04.03.1959
Sameinað þing: 31. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í D-deild Alþingistíðinda. (2290)

121. mál, innflutningur véla og verkfæra

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég gat nú ekki stillt mig um að kveðja mér hljóðs, þegar ég hlustaði á það dæmalausa ábyrgðarleysi hjá þessum hæstv. fyrrv. fjmrh., sem nýlauk máli sínu. Hann stendur hér upp og segir: Ég mótmæli því, að það sé gerð gangskör að því að flytja inn tiltekið magn af hátollavöru til þess að standa undir fyrir fram gerðum áætlunum um tekjur til útflutningssjóðs og ríkissjóðs, — þessi maður, sem hefur átt frumkvæði að því að byggja upp fjármálastefnu í landinu á undanförnum árum þannig, að hjá þessu verður ekki komizt. Og þannig var unnið í tíð fyrrv. hæstv. ríkisstj. Það var ekki svo sjaldan, sem þáv. hæstv. viðskmrh., 2. þm. S-M., rak á eftir því af miklum skörungsskap í bönkum og annars staðar, að tiltekið magn af hátollavöru yrði flutt inn, vegna þess að það væri óhjákvæmilegt miðað við þá fjármálapólitík, sem rekin væri og byggð upp af hv. 1. þm. S-M. Og þegar því er lýst hér yfir í þingsölunum, að gjaldeyrissalan til landbúnaðartækja, sem um er að ræða, muni sennilega verða meiri á þessu ári, en á s.l. ári, þegar tekin er hliðsjón af því, að ríkisstj. lýsir yfir, að hún vilji tryggja nægilegan gjaldeyri til varahlutanna, þá segir hv. 1. þm. S-M., að það sé auðsætt, að nú eigi að draga úr innflutningi landbúnaðartækja og þessi nýja stefna, einhver ný stefna, sem verið er að tala um, muni leiða til þess og það muni bitna á landbúnaðartækjunum.

Mér er alveg ljóst, að það er stundum gengið nokkuð langt í lýðskrumi hér í þingsölunum og það, sem hér er skrafað, ætlað miklu fremur fyrir blöðin, en fyrir þm. Þegar þeir, sem hafa lagt grundvöllinn að því, sem hér er verið að ræða um, koma nú og fárást yfir því, að það þurfi að haga verzlunarpólitíkinni og gjaldeyrissölunni með sama hætti og áður hefur verið og viðkomandi aðilar hafa lagt grundvöllinn að, þá fer skörin að færast upp í bekkinn.