ykkur við þá ráðstöfun, að hvorki vísitöluhækkunin né hækkun landbúnaðarvaranna verði látin koma til framkvæmda? Og svar verkalýðshreyfingarinnar var afdráttlaust á þessa leið: Við mundum ekki aðeins sætta okkur við það. Við ætlumst til þess af þér og ríkisstj., að þetta hvort tveggja verði hindrað með brbl., og þá voru brbl. sett, sem Morgunblaðið var að ljósmynda á dögunum, en þau voru sett í nánu, víðtæku og fullkomnu samráði við verkalýðshreyfinguna, en ekki að henni forspurðri, eins og þetta frumvarpsskrípi er til orðið.

Og þá eru það skoðanir mínar í nóvember í hinni ágætu grein í Vinnunni og svo þessar aðgerðir hins vegar. Ég hafði sagt: Óheft verðbólguþróun er leiðin til glötunar. Hana verður að stöðva, og einasta þjóðfélagsaflið, sem það getur, er verkalýðshreyfingin í nánu samstarfi við samtök bændastéttarinnar. Og að lokum sagði ég þetta í margnefndri grein: „Nú þarf að deila byrðunum á bök allra Íslendinga. Framleiðslan getur tekið á sig nokkurn hluta byrðarinnar, ríkissjóður á að sýna nokkra viðleitni til sparnaðar, og auk þess getur hann vel staðið undir nokkurri niðurgreiðslu nauðsynjavara. Álagningu í heildsölu og smásölu á að færa aftur í sömu prósenttölu og s. l. ár. Ríki, sveitarfélög og einstaklingar eiga að draga nokkuð úr fjárfestingu á næsta ári. Bændur eiga að lækka framleiðsluvörur sínar, með því eykst sala þeirra. Og því eiga verkamenn að svara með því að falla frá nokkrum vísitölustigum af kaupi sínu. Nýja vísitölu á að taka upp í stað þeirrar gömlu. Takmarkið með öllu þessu á að vera það, að kaupgjald og verðlag nemi staðar, þar sem það nú er, þ. e. í 185 stigum, svo að atvinnulífíð geti haldið áfram án nýrrar tekjuöflunar eftir þessa aðgerð og þjóðartekjurnar geti haldið áfram að vaxa, eins og þær gerðu á árinu 1958, og það er raunar það eina, sem tryggt getur varanlegar kjarabætur.“

Þetta sagði ég í nóvember og þetta allt er ég reiðubúinn til að standa við í dag.

En hvers vegna ertu þá ekki með stjórnarfrv.? spyr hæstv. forsrh., og undir þá spurningu taka með honum hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason, og strengjameistarinn að tjaldabaki, hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson. Spurningu þeirra er auðsvarað: Þetta frv. nýtur hvorki stuðnings verkalýðshreyfingarinnar né samtaka bændastéttarinnar, og hefur það því enga fótfestu í veruleikanum. Hér er byrðunum ekki deilt á bök allra Íslendinga, heldur ráðizt sérstaklega á launastéttirnar. Framleiðslan er ekki látin taka á sig auknar byrðar, heldur eru nokkrum hundruðum útgerðarfyrirtækja og útgerðarmanna réttar 77.7 millj. kr. í nýrri aðstoð. Þetta er nú jafnréttið.

Menn hafa í þessum umr. spurt um sparnað ríkissjóðs, og nú er ljóst, að Sjálfstfl. vill engan sparnað á ríkisfé rétt fyrir kosningar. Ekkert orð er um það í frv., að álagning í heildsölu og smásölu verði færð aftur niður í sömu prósenttölu og á s. l. ári. Ekkert orð hefur enn heyrzt um ráðstafanir til að skipuleggja og draga úr fjárfestingu ríkisins, sveitarfélaga eða einstaklinga, og bændur hafa ekki fram að þessu lækkað framleiðsluvörur sínar. En sem svar við því taldi ég ekki útilokað, að launamenn fórnuðu nokkrum vísitölustigum af sínu kaupi. Og síðast, en ekki sízt taldi ég það vera takmarkið með öllu þessu að knýja kaupgjald og verðlag til stöðvunar í 185 stigum eins og Alþýðusambandsþingið mælti með nokkrum dögum síðar. Það var raunhæft takmark, en 10 stiga niðurfellingin í viðbót er kauprán, því að þessi ríkisstj. íhalds og Alþfl. hefur enga getu til að lækka verðlagið sem því svarar. Og svo skulum við þá heldur ekki gleyma því, sem Morgunblaðið hefur margtekið fram: Þetta eru aðeins fyrstu spor, fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum, framhaldssporin og síðari aðgerðir verða ekki nefndar á nafn, fremur en snara í hengds manns húsi, fyrr en eftir síðari kosningarnar í haust og við vitum, að það er gengisfelling.

