21.01.1959
Sameinað þing: 23. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í D-deild Alþingistíðinda. (2274)

80. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það er að því leyti sama að segja um þessa fsp. og þá síðustu, að það kemur fyrst og fremst í minn hlut að flytja hér þær upplýsingar, sem ég hef getað aflað mér um málið, án þess að núv. ríkisstj, hafi haft af því nein veruleg afskipti. En þær upplýsingar, sem ég hef hér að flytja um gang þessa máls, hef ég fengið frá raforkumálastjóra með bréfi, dags. 17. þ.m., og það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir samþykkt þáltill. um Vestmannaeyjaveitu sendi hið háa rn. ályktunina hingað til umsagnar. Því bréfi rn. hefur þó ekki verið svarað nema munnlega. En um þetta mál er aðeins hið sama að segja og þá, að í heildaráætluninni um tíu ára raforkuframkvæmdir hefur verið gert ráð fyrir því, að sæstrengurinn til Vestmannaeyja yrði pantaður á árinu 1959 og að veita í heild yrði lögð sumarið 1960. Þessi áætlun miðaðist við það, að gert var ráð fyrir, að fyrri vélin í Efra-Sogi tæki til starfa um næstu áramót og sú síðari næsta sumar, og er útlit fyrir, að sú áætlun muni standast. En ekki var ætlunin að tengja Vestmannaeyjar við, fyrr en virkjun Efra-Sogs væri lokið.

Þegar tillit er tekið til þessa og hins, hve mikið af fjárfrekum veitum hefur verið í smíðum undanfarið, sáum við okkur ekki fært að leggja til, að Vestmannaeyjaveitu yrði flýtt umfram það, sem gert hafði verið ráð fyrir.

Eins og hinu háa rn. er kunnugt, þá er í hinni upprunalegu framkvæmdaáætlun gert ráð fyrir, að ráðizt verði á þessu ári í ýmsar veitur, t.d. Hornafjarðarvirkjun og veitu, Skógaveitu, Vopnafjarðarveitu o.s.frv. Nú virðist ærið tvísýnt af fjárhagsástæðum, hvort unnt verður að ráðast á þessu ári í nokkuð af þessum verkum. Fari þó svo, að fé verði fyrir hendi til að hefja framkvæmdir við sum þessara verka, en önnur ekki, verður að meta það, hvaða verk er mest aðkallandi að framkvæma og hverjum má fresta. En til þess að geta um þetta sagt, teljum við þurfa að gera ýtarlega endurskoðun á þeim hluta tíu ára áætlunarinnar, sem eftir er að framkvæma. Miðast þá sú endurskoðun við það að athuga, hvort fresta megi án baga sumum hinna kostnaðarsamari atriða áætlunarinnar, ef tiltölulega ódýrar bráðabirgðaráðstafanir eru gerðar í þeirra stað á meðan.

Stofnkostnaður Vestmannaeyjaveitu frá Hvolsvelli er áætlaður í kringum 15 millj. kr.

Virðingarfyllst,

Jakob Gíslason.“

Til viðbótar þessu hef ég aðeins það að segja, að ég hef átt tal við raforkumálastjóra og rafveitustjóra ríkisins um framkvæmdir ársins 1959 og framvegis, en aðeins einu sinni, og endanleg ákvörðun var þar ekki tekin, enda ekki unnt að taka hana, á meðan svo margt er í óvissu um framkvæmd málanna. En það, sem í málinu hefur gerzt í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj., er rakið í bréfi raforkumálastjóra.