11.05.1959
Sameinað þing: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (2220)

169. mál, framkvæmdir í raforkumálum

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessi till. til þá). á þskj. 480, sem flutt er af hv. þm. A-Sk. og fleirum, fer í stuttu máli fram á, að á þessu ári verði unnið við þær rafstöðvabyggingar og aðalorkuveitur, sem tíu ára áætlunin mælir fyrir um, í viðbót við þær sveita og kauptúnaveitur, sem áformað er að koma upp á árinu. Till. mun vera fram komin vegna þeirra upplýsinga, sem komu hér fram í fjárlagaumr., sérstaklega við 3. umr., um það, að nokkrar breyt. væru fyrirhugaðar á framkvæmd raforkumála og framkvæmd raforkuáætlunarinnar, tíu ára áætlunarinnar svokölluðu, enda er það mála sannast, að hjá hv. þm. A-Sk., sem var hér að ljúka sínu máli, kom raunar ekkert fram nýtt, sem ekki var þegar komið fram við þær umr. um þetta mál, sem fóru fram í sambandi við fjárlögin. Rök af hans hálfu fyrir því að hverfa aftur inn á þessa braut voru engin. Það eru engar tölulegar eða tekniskar upplýsingar, sem hann gat gefið eða flutt, sem mæltu með því, að aftur yrði horfið að hinni fyrri áætlun, ekki annað en ályktanir nokkurra manna, sem komið höfðu saman og gert um málið ályktun í fjórum hreppum Austur-Skaftafellssýslu. En það var einungis þeirra mat á hlutunum, en ekki að það væri á þann hátt rökstutt, sem ætla hefði mátt, ef það hefði átt að geta orðið undirstaða undir breytingar frá því, sem ákveðið hefur verið nú að gera í framkvæmd þessara mála.

Ég skýrði frá því þegar við 3. umr. fjárl., að forstöðumenn rafmagnsveitna ríkisins, raforkumálastjóri og rafveitustjóri ríkisins, hefðu mjög snemma, eftir að ég tók við þessum málum, komið að máli við mig og skýrt mér frá því, að reynsla þeirra af framkvæmd þessarar tíu ára áætlunar þau fimm ár, sem liðin væru af henni, hefði leitt til þess, að þeir hefðu tekið áætlunina til endurskoðunar. Þessi endurskoðun á tíu ára áætluninni hefur verið framkvæmd af þeim og fyrir þeirra frumkvæði. Það vil ég taka skýrt fram, eins og ég tók fram við fjárlagaumr., frumkvæðið að þessari breyt. er ekki frá neinum öðrum komið, en stjórnendum raforkumálanna sjálfum og með það fyrir augum að reyna að lækka kostnaðinn við framkvæmdina án þess að draga á nokkurn hátt úr þeirri þjónustu, sem hún átti að veita. Niðurstaðan af þessari endurskoðun varð hvorki meira né minna en sú, að með því að breyta framkvæmdinni eins og þeir lögðu til, þá treystust þeir til að spara milli 80 og 100 millj. kr. í þessi fimm ár, sem eftir eru, án þess að nokkur maður, sem fyrirhugað var að leiða rafmagn til, missti neins í við þær breyt., sem fyrirhugaðar eru. Þetta er kjarni málsins, og þetta er það, sem hv. þm. og raunar fleiri, sem honum fylgja þarna að málum, ætla að umhverfast yfir, að það er hægt að framkvæma verkið ódýrar eftir þessum nýju till. raforkumálastjóra, en var hægt að gera það áður. Mér finnst sannast sagna sjálfum, að þetta séu svo mikil rök fyrir breyt., að það ætti ekki að þurfa að eyða orðum að því að framkvæma verkið á þann hátt, sem nú er lagt til, í staðinn fyrir að gera það eins og áður var lagt til. Það er ekki neitt sáluhjálparatriði að eyða í þetta 100 millj. kr. meira, en þarf að gera, ef það er hægt að veita sömu þjónustu fyrir minna fé.

Hv. þm. sagði, að með þessu væri hugsað til að gerbreyta áætluninni um framkvæmd raforkumála. Það er rétt að því leyti til, að það er hugsað til að fresta vatnsvirkjun nokkuð og taka í staðinn upp dísilvirkjun og fella niður í bili tengingar á milli héraða, þannig að í lok þessa tíu ára tímabils verði komizt af án tenginganna, en vatnsaflsstöðin, sem fyrirhugað er að byggja, og sú eina, sem eftir er að byggja, virkjun Smyrlabjargaár, verði flutt til frá árinu 1960 til 1963. Þetta eru breytingarnar.