Nú er ég við því búinn, að einhver spyrji: Telur þú ekki nauðsynlegt að stöðva verðbólguna og ef svo er, hvers vegna ertu þá á móti frv. ríkisstj.?

Þessu er ósköp fljótsvarað: Ég tel höfuðnauðsyn, að verðbólgan sé stöðvuð og það er heitasta ósk verkalýðshreyfingarinnar og allra launamanna, að reistar verði rammar skorður við verðbólguþróun þjóðfélagsins og reynt að stöðva hana hið fyrsta og einmitt þess vegna er ég ákveðinn andstæðingur þessa frv.

En er þá ekki stefnt að stöðvun verðbólgunnar með aðgerðum ríkisstj. í þessu frv.? spyrja menn. Nei, því fer víðs fjarri, að svo sé. Með þeim er einmitt stefnt út í stórfellda aukningu verðbólgunnar ásamt tilfinnanlegri og ranglátri kjaraskerðingu vinnandi stétta, eins og sýnt hefur verið fram á. Allir hagspekingar eru sammála um það, að hallarekstur hjá því opinbera auki verðbólgu. Með þessum aðgerðum ríkisstj. er stofnað til stórkostlegs hallarekstrar. Framtíðin á að borga brúsann, það dylst engum og þar með er stofnað til vaxandi verðbólguþróunar. Í öðru lagi er beinlínis stuðlað að aukinni verðbólguþróun í öllu verðlagskerfinu með ákvæðum frv. um tíðari endurskoðun, en áður bæði á landbúnaðarverði og fiskverði við hverja sveiflu, sem framfærsluvísitalan kann að taka upp á við.

Það er hin argasta villukenning, að kaup og kjör verkafólks séu höfuðorsök verðbólgu og þess vegna verði að byrja á því að skera vinnulaunin niður, þá stöðvist verðbólgan eins og af sjálfu sér. Hér er nefnilega byrjað á algerlega öfugum enda. Hið rétta er: Frumorsök þeirrar verðbólgu, sem hér hefur verið í íslenzku þjóðfélagi í rúman seinasta áratug, er það óhemjufjármagn á íslenzkan mælikvarða, sem inn í landið flæddi á stríðsárunum og eftir stríðið, um eða yfir 2,000 millj. kr., án þess að útflutningsframleiðslan ykist að sama skapi. Þannig hefur Keflavíkurflugvöllur og allt farganið í kringum hann, alltaf verið stórfelldur verðbólguvaldur og er það enn, þótt í minni mæli sé. Allt of miklum hluta þessa fjármagns var svo varið til aukinna lífsþæginda, ófrjórrar eyðslu og margs konar fjárfestingar, sem ekki leiddi til framleiðsluaukningar, og það er meginbölið.

Framleiðsluaukning og aftur framleiðsluaukning ásamt auknum sparnaði ríkisins er því rétta byrjunin, ef í alvöru skal lagt til atlögu við verðbólguþróunin, og með auknum þjóðartekjum er alls ekki líklegt, að til nokkurrar kauplækkunar þyrfti að koma.

Þetta frv. er vissulega kauplækkunarfrv. En verðlækkanirnar, sem það lofar, verða vissulega minni, en af er látið og munu koma með seinni skipunum og það er vissulega höfuðmisskilningur, ef það er þá ekki höfuðlygi, að aðgerðum þessa frv. sé stefnt gegn verðbólgunni. Þvert á móti, þetta er svo sannarlega verðbólgufrumvarp, sem einhliða ræðst á launastéttir landsins og riftar frjálsum samningsrétti verkalýðsfélaganna. Það er því heilög skylda Alþingis að mínu áliti að fella þetta frv.

Að lokum þetta: Ég harma það sáran, að það skyldi hafa hent verkalýðsflokk að hafa tekið að sér það hlutverk fyrir flokk atvinnurekenda að bera fram á Alþingi Íslendinga frv. til laga, sem brýtur niður samningafrelsi stéttarfélaganna og ákveður stórfellda kauplækkun með lögum. Í þessum harmleik og löngu eftir að hann er af sviði, munu íslenzkar launastéttir ekki gleyma, hver fór með hlutverk Ketils garmsins og því síður mun gleymast sá, sem í þessum leik fór með hlutverk Skugga-Sveins og valdi sér þó stöðu að baki Katli, en það er Sjálfstfl. í þessari mögnuðu aðför, sem nú er gerð að launastéttum Íslands.