04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í D-deild Alþingistíðinda. (2286)

121. mál, innflutningur véla og verkfæra

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir greinagóð svör, sem hann hefur gefið. En því miður verð ég að harma það, að hann benti ýtarlega á, að það mundi verða samdráttur í innflutningi véla til landbúnaðarins á þessu ári, og ég harma það vegna þess, að sú þróun hefur átt sér stað í landbúnaðinum á s.l. árum, að það hefur sýnt sig, að með hverju árinu, sem hefur liðið, hefur verið meiri þörf fyrir vélar, og enn þá bendir allt til þess, að þessi sama þróun haldi áfram. Og þar við bætist einnig, að þær vélar, sem fyrst voru keyptar til landsins, munu nokkuð ganga úr sér frekar í framtíðinni. en verið hefur.

Það er ef til vill hægt að benda á, að það geri ekki mikið til, þó að dregið sé úr innflutningi slíkum sem þessum eitt ár í bili. En því miður getur það gert mjög mikið strik í reikninginn vegna þess, að venjan er sú að miða við þær tölur, sem hafa verið notaðar árið áður, þegar um innflutning er að ræða, eins og hæstv. ráðh. gerði hér nú. En ég vil benda á það, að í þeim upphæðum, sem hann hefur nefnt, er verulega dreginn saman bæði innflutningur til allra jarðyrkjutækja og einnig til varahluta, þótt hins vegar ráðh. tæki það ýtarlega fram, að hann mundi stuðla að því, að sú ríkisstj., sem nú situr, sæi um, að ekki yrði skortur á varahlutum, ef sú sama stjórn verður þá við völd allt árið, og vænti ég, að hæstv. ráðh. geri sitt ýtrasta til þess, að hægt verði að standa við þau orð, sem hann hefur sagt.

En ég vil undirstrika, að það er mjög varhugavert að stíga skrefið aftur á bak í þessum efnum, því að sú þróun, sem hefur verið í þessum málum á undanförnum árum, mun áfram halda og krefst þess, að ekki verði slakað á í þessum efnum, heldur hið gagnstæða. Ég vil líka jafnframt benda á það, að landbúnaðurinn hefur á undanförnum árum orðið arðsamari útflutningsatvinnuvegur, en áður var og mun eiga eftir að verða það í ríkari mæli í framtíðinni og því mikil ástæða til að gera allt, sem unnt er, til þess að svo megi verða.