28.01.1959
Neðri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Fram að þessu hafa framleiðendur ekki mátt hækka verðlag sitt, þótt grunnkaup eða vísitala hækkaði, fyrr en í lok verðlagsárs. Nú á að breyta þessu varðandi framleiðendur sjávarafurða. Flestum mun víst finnast, úr því að þetta er gert, að sama ætti að gilda um aðra framleiðendur einnig, bændurna, en ekki stjórnarflokkunum, eins og stjórnarfrv. ber með sér.

Framsfl. tók upp baráttu fyrir jafnrétti í framhaldi af óskum framleiðsluráðs landbúnaðarins. Stjórnarliðið lét undan siga og samþykkt var, að afurðaverð mætti hækka eins og grunnkaup, en jafnrétti fékkst ekki. Önnur vísitöluregla skal gilda fyrir bændur, en aðra framleiðendur.

Eftir frv. á að stokka upp verðlagsmálin nú og byrja á nýjum grunni.

Fellt var í dag á Alþingi að setja verðlag landbúnaðarafurða í samræmi við kaupgjaldið í dag og verðlag á útflutningsvörum í dag. Saman stóð stjórnarliðið allt og kommúnistar í því að synja bændum jafnréttis við aðra framleiðendur. Eftir þessu mun verða tekið.

Lítilmannlega fórst hv. 2. þm. S-M., Lúðvík Jósefssyni, í því að kenna efnahagslöggjöfina aðeins við tvo stjórnarflokkana. Að efnahagslöggjöfinni stóðu allir flokkarnir, sem stóðu að fyrrv. ríkisstj., og kommúnistar eða Alþýðubandalagsmenn gátu ekki bent á neina aðra færa leið í efnahagsmálunum en þá, sem farin var í frv.

Hann virtist ákaflega sorgmæddur yfir því, að nokkur greiðsluafgangur hefði orðið s. l. ár og heimtaði, að hann yrði étinn upp og alls ekki notaður til þess að auka íbúðalán eða til annarra slíkra framkvæmda, það fannst honum hneyksli. Greiðsluafgangurinn varð vegna þess, að innflutningur varð óvenjulega mikill vegna mikils lánsfjár, sem tekið var erlendis til framkvæmda á árinu og vegna óvenjulegra tekna af einkasölum á áfengi og tóbaki, sem sumpart byggðist á bættri tollgæzlu. Ef ekki hefði orðið nokkur greiðsluafgangur við þessi skilyrði, þá þýddi það, að fjárlögin hefðu verið raunverulega afgreidd með greiðsluhalla í meðalári.

Þessi hv. þm. talaði hér um sparnað í rekstri ríkisins. Við þekkjum, hvað kommúnistar meina með þessu sparnaðartali. Þeir hafa flutt hverja till. eftir aðra síðustu missirin í fyrrv. ríkisstj, um að skera niður verklegar framkvæmdir og til viðbótar að leggja fjárfestingarskatt á verklegar framkvæmdir.

Um stjórnarslitin í vetur eða ástæður fyrir þeim er óþarfi að deila. Einar Olgeirsson hefur lýst vígi stjórnarinnar á hendur sér hér á Alþingi. Hann lýsti því yfir í umr. einmitt um þetta frv., að sú stefna fyrrv. stjórnar að endurskoða vísitölukerfið hefði verið hrein fjarstæða og státaði af því, að hans flokkur hefði lokað þeirri leið gersamlega. En menn geta bara hér um bil séð, hvernig þá hefði verið hægt að fást við þessi mál, þegar það er athugað, að jafnvel þótt fallið sé frá 10 vísitölustigum, vantar upp undir 200 millj. inn í kerfið, uppbótakerfið og vegna ríkisbúskaparins.

Fyrrv. stjórn gat ekki leyst efnahagsmálin á kostnað framkvæmdanna úti um landið, þó að kommúnistar vildu það, því að með því hefði hún svikið stefnu sína, sem hún lýsti yfir að væri sú að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Og þó að kommúnistar vildu, að stjórnin sviki þessa stefnu sína, þá var það ekki hægt.

Hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, ræddi hér áðan nokkuð um viðskilnað fyrrv. ríkisstj. Ég hélt, að hv. þm. hefði orðið sér nægilega til athlægis hér á hv. Alþingi um daginn, út af broslegum mótsögnum hans, þar sem hann fyrst lýsti þeim digru sjóðum, sem eftir hefðu verið skildir í stjórnarráðinu og þar með of mikið tekið af þjóðinni, en umturnaðist svo á næstu mínútum út af því, að fyrrv. stjórn hefði verið gersamlega fjárþrota, bætti svo við áætlunum um að lifa af því að éta upp afgangana og fiskbirgðirnar með. En hv. þm. virðist það mest áhugamál að láta hlæja að sér og endurtekur því þessar sömu hlálegu fjarstæður núna hér í þessum umr. Hann virðist vera að búa sig undir að gerast skemmtikraftur á kosningasamkomum sjálfstæðismanna og vill því ólmur verða að athlægi strax. Hann um það. En lítið held ég að þessi málflutningur auki veg hans eða flokksins, og er sízt um það að sakast. Það er gott, á meðan hann heldur þessu áfram.

Í fjármálum botnar þessi hv. þm. ekki neitt, ruglar öllum tölum viljandi og óviljandi. Hann ber saman algerlega ósambærilegar skuldatölur, svo að úr verður botnlaus hringavitleysa og talar svo um ringulreið í reikningsfærslu.

Annars verð ég að segja, að þessar umr. upplýsa að ýmsu leyti betur, en mátti gera sér vonir um, hvernig línurnar liggja. Ég vona, að það hafi ekki farið fram hjá neinum, hvernig þeir hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, og 2. þm. S-M., Lúðvík Jósefsson, kepptust um að lýsa því yfir hér í útvarpinu, að annað eins hneyksli og það að verja 63 millj. af gengismuninum af Ameríkuláninu í ræktunarsjóð, í fiskveiðasjóð, í raforkuáætlunina og í sementsverksmiðjuna, að annað eins hneyksli og þetta, að verja þessum fjármunum í þessar framkvæmdir, vildu þeir ekki láta kenna við sig á einn eða annan hátt. Og hv. 1. þm. Reykv. sagði meira að segja, að þetta væri sérstakt rannsóknarefni, sem ekki væri búið að gleyma. Ja, hvílíkt hneyksli, að þessum fjármunum skuli hafa verið varið til þess að standa undir raforkuáætluninni, bátakaupunum, byggingunum í sveitunum s. 1. ár og til þess að ljúka sementsverksmiðjunni! En þetta sýnir kannske betur, en langar ræður, hvert það er, sem þessir hv. þm. eru að fara með öllu sínu tali um hina nýju fjárfestingarstefnu og þar fram eftir götunum. — Ég vona, að menn hafi tekið eftir þessu.

Í umr. þeim, sem hér hafa orðið um þetta mál, hefur Einar Olgeirsson, hv. þm. Reykv., deilt mjög fast á ranga og óarðbæra fjárfestingarstefnu og fjáraustur í atvinnuvegi, sem ekki ættu rétt á sér. En grundvöllurinn undir þessu öllu saman sagði hv. þm. að væri samkeppnin um kjördæmin, sem sagt, áhrif manna úti um landið væru of mikil. Og síðan, þegar hv. þm. hafði útlistað þetta með sterkustu orðum tungunnar og af mikilli mælsku, þá sagði hann: Má vera, að þetta lagist, ef kjördæmunum verður breytt.

Og í umr. hér í gærkvöld kom einn af forustumönnum Sjálfstfl., Ólafur Björnsson og hélt fyrirlestur um það, sem annars vegar héti pólitísk fjárfesting, en hins vegar það, sem kalla mætti efnahagslega fjárfestingu. Við vitum, hver hin pólitíska fjárfesting er. Það er fjárfestingin úti um land. En sú efnahagslega, það er eitthvað annað. Og í þessu sambandi var hann að tala m. a. um fiskiðjuverið á Seyðisfirði í mjög niðrandi tón. En það var annað hljóðið í sjálfstæðismönnum, þegar þeir fyrir skömmu voru að státa af forgöngu sinni að byggingu fiskiðjuversins á Seyðisfirði. Annars er bezt að spá sem minnstu um framtíð þess. Það liggur við góða og glæsilega höfn og getur kannske komið að meiri notum, áður en nokkurn varir, heldur en þeir halda, sem nú tala um það í fyrirlitningartón. En það væri fróðlegt að vita hjá þessum hv. forustumanni Sjálfstfl. og öðrum slíkum, undir hvorn flokkinn heyrir t. d. fjárfesting eins og bygging Faxaverksmiðjunnar og Hæringskaupin. Heyrir það undir pólitíska fjárfestingu eða efnahagslega fjárfestingu? Og hvar koma slíkar fjárfestingar eins og þær inn í hugleiðingar þessara hv. þm. um kjördæmamálið og það plan, sem þar liggur á bak við?

