19.11.1958
Sameinað þing: 10. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í D-deild Alþingistíðinda. (2251)

18. mál, smíði 15 togara

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hafði áður í þessum umræðum, hæði í þetta skipti, sem nú var flutt fsp., og eins þegar fsp. var flutt um sama atriði fyrir nærri ári, einmitt gert grein fyrir því, að það lægju til þess ákveðnar ástæður, að hugur okkar hefði beinzt fyrst og fremst að því að fá þessi stóru skip smíðuð í Vestur-Þýzkalandi eða Bretlandi, en leita ekki til annarra landa, þar sem við þekktum minna til smíða á slíkum skipum.

Það er sem sagt reynsla okkar, sem ræður um það, að við vitum um, að það eru til togarasmíðastöðvar í Vestur - Þýzkalandi og Englandi, sem eru gerkunnugar því að smíða skip af slíkri gerð eins og við óskum eftir. Við þekktum minna til skipasmíðanna í Austur - Þýzkalandi, en höfum nú fengið af þeim talsverða reynslu. Við höfum þegar fengið hingað upp fyrstu bátana þaðan, sem hafa reynzt með ágætum vandaðir bátar og eru búnir að vera hér nú nærri heilt ár í rekstri, og þessi 12 skip, sem hafa verið í smíðum þar nokkuð á annað ár, við höfum einnig fylgzt með smíði þeirra og umboðsmenn okkar vita nú orðið, hvernig skip þetta eru.

Einmitt þegar þetta allt hefur legið fyrir, hef ég talið og margir aðrir, að full ástæða væri til þess að taka ákvörðun um það að fá nokkuð af þessum stóru skipum smíðað í þessum stöðvum, a.m.k. ef ekki reyndist af fjárhagslegum ástæðum mögulegt að fá smíðasamninga í Vestur - Þýzkalandi eða Bretlandi. Það er þetta, sem ég hef sagt hér í umr. áður. Það er því ekki vegna neinna fordóma, sem lán hefur ekki verið tekið í Sovétríkjunum á sama grundvelli og fyrir skipin 12 til smíða í stöðvum í Austur - Þýzkalandi, heldur vegna þess, að það þótti ekki tiltækilegt, — á meðan ekki var fyllilega gengið úr skugga um, hvort það væru möguleikar af fjárhagsástæðum að smíða skipin í Vestur - Þýzkalandi og í Bretlandi, þótti ekki rétt að fara í þessa lántöku og efna til smíða á skipunum í Austur - Þýzkalandi, og einnig var mjög örðugt að koma því við á sama tíma sem smíði á 12 skipunum stóð þar yfir.

En þegar nú búið er að ljúka smíði þessara 12 skipa og einnig, eins og ég sagði, ef svo kynni að fara, að vonir okkar brygðust með öllu með lántökur í Vestur - Þýzkalandi, eins og þær hafa raunverulega brugðizt með öllu í Englandi, þá tel ég, að það þurfi að taka afstöðu til þess, hvort við eigum ekki að láta smíða þessi skip einmitt í Austur - Þýzkalandi og fá svipuð lán til þeirra og við fengum til skipanna 12. Og það var út frá þessu, sem ég sagði, að það væri mín skoðun, að þá ættum við að hverfa að þessu ráði, og spurði hér fulltrúa Sjálfstfl. að því, hvort þeir væru á sömu skoðun, hvort þeir vildu styðja þessa leið. En þeir hafa ekki treyst sér til að svara því.

Það er því vitanlega með öllu rangt hjá hv. 1. þm. Reykv., að ég treysti mér ekki til að taka afstöðu til málsins. Afstaða mín hefur á þennan hátt verið alveg skýr allan tímann, og ég hef marglýst henni hér.

Þá komu hér fram alveg nýjar fsp. varðandi togarasmíðamálið, sem eru auðvitað líka langt fyrir utan þá fsp., sem hér hefur legið fyrir, og hefði verið miklu eðlilegra að hefðu komið fram eftir öðrum leiðum. En ég get nú leitazt við að svara þeim í stuttu máli eigi að síður.

