21.01.1959
Sameinað þing: 23. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (2280)

173. mál, vegakerfi á Þingvöllum

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leitað til vegamálastjóra til þess að fá upplýst, hvað í þessu máli hefur gerzt, sem fyrirspyrjandi hefur óskað upplýsinga um, og fengið frá vegamálastjóranum svar, sem — með leyfi hæstv. forseta — er svo hljóðandi:

„Ráðuneytið hefur hinn 16. þ.m. sent mér til athugunar þingsályktun frá 30. maí 1958 um að láta breyta vegakerfi á Þingvöllum. Með bréfi til ráðuneytisins, dags. 10. des. 1957, sendi ég samrit af grg. til fjvn., dags. 9. des. 1957, varðandi vegagerð á Þingvöllum, er ég samdi að beiðni Þingvallanefndar.

Í ofangreindri grg. til fjvn. var það tekið fram, að Þingvallanefnd væri sammála um, að heppilegasta leiðin til þess að losna við bílaumferð í Almannagjá væri að byggja nýjan veg frá vegamótum við Brúsastaði, vestan við Almannagjá og niður á Leirur hjá Leirulæk. Leggja þarf um 4.1 km af nýjum vegi og byggja nýja brú á Öxará. Í grg. var kostnaður við þessa breytingu áætlaður 1.5 millj. kr., en með núv. verðlagi yrði kostnaðurinn um 1.75 millj. kr., að meðtalinni brú á Öxará, sem lauslega er áætluð 700 þús. kr. Með þessari breytingu lengist leiðin til Þingvalla frá Reykjavík um 5 km eða 10%, en jafnframt fengist snjólétt leið fram hjá Almannagjá, sem oft lokast af snjó í vestan- og norðvestanátt. Það skal þó tekið fram, að vetrarumferð til Þingvalla og um Þingvelli er hverfandi lítil. En þegar vegur kemur yfir Lyngdalsheiði að Laugarvatni, má gera ráð fyrir verulega aukinni umferð að vetrarlagi.

Í áðurnefndri grg. til fjvn. var einnig vakin athygli á því, að vegurinn frá vegamótum að Valhöll og að Vatnsvík er mjög mjór og mishæðóttur og mikil þörf á að laga hann verulega, þar sem umferð um hann getur orðið allt að 1.000 bílar á dag um helgar. Er hér um að ræða 4 km langan vegarkafla, og mun lagfæringin á honum tæpast kosta minna, en 400 þús. kr., — þar sem flytja þarf að allt efni til breikkunar vegarins.

Í framangreindu erindi til fjvn. fór ég fram á 300 þús. kr. fjárveitingu til breytingar vegarins á vestri bakka Almannagjár og einnig 150 þús. kr. fjárveitingu til lagfæringar á veginum frá Valhöll að Vatnsvík. Engin fjárveiting var þó veitt til þessara verka á s.l. ári, og varð því ekki af framkvæmdum.

Ein meginorsök þess, að óskað er eftir því að færa þjóðveginn úr Almannagjá, er hið mikla ryk, sem umferðin um gjána þyrlar upp. Þessi plága er ekki síður alvarleg á veginum upp vellina og frá Valhöll í Vatnsvík.

Með því að flytja veginn úr gjánni upp á vesturbarminn yrði öll umferð til Þingvalla að fara um veginn á völlunum, og mundi þá rykplágan þar aukast að miklum mun, og er það illa farið, þar sem tjaldstæði eru þarna skammt frá veginum.

Hvað sem breytingum þjóðvegarins um Almannagjá líður, þá lít ég svo á, að mikið mundi vinnast við það eitt að rykbinda þjóðveginn á Þingvöllum framvegis, en kostnaður við það yrði um 100 þús. kr. árlega, meðan varanlegt slitlag er ekki sett á vegina.“

Þetta er bréf vegamálastjóra, dags. 17. jan. s.l.

Eins og fram kemur í bréfinu, telur hann, að orsökin fyrir því, að ekki hafi verið hafizt handa um lagfæringu þessara vega, sem þáltill. hv. þm. Vestm. o.fl. fjallaði um, sé sú, að það hafi ekki fengizt á fjárlög þessa árs eða fjárlög fyrra árs 1958 tekin upphæð til þess að nota í þessu skyni.

Ég hef um nokkurt skeið átt sæti í Þingvallanefnd og hef þess vegna fylgzt nokkuð með aðgerðum í þessu máli. Sæti í þeirri n. eiga einnig fyrrv. hæstv. forsrh. og hv. þm. N-Ísf., og við höfum oft um það rætt, að það væri mjög æskilegt og nauðsynlegt að gera þessar breyt. á vegakerfi Þingvalla, og höfðum raunar áður, en þessi þáltill. kom fram, óskað eftir því við vegamálastjóra, að hann sendi fjvn. till. í þessu efni, sem hann gerði í des. 1957, eins og fram kemur i hans bréfi. Að ekki hefur orðið af framkvæmdum, er eingöngu vegna þess, að til þess hafa ekki fengizt fjármunir.