05.11.1958
Sameinað þing: 7. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (2242)

18. mál, smíði 15 togara

Fyrirspyrjandi (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvmrh, fyrir hans upplýsingar hér. Það væri vissulega fróðlegt að ræða þetta mál frá ýmsum hliðum með hliðsjón af því, sem hann hér sagði í sinni ræðu.

Til þess gefst ekki tími í fyrirspurnatíma sem þessum, þar sem fyrirspyrjandi hefur skamman tíma til umráða. Eftir svörum hans að dæma virðist það ljóst, að allt stendur enn fast varðandi þessi togarakaup.

Þegar fsp. var borin fram um þetta í fyrra, fyrir ári, var nefnd á förum til útlanda til þess að semja um smíði togaranna, og nú, þegar þessi fsp. er borin fram, á að afgera málið alveg nú á næstu dögum. Hvað verður svo að ári liðnu skal ég ekki um segja. En hæstv. ráðh. upplýsti það hér, að engin lán hefðu enn fengizt til smíði á togurunum og nú væri sett allt traust á það, að aðalbankastjóri Seðlabankans gæti útvegað nægilega peninga til þess að smíða togarana. Hann upplýsti það jafnframt, hæstv. ráðh., að nefnd sú, sem send var utan eftir áramótin nú síðast, hafi ekki, eins og Þjóðviljinn skýrði frá, átt að semja um smíði á 15 nýjum togurum, heldur 8. Virðist þá verða að draga nokkuð úr því hóli, sem málgagn hæstv. ráðherra hafði um hann sjálfan, þegar það skýrði frá sendingu þessarar nefndar, því að þá var birt af honum mynd og jafnframt stóð undir myndinni, að þessi hæstv. ráðh. hefði nú þegar tryggt framkvæmd á fyrirheiti ríkisstj. um kaup á 15 stórum togurum, auk þess sem 12 smærri skip komi til landsins á þessu ári. Vissulega er góðra gjalda verð framkvæmd í því efni að fá þessi 12 minni skip. — Ég skal ekki ræða það nánar hér, því að fsp. er aðeins bundin við 15 stærri togarana, enda lagði hæstv. sjútvmrh., þegar frv. um það efni var upphaflega lagt fyrir Alþ., einmitt á það höfuðáherzlu, hversu nauðsynlegt væri að kaupa þá togara, og skýrði jafnframt frá því, að það væru nú alveg síðustu forvöð að gera samninga um smíði þeirra skipa vegna þess, hve skipasmíðastöðvar væru bundnar og mundu verða það á næstunni, þannig að það mætti alls ekki dragast.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. hér upplýsti út af þessu máli og einkum lánamálinu, þá langar mig til að víkja að örfáum ummælum, sem birtust í blaði hæstv. ráðh., Þjóðviljanum, og væri þá mjög fróðlegt að heyra frá honum, hvort þar væri rétt frá skýrt eða á hverju slík ummæli mundu vera byggð.

Í sama blaði Þjóðviljans og birt var frásögn um það, að hæstv. ráðh. hefði tryggt kaupin á þessum 15 togurum, sem virðist nú eitthvað hafa farið á milli mála að vísu, þá segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í ritstjórnargrein:

„Það er fáránlegt, að flokkurinn, sem ekki keypti einn einasta togara til landsins þau átta ár, sem Ólafur Thors var sjútvmrh. síðast, skuli hafa fengið tök á að gagnrýna stjórnina fyrir það, að of seint gangi hjá henni að kaupa 15 nýja togara, vegna þess að enn hafa ráðamenn Alþýðuflokks og Framsóknar ekki fengizt til að taka hagstæð lán, sem bjóðast til þessara framkvæmda, af einum saman pólitískum heybrókarhætti.“

Og daginn eftir segir þetta sama blað, Þjóðviljinn, enn einnig í ritstjórnargrein:

„Þeir tveir ráðherrar, sem bera ábyrgð á þessum óafsakanlegu vinnubrögðum, eru Guðmundur Í. Guðmundsson utanrrh. og Eysteinn Jónsson fjmrh.“

Og loks segir í ritstjórnargrein í Þjóðviljanum 25. júlí í sumar:

„Loks er svo ásökunin um, að fyrirheitið um togarakaupin hafi verið svikið. Ekki verður um það deilt, enda hefur sú skammsýna afstaða Framsóknar og Alþýðuflokksins verið harðlega gagnrýnd af Alþýðubandalaginu.“

Það er nú að vísu svo, að í þeim svörum, sem hæstv. sjútvmrh. gaf hér við fsp., kom ekki fram nein sérstök gagnrýni af hálfu hans á þeim vinnubrögðum, sem höfð hefðu verið í þessu máli. En vissulega gefa þessi ummæli aðalmálgagns stærsta stjórnarflokksins tilefni til þess að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. sjútvmrh., sem í senn er kunnugur meðferð málsins og mun enda eiga innangengt hjá þessu blaði, hvort það sé rétt, að boðizt hafi hagstæð lán til kaupa á þessum skipum og það hafi strandað á einhverjum ákveðnum aðilum í ríkisstj. gegn mótmælum hans og ráðh. Alþb. að taka þessi lán, og það sé raunverulega svo, eins og segir í þessari síðustu ritstjórnargrein Þjóðviljans, sem ég vitnaði til, að það megi telja, að þetta loforð ríkisstj. um 15 nýja togara hafi verið svikið. Þetta er vissulega fróðlegt að heyra, vegna þess að ég tel, að þjóðin eigi heimtingu á að vita um það, hvað í þessu hefur gerzt, hvort það er raunverulega svo, að boðizt hafi hagstæð lán til þessara kaupa, en einhverjir sett þar fótinn fyrir. Því er það rétt, sem hæstv. ráðh. sagði í lok síns máls, að það er engum efa bundið, að það er mikils virði að efla okkar togaraflota, og það eru bundnar vonir við það, að þessi skip gætu leyst úr ýmsum vanda í þessu efni, auk þess sem það er vitanlega ljóst, að það verður að stefna að því í sambandi við togaraflotann, að endurnýja hann á eðlilegan hátt. Það má að vísu segja, eins og oft hefur áður verið á minnzt, að það sé ekki heppilegt að gera það í svo stórum stökkum eins og gert hefur verið, heldur ætti að kaupa 3–4 togara árlega. Það er önnur saga, sem ég skal ekki ræða nánar hér. En það er engum efa bundið, að menn fýsir mjög að heyra um það nánar frá hæstv. ráðh. en hann hefur þegar upplýst, hvort þessi skrif, sem ég vitnaði til í aðalmálgagni hans, eru birt með hans vitund og hvort þar er rétt frá málum skýrt.