05.11.1958
Sameinað þing: 7. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (2243)

18. mál, smíði 15 togara

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Það er nú harla einkennilegur háttur, sem hér er upp tekinn af ýmsum þingmönnum Sjálfstfl., þegar þeir taka að sér í stuttum fyrirspurnatíma, og það í fyrirspurn um tiltekið mál, að lesa upp það, sem einhver kann að hafa sagt eða skrifað um þetta eða hitt málið í blöðum, og væri þá kannske réttast svar, að ég læsi eitthvað svolítið upp á móti af því, sem hans flokkur og hans blað hafa verið að segja einmitt varðandi þessi mál. Það fer auðvitað ekkert á milli mála og hefur komið fram hér á Alþ., að flokkur þessa hv. þm. hefur ekki litið það neitt hýru auga og verið hér með hvers kyns skæting út af því, að það mundi standa til að taka lán til fiskiskipakaupa í tilteknu landi, og þegar þetta mál hér var rætt síðast í fyrirspurnatíma, þá gerðist það einmitt, að einn af þm. Sjálfstfl. var alltaf að inna eftir því, hvort það væri satt, að það stæði til að taka lán í sambandi við skipakaup í tilteknu landi. Allir kannast svo við óhljóðin í sambandi við það, m.a. í blöðum þeim, sem nærri standa þessum hv. þm., að slík ósvinna skyldi gerð af ríkisstj. að taka lán í Sovétríkjunum, 50 millj. kr. til þess að kaupa þessi 12 fiskiskip, með sérlega hagstæðum kjörum. Það er enginn vafi á því, að það hefur verið svo í langan tíma, að menn hér á Alþ. og einnig innan ríkisstj. líta nokkuð misjöfnum augum á það, hvar æskilegast sé að taka lán, og hver lítur á það sínum augum, hvaða lánstilboð séu eftir atvikum hagstæðust.

Ég vék að því áður, að við hefðum átt kost á því að fá hagstæð lán í sambandi víð smíði á þessum skipum, en það hefði verið hnigið að því ráði að taka m.a. þau lán til smíða á hinum smærri skipunum, og það var gert. En það voru ekki tök á því að smíða stóru skipin í sömu stöðvunum á sama tíma. Af því var freistað þeirra ráða að kanna til hlítar þau lánstilboð, sem borizt höfðu um lán, bæði frá Vestur-Þýzkalandi, frá Englandi og frá Belgíu, en einmitt í þessum löndum þekktum við allvel til togarasmíða af hinni stærri gerð.

Því er svo ekki heldur að neita, að það eru uppi misjafnar skoðanir manna á því, hversu nauðsynlegt það sé og réttmætt að efla togaraflotann. Ég minnist þess, að þegar þetta mál var hér síðast rætt á Alþ., þá reis hér upp einn af aðalforsvarsmönnum Sjálfstfl. og lýsti því hér yfir, að hann væri andvígur því að leggja á það nokkurt kapp að kaupa nýja togara til landsins.

Þannig mætti auðvitað lengi um þessi mál tala á víð og dreif. Ég sé ekki, að sé ástæða til að þreyta kapp um það í langan tíma hér, við þetta tækifæri. En hitt er aðalatriðið, að það er rétt, að það tók um 10 mánuði að vinna að eðlilegum undirbúningi, þannig að það lægi skýrt fyrir, hvað þau skip mundu kosta með eðlilegu útboði, sem við vildum kaupa, hvaða afgreiðslutími væri á þeim og hvaða meginskilmálar væru þar fyrir hendi. Þetta tók um 10 mánuði, það er rétt, og síðan hefur verið unnið að því að reyna að fá þau lán, sem talið hefur verið algert lágmark, til þess að leggjandi væri í það að festa kaup á svona mörgum skipum og svona dýrum. Það hefur ekki tekizt fram til þessa að fá lán í þessum löndum, sem vonir stóðu til um að fá lánin í. Um Bretland er það að segja, að þar er tvímælalaust því um að kenna, að við höfum átt í sérstökum deilum við Breta.

Ég vildi gjarnan mega spyrja þá áhugamenn í þessu máli innan Sjálfstfl., sem ræða nú þetta mál, að því, ef leiðir virtust lokast með lánsútvegun í Þýzkalandi, Belgíu og Hollandi, þar sem við höfðum hugsað okkur að leita helzt eftir smíði skipanna, ef leiðir virtust lokast í þessum löndum með að fá æskileg lán, hvort þeir vildu þá styðja það, að við t.d. tækjum hliðstæð lán hjá sama aðila og við tókum lánin hjá varðandi minni togarana 12. Þeir hafa væntanlega skapað sér einhverja skoðun á því, hvort við ættum að nota þann möguleika og draga þá ekki málið öllu lengur, en búið er. Það væri mér mjög kærkomið að fá að heyra það, hver þeirra afstaða er til þess, og e.t.v. gæti það einmitt, ef þeir vildu þar eiga algera samstöðu með öðrum, greiða eitthvað fyrir öllum gangi málsins. Annars sé ég ekki, að það hafi komið fram neinar fyrirspurnir í sambandi við málið, sem ekki hefur þegar verið svarað, og sé því ekki ástæðu til þess frá minni hálfu að lengja þetta frekar.