21.01.1959
Sameinað þing: 23. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (2279)

173. mál, vegakerfi á Þingvöllum

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Á Alþingi þann 30. maí 1958 báru allmargir þm. fram þáltill. um að láta breyta vegakerfi á Þingvöllum. Ályktun Alþingis um þetta mál hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa og hefjast handa — Í samráði við vegamálastjóra og Þingvallanefnd — um vegagerð á Þingvöllum, svo fljótt sem auðið er, þannig að unnt verði að hætta allri bílaumferð um Almannagjá.“

Ég veit ekki til, að opinberlega hafi birzt um þetta neitt, og sjálfur hef ég ekki orðið þess var, að neitt væri framkvæmt í þessu efni, sem þó kann að vera einhver undirbúningur, sem ég hef ekki fylgzt með. En ég vil vonast til þess, að hæstv. ríkisstj. geti upplýst, hvernig málið horfir nú við. Það var fjöldi þm., sem flutti þá þál., sem hér er um að ræða. Ég man nú ekki nöfn þeirra allra, en ég held ég hafi slegizt í þann hóp. En það voru mjög rökstudd tilmæli um að breyta vegakerfinu á þessum stað, sem hæstv. Alþ. féllst á með þessari þál. Þingvellir eru sá staður, sem menn sækjast eftir að komast á og sýna gestum sínum, sérstaklega langt að komnum gestum, og þykir eiginlega varla hæfa, að Ísland sé heimsótt af hálfu útlendinga, ef þeir koma ekki á Þingvöll. Það er nokkurn veginn vitað.

Nú er það þannig, að bílaumferðin um Almannagjá er á ýmsan hátt til stórbaga fólki, sem er til skemmtunar sér þar eystra og vill gjarnan njóta friðar í hinni miklu og söguríku gjá, en það gerir bílastraumurinn, bílaumferðin, allt frekar óánægjulegt fyrir þá, sem fótgangandi eru og vilja njóta kyrrðar náttúrunnar í næði. Þar að auki virðist mörgum sem það sé ekki hættulaust að fara með þunga bíla um þennan veg, og hver sem þar fer um sér með eigin augum, að úr bjarginu, sem umlykur gjána, hafa hrotið stórir steinar niður á akbrautina á ýmsum tímum, og það er sannarlega mikil hætta fyrir þá, sem um gjána fara, og t.d. ökutæki, þegar slíkt kemur fyrir, að steinar geta hrotið niður á umferðarbrautina. Ég held, að það hafi verið lögð nokkuð mikil áherzla á það og það skýrt fyrir hv. þingheimi á sínum tíma, hvernig þarna horfir við, enda er málinu af hálfu Alþingis beint bæði til hv. vegamálastjóra og til hv. Þingvallanefndar, og meðlimir úr henni eiga hér auðvitað sæti og gætu upplýst, ef þeim sýndist svo, hvernig málið horfir við frá hálfu Þingvallanefndarinnar, en hæstv. ríkisstj. ætti að geta gefið upplýsingar um aðgerðir af hálfu vegamálastjórnarinnar til að breyta þessum vegi og vegferð niður á Þingvöll, svo sem farið er fram á.

Ég tel, að hér sé um nauðsynjamál að ræða, hvort sem málið er skoðað frá einu sjónarmiði, þ.e.a.s. því sjónarmiði að hafa frið á akbrautinni þarna á Þingvöllum, eða þá hinu, sem ég held að sé enn þá þýðingarmeira, að þarna er fyrir hendi, veruleg slysahætta. Auk þess er vitanlegt, að í snjóum fyllir oft gjána og teppist umferðin á Þingvöll, vegna þess að vegurinn liggur í gegnum Almannagjá, en mundi ef til vill ekki teppast, ef hann lægi annars staðar. Annars er það einkennilegt tímanna tákn, má segja, eins mikið dálæti og allir landsmenn hafa á Þingvöllum, hvað þessum stað er lítill sómi sýndur.

Séra Jóhann Hannesson skrifaði fyrir nokkru grein um Þingvöll í víðlesið blað hér á landi og víkur þar að því m.a., að þrátt fyrir það, þó að Þingvallavatnið leggi til vatnsmagn f virkjanirnar, t.d. Sogsvirkjanirnar, þá sé það svo, að rafmagn frá Soginu sé leitt á ýmsa staði utan sjálfra Þingvalla, en alls ekki inn á Þingvöll sjálfan. Ég þori nú ekki að segja, að hann hafi um þetta nein stór orð, en hann sýnir fram á þessa staðreynd. En ég vil segja, að það sýnir merkilegt tómlæti við þennan helga stað þjóðarinnar, sem Alþingi sjálft kýs fulltrúa fyrir sig til þess að sjá um, — þá er það einkennilegt tómlæti, að mér virðist, sem staðnum er sýnt á þessu sviði, sem lýtur að raforkumálum. Hitt er það, sem fsp. ræðir um, aðallega samgöngurnar við Þingvelli og vegakerfið sjálft á Þingvöllum, og þar liggja til alveg skýrar ástæður fyrir æskilegri breytingu, sem gæti fært Þingvöllum meiri friðhelgi og meira öryggi vegfarendum, eins og ég efast ekki um að hefur verið tilgangur þeirra, sem fluttu þáltill. í maí s.l.

Vænti ég, að hæstv. ríkisstj., að gefnu tilefni með þessari fsp., geti gefið hinu háa Alþingi skýrslu um, hvað hefur verið gert til þess að fara eftir vilja Alþingis í þessu efni.