Og þessi hv. þm., forustumaður Sjálfstfl., hafði bætt því við, að ef hér hefði að undanförnu aðeins verið gætt þess að halda sig við efnahagslega fjárfestingu, þá mundi fjárfestingin hafa minnkað í heild og allt hafa verið í lagi. Jú, sem sagt, ef „pressan“ hefði verið minni og minna fjármagn lagt víðs vegar um landið til uppbyggingar á margan hátt, þá hefði fjárfestingin verið minni og gengið betur í efnahagsmálunum.

Á þessu sjá menn gleggra, en nokkru öðru, hvaða lausn það er, sem raunverulega er fyrirhuguð í efnahagsmálunum af hendi þessara manna.

Það er margt, sem angrar sjálfstæðismenn um þessar mundir og er það skiljanlegt. Eitt af því er framkoma flokksins í stjórnarandstöðunni undanfarið. Flokkurinn gafst alveg upp við að móta heilsteypta stefnu og reyna að vinna sér fylgi á því. Í þess stað greip flokkurinn til skemmdarverka, beitti sér fyrir hækkunarbaráttu, sem hann vissi að gat ekki orðið launastéttunum til nokkurs gagns, að ekki sé nú minnzt á landhelgismálið og lántökumálin. Notaði flokkurinn meira að segja atvinnurekendavald sitt til þess að koma slíkum hækkunum á, lét útsendara bjóða kauphækkanir, ef tregða var að krefjast þeirra.

Nú hefur komið fram eins glöggt og verða má, að fyrrv. ríkisstj. sagði mönnum satt um efnahagsmálin, en Sjálfstfl. sagði mönnum ósatt. Gleggsti vottur um það er till. Sjálfstfl. sjálfs um, að þjóðarnauðsyn beri til að lækka kaupgjald og afurðaverð um 6%.

Frv. það, sem hér liggur fyrir til 3. umr., fjallar í raun réttri um að innheimta af þjóðinni þær hækkanir, sem Sjálfstfl. eggjaði menn svo mjög á að taka s. l. ár. Einna gleggst væri kannske að hugsa sér aðalefnið úr þessu frv. sett upp eins og reikning og gæti sá reikningur mætavel hljóðað þannig: Reikningur: Til þjóðarinnar. Frá Sjálfstfl. An. (eða úttekið): Ofreiknað kaup og afurðaverð að áeggjan vorri 170 millj. Undir gæti svo staðið Sjálfstfl., Bjarni Benediktsson, e. u.

Betra hefði verið fyrir alla, að ekkert hefði verið farið eftir því, sem Sjálfstfl. sagði í sumar, en þess í stað fylgt stefnu fyrrv. ríkisstj.

Þetta er það, sem raunverulega er að gerast. Sjálfstæðismenn eru óánægðir með þennan málflutning og hafa jafnvel látið á sér skilja, að þeir þykktust við hann, en það kemur alveg skakkt niður, að þeir snúi þykkju sinni að okkur í Framsfl. eða öðrum fyrir það, hvernig þessum málum er komið. Ekki höfum við komið þeim í þessa klípu. Þeir hafa gert það sjálfir og þeir geta ekki búizt við öðru, en á þetta sé bent, enda er sannleikurinn sá, að þótt enginn benti á þetta í nokkurri ræðu, þá mundi það alls ekki fara fram hjá mönnum samt. Það er alveg óhugsandi. Þeir, sem fylgzt hafa með stjórnarandstöðu sjálfstæðismanna og vinnubrögðum þeirra undanfarið, kunna á þessu alveg glögg skil. Það munu sjálfstæðismenn eiga eftir að finna.