Mér fannst sannast sagna sérstaklega dæmið frá Austur-Skaftafellssýslu, frá heimasveit hv. þm., vera svo greinilegt vitni um það, sem vinnst við breyt. áætlunarinnar, að það skeri alveg úr um mína afstöðu til málsins. Það, sem hugsað var að gera í Austur-Skaftafellssýslu, var að virkja Smyrlabjargaá með 1.000 kw. og gera það á árinu 1960 og byggja síðan veitur frá virkjuninni út um héraðið. Það, sem nú er hugsað að gera eftir hinni endurskoðuðu áætlun, er að byrja á því að byggja 500 kw. dísilstöð í Höfn og leiða línurnar út frá henni, þar eð rafveitustjóri ríkisins og raforkumálastjóri hafa fundið það út, að á meðan ekki er búið að leggja línurnar til fulls um héraðið, notast ekki orkan úr vatnvirkjuninni, og það þarf ekki meiri orku, en þessi 500 kw., sem stofnað er til að fá með dísilstöð í Höfn, og málið getur þess vegna orðið leyst með fullkomnum árangri fyrir alla, sem hlut eiga að máli, á þennan hátt, sem verður miklu ódýrari á þessu árabili. Það er líka hugsað að flýta línulagningunni um héraðið um eitt ár, og útkoman fyrir Austur-Skaftafellssýslu verður þess vegna sú, að með breyt. fá bændurnir rafmagnið einu ári fyrr en ella og þeir fá virkjað í heild í lokin 1.500 kw. í staðinn fyrir 1.000, — og að þeir geti haft sig upp í það að hóa saman mótmælafundum út af þessu, það kann ég ekki að skilja.

Frestun er ekki sparnaður, sagði hv. þm. Það kann vel að vera, að svo sé. En þegar tíu ára planinu lýkur án þeirra framkvæmda, sem hér hefur verið lagt til að fresta, þá er lokið þeim áfanga, sem þetta tíu ára plan fjallar um, og án þessara framkvæmda, sem nú er lagt til að frestað verði. Hvað skeður svo í framtíðinni, þegar orkunotkunin er orðin meiri og meiri þörf á tengingum milli héraða, skal ég ekki segja. En það kemur ekki þessu tíu ára plani við.

Á annað vil ég líka benda, að með þessum geipilegu framkvæmdum, sem hér er verið að gera og þegar munu kosta yfir 400 millj. kr., er stofnað til meiri hallarekstrar, en þekkist á þessu landi áður, að ég vil segja. Það er gert ráð fyrir því, að rafmagnsveitur ríkisins muni skila 15–16 millj. kr. rekstrarhalla í ár, og þó að hann verði kannske ekki eins mikill á næstu árum, er gert ráð fyrir, að hann verði mikill. Ef það er nú unnt að lækka þennan rekstrarhalla kannske um 8 millj. kr. á ári með þeim breyt., sem hér er gert ráð fyrir að framkvæma, og án þess að skertur sé réttur nokkurs manns til þess að fá aukna raforku, þá tel ég það ekki ástæðu til þess að setja af stað mótmælafundi.

Ég tel þess vegna um þær breyt., sem fyrirhugaðar eru á þessari raforkuáætlun, sem er, eins og ég sagði, eitt stórfelldasta fyrirtæki, sem ráðizt hefur verið í á þessu landi og kostar mörg hundruð millj, og gert er ráð fyrir að reka fyrst um sinn með miklum halla, að það sé ekki ástæðulaust, að íhugaðir séu allir möguleikar til þess að draga úr fyrst og fremst stofnkostnaðinum og ekki síður rekstrarkostnaðinum, og það er það, sem yfirmenn þessara mála hafa verið að reyna að gera með þeim breyt., sem þeir hafa nú lagt til að farið yrði út í að gera.

Ég gerði grein fyrir þessu máli, eftir því sem það lá fyrir og liggur fyrir, við 3. umr. fjárlaganna og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það hér. Ég tel, að með þeim breyt., sem verið er að stofna til á áætluninni, sé ekki verið að draga úr þeirri þjónustu, sem ætlað er að veita landsfólkinu, en það sé opnaður möguleiki til stórfellds sparnaðar, bæði í stofnkostnaði og rekstri, og þess vegna sé sjálfsagt að breyta framkvæmdunum í það horf, sem stungið hefur verið upp á af þessum stjórnendum raforkumála. Ég vil þess vegna vænta þess, að hv. alþm, geti á það fallizt og að þessi till., sem hér liggur fyrir, verði ekki samþykkt.

Ég tel fráleitt um svona mál eins og þetta að afgreiða það án þess að vísa því til n. og vildi beina því til hæstv. forseta, þó að nú sé áliðið þings, að vísa málinu til hv. fjvn., til þess að hún gæti fengið að fjalla um það, og hún hefur þegar nokkuð fjallað um það og getur þess vegna væntanlega verið fljót að því að gefa um það sína umsögn. En að fara út í að samþykkja það svona, eins og það liggur fyrir, án nefndarathugunar, tel ég ekki forsvaranlegt um svona stórt mál.