07.01.1959
Sameinað þing: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í D-deild Alþingistíðinda. (2262)

69. mál, yfirlæknisembætti Kleppsspítala

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram kemur í þeirri fsp., sem hér liggur fyrir, að landlæknir hafði gert grein fyrir þeirri hugmynd við mig, meðan ég gegndi störfum heilbrmrh., að yfirlæknisembættið á Kleppi yrði gert jafnframt að prófessorsembætti, þannig að yfirlæknirinn þar hefði sömu aðstöðu og yfirlæknar í handlækningum og lyflækningum við landsspítalann. Ég tók þessa hugmynd landlæknis til athugunar og ráðgaðist við ýmsa lækna viðvíkjandi henni, og varð það til þess, að ég frestaði því að auglýsa yfirlæknisstöðuna á Kleppi um — að ég hygg tveggja mánaða skeið, meðan þessi athugun fór fram. En þessi athugun leiddi í ljós, að læknar töldu, að það væri að vísu ekkert fjarstætt að gera fræðslu í taugasjúkdómum að kennslugrein við háskólann, en bentu á, að þá væri ekki óeðlilegt, að jafnframt því, sem þessi breyt. væri gerð, ef hún yrði gerð á annað borð, væri einnig gert að kennslugrein við háskólann á sama hátt fræðsla um brjóstsjúkdóma og holdsjúkdóma, og töldu, að þá væri eðlilegast, að embætti yfirlækna þeirra stofnana, sem hér er um að ræða, yrði einnig breytt á þann hátt, að prófessorsembætti við háskólann fylgdi. Þá hefðu öll þessi embætti orðið launuð með sama hætti og yfirlæknisembættið við landsspítalann, þ.e. með hálfum öðrum launum.

Fráfarandi ríkisstj. hafði tekið ákvarðanir um að fjölga ekki embættum á þessu ári, nema þá a.m.k. með því að láta það fara í gegnum þar til kjörna n. En af því hefði leitt a.m.k. hálf önnur embættislaun, ef þessi breyt. hefði verið gerð. Ég taldi því ekki neina ástæðu til þess að gera þessa breyt. sérstaklega í sambandi við skipun nýs yfirlæknis við Kleppsspítalann, þetta mætti gera hvenær sem væri ella, og auglýsti því, eftir að ég hafði tekið þessa ákvörðun, yfirlæknisembættið á Kleppi með 3 mánaða umsóknarfresti, eins og fyrir mun vera mælt í reglugerð.

Ég sé ekki annað, en ef heilbrigðisyfirvöldin telja, að þessa breyt. beri að gera, geti þau gert hana hvenær sem er og einnig þá gert yfirlækninn á Vífilsstöðum að prófessor á sama hátt, ef ástæða þykir til og ríkisstj. hefur þá stefnu að taka einhvern fjörkipp í aukningu embætta og embættiskostnaðar hjá ríkinu.