Þegar þessi mál ber á góma, þá reynir hv. 1. þm. Reykv. að verja sig eða draga athyglina frá aðalatriðinu með tveimur slúðursögum. Önnur er um till. framsóknarmanns í bæjarstjórn Reykjavíkur um Dagsbrúnarkaupið. En samhengi þessa máls er þannig, að sjálfstæðismenn ætluðu að hefna sín á Dagsbrúnarmönnum með því að halda fyrir þeim eðlilegum kauphækkunum, eftir að aðrir voru búnir að hækka hjá sér. Það átti að vera refsingin fyrir það, að Dagsbrún hafði lengur farið eftir aðvörunum ríkisstj. gegn kauphækkunum, en önnur félög og minna skeytt um útsendara Sjálfstfl. En till. framsóknarmannsins í bæjarstjórninni var um það, að Dagsbrúnarmenn skyldu njóta sambærilegrar afgreiðslu og aðrir, en slík hefur ævinlega verið afstaða Framsfl.

Þá er það sagan um SÍS og kauphækkanir mínar í Sambandinu. Alltaf þegar Bjarni Benediktsson er settur í klípu út af framkomu flokksins í efnahagsmálum, grípur hann til þessarar sömu slúðursögu, að ég hafi reist nýja kauphækkunaröldu 1956 með því að gangast fyrir kauphækkunum hjá SÍS. En málavextir eru þessir: Ný launalög komu í gildi frá 1. jan. 1956, og kaup opinberra starfsmanna hækkaði um 10%. Reykjavíkurbær hækkaði kaup sitt um mitt sumarið 1956, SÍS hækkaði til samræmis um haustið,og gilti hækkunin frá 1. jan. 1956, sama tíma og nýju launalögin. Hér er um alveg hliðstæða breyt. að ræða og var í launalögum ríkisins og hjá Reykjavíkurbæ, ákvörðunin tekin seinna, en greitt frá sama tíma. Hv. þm. býr hreinlega til slúðursöguna um nýja kauphækkunaröldu, sem SÍS hafi reist og endurtekur hana með viku millibili eða svo í Morgunblaðinu í því trausti, að sé lygin endurtekin nógu oft, þá verði henni trúað. En þetta á að draga athyglina frá hækkunarbaráttu sjálfstæðismanna, sem þó öll þjóðin þekkir og þess vegna er þetta þýðingarlaust.

Framsfl. hefur ekki haft aðstöðu til að koma á samtökum um þau vinnubrögð í efnahagsmálum, sem hann taldi þjóðarnauðsyn. Það liggur ekki fyrir nú heildaryfirlit um afgreiðslu efnahagsmálanna, en það, sem vitað er, bendir eindregið til þess, að stefnt sé til stórfellds hallarekstrar, sem ásamt fleiru verði til að reisa nýja verðbólguöldu og gera efnahagsmálin erfiðari eftir nokkra mánuði, en þau hafa nokkru sinni áður verið.

Framsfl. mun enga ábyrgð taka á ráðstöfunum ríkisstj. Flokkurinn mun á hinn bóginn ekki, þar sem hann hefur engin tök á að koma fram heildarráðstöfunum, sem hann hefur trú á, beita þingstyrk sínum til þess að fella þá þætti í till. ríkisstj., sem að hans dómi mega teljast tilraun til að halda í rétta átt eða eru óhjákvæmilegir, til þess að framleiðslan haldist gangandi, jafnvel þótt einhverja galla megi á þeim tillögum finna. Framsóknarmenn munu ekki gerast skemmdarverkamenn í stjórnarandstöðunni.

