21.01.1959
Sameinað þing: 23. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (2276)

80. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þeim umræðum, sem hér hafa farið fram um þessa fsp., aðeins leggja áherzlu á það, að í upplýsingum hæstv. forsrh. hefur komið fram, að raforkumálastjórnin telur, að vert sé að láta fram fara endurskoðun á þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið eða gerðar voru á sínum tíma um tíu ára framkvæmdir í raforkumálum. Þá vil ég leggja sérstaka áherzlu á það og beini því sérstaklega til hæstv. ríkisstj., að ef slík endurskoðun verður gerð, þá er aðstaða Vestmannaeyja sú, að hér er um að ræða eina kaupstaðinn í landinu, sem enn er ekki tengdur við rafveitukerfi ríkisins. Við hann hlýtur þjóðin því að hafa alveg sérstakar skyldur, og sú ríkisstjórn, sem kann að láta fara fram endurskoðun á þessu plani, hlýtur að verða að taka tillit til þeirra skyldna. Enn fremur vil ég vekja sérstaka athygli á því, að Alþingi hefur samþykkt ályktun um það, að hraða beri framkvæmdum einmitt á Vestmannaeyjarafveitulínunni, og þau yfirvöld, sem kunna að framkvæma endurskoðun á rafvæðingaráætluninni, hafa einnig þá skyldu við Alþ. að taka tillit til þeirrar yfirlýsingar, sem felst í þeirri þál. um Vestmannaeyjarafveituna, sem hér hefur borið á góma í þessum umr.

Ég vildi sérstaklega vekja athygli á þessu og vænti þess, að það verði ekki gengið fram hjá því í væntanlegri endurskoðun, að hér er um að ræða þann framleiðslubæ, sem á undanförnum árum hefur lagt þjóðarbúinu til verulegan hluta af þeirri framleiðslu, sem frá landinu fer. Þetta er eini bærinn, sem ekki er kominn inn á rafveitukerfi ríkisins enn þá. Enn fremur bendi ég á það, að Alþingi hefur þegar samþykkt ályktun um, að hraða beri lagningu þeirrar veitu, sem hér er um að ræða.