Það var hv. 2. þm. Reykv. (ÁS), sem hér lagði fram nokkrar fsp. varðandi undirbúning að þessum skipakaupum. Hann spurði um það, hvort n. sú, sem verið hefur ríkisstj. til ráðuneytis um þessar smíðar, væri enn þá starfandi, og er því að svara játandi. Hún er enn þá starfandi og er ríkisstj. enn til ráðuneytis um allan undirbúning varðandi þessi skipakaup.

Hvers konar skip er hér fyrirhugað að kaupa? Ég skýrði hér frá því fyrir rúmu ári, að samkv. ákvörðun þessarar ráðuneytisnefndar ríkisstj. hefði verið gerð ýtarleg útboðslýsing á þessum skipum, send til 16 mismunandi skipasmíðastöðva og þar ýtarlega tekið fram, hversu stór skip þetta ættu að vera, hvernig þau ættu að vera útbúin í öllum höfuðatriðum. Þetta gætu vitanlega allir þeir, sem áhuga hefðu á málinu, fengið nákvæmlega upp, m.a. í mínu rn. Þessir ráðunautar ríkisstj. höfðu hallazt að því, að þessi skip yrðu nokkru stærri eða fullt svo stór og okkar stærstu togarar eru nú, milli 800 og 900 smál. Þeir höfðu gert ráð fyrir því, að hér yrði um dísilskip að ræða og þau yrðu smíðuð í meginatriðum á sama grundvelli og skip okkar eru nú, að botnvarpan, eins og hv. þm. minntist á, yrði tekin inn á hliðinni, en ekki sem skuttogarar, ekki þannig, að varpan yrði tekin inn að aftan. Það mál hafði verið athugað mjög vandlega og leitað umsagnar margra aðila um það, og m.a. einn okkar þekktasti og traustasti togaraskipstjóri á landinu, sem í n. er, Sæmundur Auðunsson, lagðist gegn því og taldi, að reynslan hefði sýnt, að þetta væri ekki komið svo langt enn, að rétt væri fyrir okkur að hverfa að því. Sömuleiðis var þetta skoðun skipstjóranefndar, sem sérstaklega var skipuð, áður til þess að athuga þessi mál, fimm þekktir togaraskipstjórar, þar með í hópi okkar mestu aflamenn. Þeir ráðlögðu einnig að halda sér í aðalatriðum við þá gerð, sem við höfum haft. Annars væri margt um þessa sérstöku gerð að segja, skuttogarana, og skal ég ekki fara út í það. En rétt er að benda á það, að sú gerð skipa er að verulegu leyti enn þá á tilraunastigi.

Þá spurði þessi hv. þm. einnig um það, hvort fyrirhugað væri, að t.d. eitt af þessum skipum yrði smíðað sérstaklega sem fiskileitar- eða fiskirannsóknaskip. Því vil ég svara þannig, að það hefur fyrir nokkru verið hafinn undirbúningur að því, að smíðað yrði sérstakt fiskileitar- og fiskirannsóknaskip. Fiskifræðingar okkar hafa undirbúið þetta mál nú um nokkra hríð, fengið erlenda sérfræðinga hingað heim einmitt til þess að vinna að undirbúningi málsins, og má nú segja, að allur aðalundirbúningur að slíkum framkvæmdum hafi verið unninn. Einnig hafa verið rannsakaðir möguleikar á því, á hve stuttum tíma hægt er að fá slíkt skip smíðað og með hvaða lánskjörum, en á síðasta Alþingi var hér samþ. till. um sérstakan tekjustofn einmitt í því skyni að byggja slíkt fiskirannsóknaskip.

En vilji hv. alþm. fá frekari upplýsingar hér um fyrirhugaða gerð þessara 15 togara, þá er annaðhvort fyrir þá að flytja hér um það sérstaka skriflega fsp., svo að eðlilegur tími gefist til þess að fara ýtarlega út í slíkt, eða þá að leita eftir upplýsingum um það eftir þeirri leið, sem auðvitað er beinust fyrir þá, en það er annaðhvort til þeirrar n., sem hefur unnið að málinu á vegum ríkisstj., eða þá að fá að sjá gögn um málið í sjútvmrn.