Yfir hefur nú verið lýst pólitískum ófriði til þess að afnema öll kjördæmin utan Reykjavíkur og heilögu stríði lýst um nýja fjárfestingarstefnu, sem byrjað er að kalla efnahagslega fjárfestingarstefnu í stað pólitískrar, þegar kjördæmaskipun hefur verið breytt. Áður hafa framsóknarmenn bent á, að lokamark andstæðinganna væri að afnema kjördæmin, en það hefur verið svarið og sárt við lagt, að slíkt kæmi ekki til greina, þetta væru bara getsakir framsóknarmanna. En hvað kemur í ljós? Nú er því yfir lýst, að ætlunin sé að lögleiða örfá stór kjördæmi. Það er erfitt að ganga framan að mönnum og segja, að verið sé með þessu að taka af þeim mikilsverðan rétt og minnka áhrif héraðanna. Þess vegna verður að reyna að dulbúa sig í vinargerfið sem fyrr og það er áður vel þekkt. Nú er sagt: Það á að kjósa jafnmarga samtals og áður. Það er meira að segja aukinn réttur að taka þátt í að kjósa fimm eða sex í stað þess að eiga þátt í að velja aðeins einn eða tvo. Það á að vera betra fyrir héruðin að eiga pínulítil ítök í þessum hóp, en að eiga sérstaka fulltrúa, eins og nú er. Eftir þessum falsrökum ætti það að vera enn þá meiri réttarbót að eiga þátt í kosningu enn þá fleiri manna í einu lagi og sú mest að kjósa allan þingheim í einu lagi og afnema alveg alla kjördæmaskiptingu.

Svona röksemdafærslu er boðið upp á til þess að slá ryki í augu manna um það, sem fyrirhugað er. Svo segir hv. 1. þm. Reykv., Bjarni Benediktsson, að sameining kjördæmanna sé ekki að leggja þau niður, það sé eins og gifting. Eftir sömu röksemdafærslu væri það ekki heldur að leggja kjördæmin niður að gera landið að einu kjördæmi. Það væri bara að sameina þau. Þessar röksemdir ætlar hv. þm. handa fullorðnu fólki. Þegar sá, sem lagnastur er sjálfstæðismanna að snúa út úr, býður upp á þetta, þá sjá menn, hvernig málstaðurinn er. Áætlunin er sú að slíta fólkið úti um land úr tengslum við þingmennina með hinum stóru kjördæmum. Enginn ræður við að hafa náin tengsl, þegar kjördæmin eru orðin svo gífurlega stór sem fyrirhugað er. Þannig á að minnka aðhaldið utan af landi, áður en höfuðúrræðin í efnahagsmálunum koma til greina. Það á að koma fram í verki, eftir að búið er að breyta til.

Eitt höfuðúrræði nýju stjórnarinnar er niðurskurðurinn. En aðrir munu ekki þora í þennan niðurskurð fyrir kosningar. Honum verður því vafalítið frestað, þangað til búið er að afnema kjördæmin og minnka pressuna.

Það er ekki út í bláinn, að þeir, sem fyrir kjördæmabreytingunni standa, hafa ekki viljað hlusta á málamiðlunartill. framsóknarmanna um að fjölga þm. kjördæmakjörnum, þar sem fólkinu hefur fjölgað mest. Slíkt mundi þó flestum finnast sanngjarnt, og ég vil biðja menn að taka eftir því, að Framsfl. hefur verið reiðubúinn til slíkrar málamiðlunar. Á þetta hefur ekki verið litið, vegna þess að með því móti yrðu kjördæmin ekki lögð niður. Afnám kjördæmanna er aðalatriðið í þessari nýju áætlun. Nú á að stíga lokaskrefið í því og á ekkert annað er hlustað.

En þess ber að gæta, að þessar áætlanir allar um nýja fjárfestingarpólitík, byggðar á nýrri stjórnskipan, eru alls ekki komnar í höfn. Almenningur í landinu á eftir að segja sitt orð. Það hefur skeð áður, að slíkar áætlanir hafa ekki komizt í framkvæmd, vegna þess að fólkið hefur risið á móti, hvað sem flokksforingjarnir sögðu og vildu. Enginn þingmanna er kosinn á þing til þess að leggja kjördæmi sitt niður. Mikill þorri manna úr öllum flokkum er á móti því að leggja niður kjördæmin og á móti þessari nýju fjárfestingarstefnu, sem boðuð er jafnframt. Afstaða manna í því efni fer ekki eftir flokkum. Fólkið í héruðunum hefur það á sínu valdi að knýja fram breyt. á þessum fyrirætlunum eða stöðva þær. — Góða nótt.