21.01.1959
Sameinað þing: 23. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (2275)

80. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Ég vil þakka hæstv. forsrh., sem tók að sér að svara þessari fsp., og að svo miklu leyti sem það kann að vera tryggt eða verða tryggt, að tíu ára áætlunin standist, verði komin 1960 sem sagt í notin, virkjanirnar verði komnar í þau not, sem tíu ára áætlunin gerir ráð fyrir, þá býst ég ekki við, að ég geti að öllu leyti verið óánægður með svar hæstv. ráðh. Hæstv. ráðh. lagði hér fram sem svar bréf varðandi þessa þál., bréf hv. raforkumálastjóra um þetta mál, og skal ég kynna mér það við tækifæri. En ég heyrði, að hæstv. ráðh. gat þess í sinni ræðu, að raforkumálastjóri teldi þörf á endurskoðun tíu ára áætlunarinnar, og það getur vel verið, að hún reynist nauðsynleg. En þó er það þannig, að það byggðarlag, sem hér á í hlut, unir því illa, að bíða lengur, en til 1960, eftir framkvæmdum í þessu efni, og er það í engu samræmi við afgreiðslu þessara mála gagnvart mörgum öðrum landshlutum, eins og vitað er, enda var upprunalega þáltill. hjá mér og hv. 2. landsk. þm. miðuð við það, að svo mikill undirbúningur yrði við hafður, að þessi áætlunartími gæti staðizt. Við sigldum nú ekki fyrir hærri byr en það. En það virðist vera jafnvel misjafnlega í það tekið á hærri stöðum.

Ég vil þess vegna, um leið og ég þakka fyrir fram komnar upplýsingar, áskilja mér rétt til þess að hreyfa þessu máli enn á ný, ef fram fer endurskoðun á tíu ára áætluninni, því að mínir umbjóðendur telja ekki, að Vestmannaeyjar séu settar á hærri stall, en önnur byggðarlög í þessari áætlun, heldur jafnvel neðar eða seinna en aðrir, svo að það má ekki minna vera, en haldið sé í því horfi, sem málið hefur verið frá upphafi, hvað Vestmannaeyjar snertir og tengingu þeirra við orkuveitur ríkisins.

Á þessari stundu vil ég ekki fjölyrða meira um þetta mál, en hlýt að leggja áherzlu á það og treysta þeim, sem framkvæmdavaldið hafa í þessum efnum, til þess að greiða fyrir því, að áætlunin sé ekki sett úr gildi eða hrakin af leið, heldur sé haldið í því horfi, sem í henni er gert ráð fyrir, og Vestmannaeyjar fái ekki seinna þá tengingu við landið heldur, en um leið og virkjun Efra-Sogsins lýkur. Þá megi vonast eftir því, að aflið verði notað líka þangað eins og til annarra staða á landi hér, sem eiga að njóta góðs af virkjun Sogsins og aukins krafts, þegar Efra-Sogsvirkjuninni lýkur. Á þetta legg ég áherzlu og mun, að ég hygg, tala þar fyrir munn allra, sem í Vestmannaeyjum búa, þar sem vaxandi iðnaður og vaxandi raforkuþörf knýr mjög á um það, að Vestmannaeyjar komist í tengingu við allsherjarraflögn Suðurlandsundirlendisins. Það er þá að bíða átekta um tíma, hvort þessu máli verði að hreyfa enn á ný. Hæstv. Alþ. hefur alltaf léð þessu máli sitt góða lið, og ég vonast til, að hæstv. ríkisstj. leggist ekki þar á móti eða láti raforkustjórn ríkisins undan fella að gera það, sem nauðsynlega þarf að gera í þessu efni.